Arndís Björnsdóttir fæddist á Kleppustöðum í Strandasýslu 8. september 1934. Hún lést 14. júní 2022.

Foreldrar hennar voru Björn Sigurðsson frá Grænanesi í Strandasýslu, f. 21. júní 1894, d. 5. september 1980, og Elín Sigurðardóttir frá Geirmundarstöðum í Selárdal í Strandasýslu, f. 26. febrúar 1898, d. 24. ágúst 1974.

Þau eignuðust tólf börn og þau eru í aldursröð; Sigríður, Ingólfur, Sigurmundur, Þórdís, Guðbjörg, Sigurlaug, Sigurður, Guðmundur, Ólöf, Arndís, Þuríður og Skúli.

Fyrri maður Arndísar var Sigurður Einarsson, f. 24. ágúst 1913, d. 17. desember 1988. Þau eignuðust tvö börn. Þau eru Elín Hildur Sigurðardóttir, f. 1960, maður hennar Ómar E. Ólafsson; og Helgi Sigurðsson, f. 1970.

Seinni maður Arndísar var Skafti G. Skaftason, f. 28. janúar 1930, d. 1. apríl 1995. Þau gengu í hjónaband árið 31. desember 1986.

Dætur Elínar eru Arndís Þóra Sigfúsdóttir og Berglind Dögg Ómarsdóttir. Barn Arndísar Þóru er Bríet Sóley.

Útför hefur farið fram.

Ég kveð hér móður mína Arndísi Björnsdóttur sem lést þann 14. júní sl. og fór útför fram í kyrrþey.

Mamma var fædd þann 8. september 1934 á Kleppustöðum í Strandasýslu. Mamma var mér alltaf mjög kær og aldrei leið sá dagur að við töluðum ekki saman og þá oft í síma. Mamma var alltaf til taks þegar á reyndi og var mér ætíð náin í mínum vandamálum og leysti oft og tíðum vel úr þeim. Hennar verður alltaf minnst fyrir þá sem áttu erfitt og þurftu á aðstoð að halda. Aldrei leið sá dagur að hún gerði ekki eitthvert góðverk fyrir aðra sem áttu um sárt að binda. Aldrei var komið að tómum kofunum þegar hún var annars vegar, ætíð gestrisin og tók á móti öllum, oftast nær með opnum hug. Hún var þó ákveðin og vissi ætíð nákvæmlega hvernig hlutirnir ættu að vera og var með öll sín mál á hreinu og væntingar annarra þegar svo bar undir.

Móðir mín var aðeins 21 árs þegar hún kom heim úr sveitinni til Reykjavíkur 1954 eða 1955 og átti eiginlega ekki fyrir fargjaldi og bað rútustjórann að lána sér. Fór hún því allslaus frá Kleppustöðum þar sem hún fæddist og varð að láta sér það lynda um sinn. Þegar hún kom til Reykjavíkur tók systir hennar Þórdís á móti henni og var hún hjá henni þar til hún fékk íbúð. Fór hún að vinna sem gangastelpa á Landakoti og var þar í miklu uppáhaldi hjá nunnunum og fóru þær alltaf vel að henni og ætíð ánægðar með hennar störf. Þegar Arndís var búin að vinna þar í nokkurn tíma fékk hún sín laun og trúði ekki því sem hún hafði á milli handanna, sem voru miklir peningar sem hún fékk fyrir vinnu sína. Hafði hún aldrei verið með svo mikla peninga á milli handanna og miðað við þá fátækt sem þó enn ríkti á Íslandi í þá daga. Skömmu síðar kynnist hún föður mínum Sigurði Einarssyni frá Ívarsseli og tóku þau upp samvistir og eignuðust Elínu Hildi 22. apríl 1960 og 10 árum síðar mig, 5. desember 1970. Bjuggu móðir mín og faðir lengi vel saman en leiðir skildi árið 1985.

Kveð ég nú móður mína með sárum söknuði en vona að við eigum eftir að hittast aftur síðar og eiga góðar stundir saman.

Helgi Sigurðsson.

Elsku amma mín.

Þegar ég hugsa um liðnar stundir sem við áttum saman er ég svo þakklát fyrir þær allar. Þakklát fyrir þig sem skemmtilegu, fyndnu og hjartahlýju ömmu mína. Ég á sérstaklega ljúfar minningar frá ferðalögunum í sumarbústaðinn þinn fyrir vestan. Þar leið þér alltaf best, í dalnum þínum, á æskuslóðunum þar sem þú fæddist. Þar áttir þú áður fyrr köttinn Tómas sem þú talaðir svo oft um og þér þótti svo vænt um. Ég vona að þú og Tómas séu sameinuð aftur í dalnum þínum í sólskinsskapi.

Takk fyrir allt elsku amma mín. Ég kveð þig með söknuði en þú verður samt ávallt varðveitt í hjörtum okkar.

Eins og þú sagðir alltaf við okkur; Megi guð vera með þér, passa þig og láta þér alltaf líða vel.

Þín,

Berglind.

Þegar Berglind systir hringdi í mig og sagði mér að þú værir farin, hefðir tekið seinasta andardráttinn þinn, voru fyrstu viðbrögðin mín að segja „nei, ég samþykki það ekki“. Ég ætlaði ekki að trúa því að þú myndir ekki bara bursta þetta ef þér eins og allt annað sem þú hafðir burstað af þér sl. 2-3 ár. Fyrir veikindin varstu fullkomlega heilbrigð, veiðandi lax og tínandi bláber fyrir vestan á hverju sumri í dalnum þínum sem þú elskaðir og jafnvel takandi kollhnísa með Bríeti litlu. Þú hafðir átt mjög erfið tvö til þrjú ár en alltaf fórstu í gegnum allt, eins og hetja, meira að segja burstaðir covid-ið af þér nýkomin úr lífshættulegri aðgerð.

Ég var skírð í höfuðið á ömmu og fékk viðurnefnið Litla-Dísa og hún þá Stóra-Dísa... og hún var sko stór-, stórkostleg! Fyrirmyndin mín í lífinu, hjartagóð, sterk, hress, fyndin og tók sjálfa sig bara alls ekki of alvarlega. Það var svo gott að koma til þín og svo gaman að fá að gista hjá þér sem barn. Það var aldrei langt í glensið og smá fíflagang með henni og hún brá sér oft í ýmis gervi. Við systurnar báðum t.d. alltaf um söguna af „misskildu Grýlu“ sem var í raun góð. Grýla vildi þá verða voða fín og fara á ball og við hlógum þessi ósköp að skrautlegum lýsingum af Grýlu að klippa á sér táneglurnar o.fl. Hún sagði alltaf að hláturinn lengdi lífið og í hennar tilfelli hélt það henni ungri og hressri langt fram eftir aldri. Þú náðir ekki einu sinni að verða almennilega gráhærð og fólk hélt yfirleitt að þú værir svona 20-30 árum yngri en þú varst í raun. Kannski einmitt þess vegna var það svo skrítið þegar þú allt í einu veiktist.

Amma var stoltur laxveiðimaður og þótt á skiltinu í eldhúskróknum hjá ömmu væri ritað „Hér eru sagðar veiðisögur, sumar eru sannar“ var hún alltaf sönn og heiðarleg, það var ekkert falskt eða yfirborðskennt við ömmu. Hún var svo hlý og skilningsrík og ég man að henni fylgdi alltaf eitthvert gott ljós. Hún var alltaf tilbúin að hlusta og spjalla og við gátum talað saman í síma tímunum saman um allt og ekkert. Oft segir fólk að amma þeirra eða afi geri besta hrísgrjónagraut í heimi en amma mín var sjálfur meistarinn!

Þegar hún bauð í mat eða kaffiboð fékk maður alltaf allan afganginn af veislunni með sér heim og enginn möguleiki á að reyna að afþakka það á neinn einasta hátt. Þú varst mjög trúuð og gast aldrei kvatt okkur öðruvísi en að blessa okkur með fallegum orðum og „kyssa í krossmark“ eins og þú kallaðir það. Á báðar kinnar, enni og svo nebba. Þetta hafðir þú alltaf gert við mig og systur mína síðan við vorum litlar og ég hugsa að það hafi aldrei komið sá dagur þar sem þér fannst við orðnar of stórar fyrir þessa meðferð.

Elsku Dísa-amma mín. Ég mun alltaf sakna þín og mun aldrei getað þakkað þér fyrir allt sem þú varst, kenndir og gerðir fyrir mig og okkur og nú langar mig að fá að kveðja þig með þessum sömu orðum og þú kvaddir okkur alltaf með:

Elsku, elsku, elsku hjartans amma mín, megi guð vera með þér, blessa þig og varðveita, og megi hann alltaf láta þér líða vel.

Þín, Litla-Dísa,

Arndís Þóra.