Sólrún Lára Sverrisdóttir fæddist í Reykjavík 4. júní 2002. Hún lést af slysförum 8. júlí 2022.

Foreldrar hennar eru Sverrir Gíslason, f. 1969, sauðfjárbóndi og Fanney Ólöf Lárusdóttir, f. 1970, sauðfjárbóndi og ráðunautur. Systkini Sólrúnar Láru eru Svanhildur, f. 1999 d. 1999, Sigurður Gísli, f. 2006, og Ásgeir Örn, f. 2008.

Sólrún Lára er uppalin á Kirkjubæjarklaustri II. Hún var alla sína grunnskólagöngu í Kirkjubæjarskóla á Síðu og útskrifaðist þaðan vorið 2018. Hún var einnig í Tónlistarskóla Skaftárhrepps og lærði á mörg hljóðfæri, gítar, píanó, blokkflautu og þverflautu. Að loknu grunnskólanámi lá leiðin í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og lauk hún stúdentsprófi þaðan í vor 2022 af opinni braut. Sólrún Lára stundaði tónlistarnám við Tónskóla Sigursveins um árabil.

Sólrún Lára var einstök, hjartahlý, glaðvær, hógvær, kurteis, sjálfstæð og dugleg. Nærvera hennar var ávallt notaleg. Hún gat gert allt sem hún vildi. Hún bakaði þær kökur sem henni datt í hug að baka og eldaði allan mat sem hana langaði til að elda. Sólrún, amma hennar, var mikil fyrirmynd hennar þar.

Sólrún Lára tók hestamennskuna með trompi. Var mjög ung góður reiðmaður og fór hún oft ríðandi á móti afréttissafninu til að aðstoða við fjárreksturinn. Sólrún Lára var mjög liðtæk við bústörfin. Aðstoðaði við heyskap, á sauðburði, gjafir á veturna og hvað eina sem gera þurfti við búskapinn. Sólrún Lára kom sér alls staðar vel þar sem hún vann. Hún var fimmta sumarið að vinna á Tjaldstæðinu Kirkjubæ II og líkaði vel þar. Haustið 2021 hóf hún vinnu með námi á Pylsubarnum, Hafnarfirði, og fannst það mjög skemmtilegt.

Sólrún Lára fór allt of fljótt frá okkur. Allt lífið framundan. Hún ætlaði að hefja nám við Háskóla Íslands í haust og tilhlökkunin var mikil fyrir því. Hún var komin með húsnæði á Stúdentagörðunum frá byrjun ágúst og lífið var svo bjart framundan.

Útför Sólrúnar Láru fer fram frá Prestsbakkakirkju á Síðu í dag, 23. júlí 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku Sólrún Lára! Það er sárt að kveðja. En allar góðu minningarnar okkar saman munu lifa um ókomna tíð. Öll ferðalögin, unglingalandsmótin, reiðtúrarnir, tónlistin, blakæfingarnar og svo margt margt fleira munum við geyma og ylja okkur við. Svo allur kökubaksturinn. Afmæliskökurnar fyrir ykkur systkinin og foreldrana, randalínan sem var ómissandi um jólin og á sauðburði, „kjúklinga“-súpan með ærkjötinu og ítalski kjötrétturinn. Já, það mætti skrifa langa ritgerð um öll afrekin þín í eldhúsinu enda byrjaðir þú ung þar að „aðstoða“ mömmu í eldhúsinu.

Þú varst yndisleg systir. Vildir allt fyrir bræður þína gera og meira að segja líka reyna að ala þá almennilega upp. Þú gafst aldrei upp á því.

Yndislega Sólrún Lára! Við munum geyma þig í hjarta okkar og varðveita.

Hvíl í friði.

Mamma, pabbi, Sigurður Gísli og Ásgeir Örn.

Ein af mínum fyrstu minningum er að eignast litlu frænku mína Sólrúnu Láru. Þegar við urðum aðeins eldri og Sólrún var farin að geta leikið sér með okkur frændsystkinunum bað amma mig oft að passa að Sólrún yrði ekki útundan. Amma hafði stundum aðeins áhyggjur af nöfnu sinni, enda var Sólrún yngst af okkur eldri frændsystkinunum en gat haft mjög ákveðnar skoðanir og vildi að hlutirnir yrðu á sinn veg. Það átti það til að enda í svolitlum deilum þar sem við frænkurnar höfum alltaf allar verið mjög ákveðnar konur. Síðan átti ég að passa að Sólrún drægist ekki aftur úr í ófáum gönguferðum sem voru farnar um Klaustur, á meðan hún var ennþá með stystu fæturna af okkur. Ég reyndi auðvitað að gera mitt besta til að passa upp á hana þegar amma bað mig um það.

Sólrún var lífsglöð og það var sjaldan dauð stund í kringum hana. Þegar fjölskyldan kom á Klaustur leið yfirleitt ekki langur tími þangað til Sólrún var komin hlaupandi til ömmu til að heilsa upp á okkur. Hún kom svo yfirleitt alltaf með okkur í öll ævintýrin í fríinu á Klaustri, hvort sem það var að ganga upp á brún, út í sjoppu að kaupa nammi og ís eða að synda í Stjórn.

Þegar ég varð eldri var ég svo heppin að fá að kynnast Sólrúnu betur og við urðum mun nánari en við höfðum verið sem krakkar. Á seinni árum, þegar við vorum komin með bílpróf, fórum ég, Sólrún, Svanhildur og Þorri oftast á rúntinn þegar fór að líða á kvöldin í matarboðum á Klaustri. Fullorðna fólkið hélt að það væri að losna við okkur en í rauninni vorum við að fara til að losna við þau. Það þurfti svo oft að ræða ýmis mikilvæg málefni. Í þeim ferðum var yfirleitt hlegið mikið og gert grín. Svo voru haldin ófá náttfatapartí þar sem við frænkurnar gistum sama og ræddum fram á nótt. Sólrúnu fannst það oftast góð hugmynd að við myndum deila rúmi. Ég var ekki alveg sammála því þar sem Sólrún tók yfirleitt alltaf allt plássið og lá svo þétt upp að mér þegar ég vaknaði um morguninn. Síðan þrætti hún alltaf fyrir það og taldi að það væri alveg öfugt með farið, þrátt fyrir að ég hefði myndir til sönnunar. Ég lét nú samt yfirleitt eftir henni að deila með henni rúmi, hún var eftir allt saman litla frænkan.

Elsku Sólrún mín, ég vildi óska að ég gæti passað þig eins og ég reyndi að gera að ósk ömmu þegar við vorum yngri og ég myndi glöð deila með þér rúmi jafnvel þótt þú tækir allt plássið og lægir alveg upp við mig. Ég er ofboðslega þakklát fyrir allar minningarnar, skemmtilegu sögurnar, rúntana og ævintýrin með þér. Þau hefðu átt að verða miklu fleiri.

Þín frænka,

Sunna.

Elsku hjartans ljúfa, skemmtilega, duglega og fyndna Sólrún Lára. Þú stóðst á tímamótum í vor, settir upp stúdentshúfuna og áttir allt lífið fram undan. Hvað sem þú hefðir tekið þér fyrir hendur, það hefði allt leikið í höndunum á þér. Hver man ekki eftir öllum fallega skreyttu tertunum sem þú galdraðir fram eins og ekkert væri? Kærar þakkir fyrir allar minningarnar þótt þær hefðu auðvitað átt að verða mikið fleiri. Við munu aldrei gleyma þér og fallega brosinu þínu. Þið Sólrún amma munuð eiga góðar stundir saman á betri stað.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar, Fanneyjar Ólafar, Sverris, Sigurðar Gísla og Ásgeirs Arnar.

Guðrún, Þórarinn, Þorri, Þórdís, Eyþór og Erna Diljá.

Elsku hjartans vinir og fjölskylda. Okkur skortir orð til þess að lýsa þeirri sorg sem við nú berum öll í hjarta, þegar okkar yndislega frænka er hrifin burt rétt þegar fullorðinsárin eru að hefjast.

Við fylgdumst með fæðingu litlu frænku okkar á Klaustri og biðum spennt eftir að sjá hana vaxa og dafna.

Sólrún Lára var einstaklega glæsileg ung kona með fallegt bros, hlýjan faðm og hógvær.

Þær frænkur Sólrún, Imba og Dísa, dætur mínar, voru miklir mátar og alltaf var mikil tilhlökkun að hitta frænku á Klaustri.

Við kveðjum Sólrúnu Láru með miklum harmi og sorg í hjarta. Þótt samverustundirnar hefðu mátt vera fleiri, ná þær að lýsa í hjörtum okkar og ylja.

Nú saman leggja blómin blöð,

er breiddu faðm mót sólu glöð,

í brekkum fjalla hvíla hljótt,

þau hafa boðið góða nótt.

(Magnús Gíslason)

Elsku Fanney, Sverrir, Sigurður Gísli og Ásgeir Örn. Við þurfum öll að læra að lifa með sorginni. Sá lærdómur er þungur.

Blessuð veri minning Sólrúnar Láru.

Jóhanna Guðríður Linnet.

Elsku fallega frænka mín, ég trúi því ekki enn að þú sért farin frá okkur. Það er stutt á milli gleði og sorgar í þessu lífi. Geislandi björt og fögur eins og sólin komstu á móti mér í síðasta sinn sem við hittumst fyrir nokkrum vikum. Hvernig getur það verið að þú sért ekki lengur hér, þú sem áttir allt lífið framundan. Að hafa fengið að taka þátt í lífi þínu þegar þú varst lítil stúlka er ómetanlegt og hugsa ég til þeirra stunda með gleði og þakklæti. Ég var 13 ára fyrsta sumarið sem ég passaði þig. Það gat verið krefjandi enda varst þú alla tíð ákveðin dama en aldrei var það leiðinlegt og ýmislegt sem brallað var á þessum árum. Þú hafðir frænku þína algjörlega í vasanum alla tíð og varst ekkert ofurspennt að þurfa að deila henni en þú varst nú búin að taka Þórgrím í sátt í seinni tíð.

Þú varst búin að skrá þig í Háskólann í haust og mikið sem ég hlakkaði til að fylgjast með þér rúlla því upp og fylgjast með þér í gegnum lífið. Elsku frænka, nú hafa hlutverkin snúist við og nú ert það þú sem passar mig og vakir yfir mér sem og öllu þínu fólki. Ég vel að trúa því að Sólrún amma þín hafi tekið á móti þér með nýbökuðum súkkulaðiklöttum (með engum rúsínum) og hlýjum faðmi. Ég mun ávallt muna þig og geyma í hjarta mér, elsku fallega Sólrún Lára, þangað til við sjáumst næst.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Skáld-Rósa)

Elsku Sverrir, Fanney Ólöf, Sigurður Gísli og Ásgeir Örn, innilegar samúðarkveðjur til ykkar á þessum erfiðu tímum. Megi minningarnar um Sólrúnu Láru færa ykkur huggun og styrk. Hugur okkar er hjá ykkur.

Ágústa Sól og Þórgrímur.

Í dag kveðjum við Sólrúnu Láru. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt. Að stúlka í blóma lífsins sé tekin frá okkur er óskiljanlegt. Hún átti allt lífið framundan. Við erum ennþá að reyna að ná áttum. Sitjum öll með kökk í hálsinum og tár á hvarmi.

Þú komst eins og sólargeisli inn í líf foreldra þinna og okkar allra. Með stóru fallegu augun þín og fallega brosið þitt.

Þú varst strax ákveðin ung dama. Enda veitti ekki af, yngst af eldra barnagengi okkar systra og eignaðist þar að auki tvo yngri bræður. Ef þú ákvaðst eitthvað varð því ekki breytt. Þegar þú varst fjögurra ára buðum við þér til Reykjavíkur á leikritið um Ronju Ræningjadóttur. Í upphafi leikritsins voru mikil læti sem þér leist ekkert á og heimtaðir þú að fara út. Þegar út var komið tilkynntir þú mér að pabbi þinn hefði sagt þér að ef þú yrðir einhvern tímann hrædd ættir þú að forða þér svo að auðvitað gerðir þú eins og pabbi þinn sagði. Svanhildur, þá sex ára, sat ein eftir inni í salnum á meðan við spjölluðum fyrir utan þangað til leikritið kláraðist. Sama hvað ég reyndi varð þér ekki haggað í ákvörðun þinni um að fara ekki aftur inn í salinn. Allir keyrðu þó heim á Klaustur ánægðir með vel heppnaðan dag.

Elsku Sólrún, mikið var gaman að geta fagnað með þér 20 ára afmælinu og stúdentsskírteininu í ömmu og afa húsi um daginn. Þú geislaðir af hamingju og spenningi, að vera búin með stúdentsprófið og vera að byrja í háskólanum.

Afar þínir og ömmur munu örugglega taka vel á móti þér og þið nöfnurnar Sólrún og Sólrún Lára bakið sjálfsagt saman margar brúnar lagkökur með hvítu kremi og gerið hreindýrabollur úr kindahakki.

Það er þungbært fyrir okkur öll að kveðja elsku Sólrúnu Láru. Hugurinn er hjá foreldrum hennar og bræðrum sem hafa misst mikið. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar, Fanney Ólöf, Sverrir, Sigurður Gísli og Ásgeir Örn.

Alltaf saknað – aldrei gleymd – hvíl í friði, elsku Sólrún Lára.

Þín frænka,

Kristín.

Ég var tveggja ára þegar Sólrún fæddist og höfum við í gegnum tíðina eytt miklum tíma saman. Þegar við vorum yngri vorum við ekki alltaf sammála og fannst mér hún stundum óþarflega uppáþrengjandi. Eftir að hafa einhvern tímann rifist við hana og kvartað undan henni þegar við vorum litlar sagði amma mér að við yrðum einn daginn enn betri vinkonur og fegnar að eiga hvor aðra að. Hún hafði rétt fyrir sér eins og svo oft áður. Við urðum enn nánari með aldrinum og ég leit á hana sem mína bestu vinkonu. Það var aldrei langt á milli samtala okkar en það skipti engu máli hversu langur tími leið, alltaf gátum við rætt um heima og geima og var hún sú fyrsta sem ég hringdi í ef eitthvað merkilegt gerðist eða ég þurfti einhvern til að tala við. Það var aldrei vesen að hringja í hana með stuttum fyrirvara til að mæla sér mót og hún gaf sér alltaf tíma til að spjalla þegar við tókum stöðuna hvor á annarri.

Sólrún kallaði sjálfa sig oft svarta sauðinn í fjölskyldunni vegna þess að hún hafði ekki eins mikinn metnað fyrir námi og við hin eldri frændsystkinin og reyndi eins og hún gat að draga okkur út á djammið. Hún gerði sér hins vegar ekki grein fyrir því hve mikið við dáðum hana fyrir áhyggjuleysið og jafnaðargeðið sem hún bjó yfir, kjarkinn og ákveðnina og hve gaman hún hafði af því einfaldlega að vera til.

Hún var lagin við að skreyta kökur á þann veg að engan langaði að skera í þær, var góð í að hlusta og sjá björtu hliðarnar á lífinu, var jákvæð og kvartaði sjaldnast yfir nokkrum hlut nema kannski því þegar hún þurfti að vakna snemma. Einn af hæfileikum hennar var að taka eftir og muna bílnúmer en hún var ótrúleg í að muna eftir bílum hvort sem það voru bílar fólks sem hún þekkti eða ekki. Stundum vissi hún til að mynda ef hún hafði mætt sama bílnum tvisvar eða þrisvar þann daginn án þess að vita nokkuð hver sat við stýrið.

Við Sólrún vorum sammála um það í vetur þegar amma Sólrún lést skyndilega að við tilheyrðum sterkri og samstæðri fjölskyldu sem kæmist saman í gegnum erfiða tíma. Aldrei hélt ég þó að ég þurfti að upplifa erfiða tíma án hennar.

Elsku Sólrún, það sem ég á alltaf eftir að sakna þín. Ég get þó talið mig heppna að hafa kynnst þér og upplifað með þær góðu stundir sem við áttum saman þó að þær verði ekki fleiri.

Elska þig alltaf.

Þín

Svanhildur.

Það er sorglegt og erfitt að setjast niður og skrifa minningargrein um Sólrúnu Láru sem var tekin frá okkur svo snöggt og svo ung, alltof, alltof snemma. Sólrún Lára var stór partur af æskunni minni, við vorum saman í leik- og grunnskóla og ég á ótal dýrmætar minningar frá þeim árum sem hafa hrannast upp síðastliðna daga. Það er svo margt sem er hægt að rifja upp og margs að minnast en ómögulegt er að skrifa það allt. Þegar við vorum yngri þá skreyttum við piparkökur fyrir jólin, löbbuðum um allt á Klaustri og seldum til styrktar Rauða krossinum. Margar góðar stundir við að leira og horfa á Clueless hjá ömmu og nöfnu Sólrúnar. Gistipartí og ekki má gleyma prinsessusængurverinu sem ég fékk að hafa, ógleymanleg afmæli með kræsingum sem Sólrún bakaði en hún var lagin við bakstur og kökuskreytingar. Þegar ég, Sólrún og Erna kepptum í hönnunarkeppninni Stíl, gistum í Reykjavík og fórum í bíó. Það var heldur betur framandi og mikil upplifun fyrir okkur stelpurnar úr sveitinni. Við stelpurnar að græja okkur fyrir böll í grunnskóla og skólaferðalögin, alltaf var gaman og mikið hlegið. Ég man þegar ég og Sólrún vorum litlar, þá létum við okkur dreyma um hoppukastalahús sem myndi fljóta í Skaftá með 100 herbergjum og öllum fríðindum sem hægt er að hugsa sér. Við hugsuðum þetta alveg til enda og höfðum fulla trú að þetta yrði að veruleika einn daginn því að í þessu hoppukastalahúsi ætluðum við að búa í. Á framhaldsskólaárunum fékk ég oft far með Sólrúnu í bæinn eða á Klaustur og áttum við alltaf einlægt og gott spjall þar sem við rifjuðum upp gamlar minningar og líðandi stundir. Síðustu önn hitti ég Sólrúnu oft á Þjóðarbókhlöðunni og þar áttum við góðar samverustundir sem mér þykir afskaplega vænt um. Við vorum að vinna að stúdentsprófinu okkar og hlökkuðum til að setja upp stúdentshúfuna. Framtíðin var björt.

Sólrún var hjartahlý, traust, lífsglöð og góð vinkona. Elsku Sólrún, mikið er það sárt að kveðja.

Takk fyrir allar góðu stundirnar, ég vildi óska þess að þær gætu verið fleiri.

Ég votta fjölskyldu og ástvinum mína dýpstu samúð.

Kveðja,

Maríanna Katrín Bjarkadóttir.

Elsku Sólrún Lára er farin frá okkur. Eftir sitjum við agndofa og eigum bágt með að skilja að svona geti gerst.

Sólrún Lára var að vinna hjá okkur í fimm sumur. Við vorum alltaf jafn ánægð þegar búið var að ganga frá samningu um að hún myndi vinna hjá okkur næsta sumar. Betri starfsmann og skemmtilegri vinnufélaga var ekki hægt að hugsa sér.

Það var létt yfir Sólrúnu Láru og hún svaraði vel fyrir sig þegar strákarnir í kaffitímanum voru með einhverjar athugasemdir. Stundum var svarið bara eitt lítið, humm og bros, sem sagði meira en mörg orð. Og þegar karlarnir voru orðnir of margir í kaffi skottaðist hún heim til sín, orðalaust og mætti svo þegar kaffitímanum lauk. Hún fór sínu fram með hægðinni og lét engan eiga neitt hjá sér.

Sólrún Lára var ekki bara skemmtilegur vinnufélagi heldur framúrskarandi góður starfskraftur. Öll sín störf vann hún af kostgæfni frá því hún kom til okkar fyrsta sumarið. Hún fór létt með öll verkefni hvort sem var að þrífa eða bruna um á sláttutraktornum og hún brást hárrétt við og bjargaði því að ekki varð stórtjón þegar kviknaði í hjá okkur eitt sumarið. Aldrei urðu árekstrar við nokkurn mann, hvorki vinnufélaga né viðskiptavin. Það var aðdáunarvert hversu rólega og fumlaust hún afgreiddi hvern og einn, alveg sama hversu röðin var löng eða stressið mikið í kringum hana.

Við erum þakklát fyrir samvinnu og samveruna með Sólrúnu Láru. Við sendum innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina. Sorgin er stór en minningarnar eru margar og fallegar um yndislega stúlku.

Benedikt og Lilja.