Það blasir við þýskum almenningi og stjórnmálamönnum að veruleg hætta og mikill kostnaður fylgir rússnesku gasstefnunni.

Í mörg ár var varað við því að rússnesk stjórnvöld kynnu að beita orkuvopninu gegn Evrópu, teldu þau sér það nauðsynlegt. Varnaðarorðin féllu í grýttan jarðveg. Þýsk stjórnvöld réðu mestu um það. Nú segir Olaf Scholz Þýskalandskanslari að Rússar beiti bæði orkuvopni og matvælavopni til að ná sínu fram í Úkraínu, samhliða sprengjuárásum á almenna borgara.

Vladimir Pútin fór í byrjun vikunnar í fyrstu utanlandsferð sína frá því að hann hóf Úkraínustríðið fyrir fimm mánuðum. Sat hann fund í Teheran með Ayatollah Ali Khamenei, drottnara Írans, og Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseta. Khamenei hvatti til langtímasamstarfs við Rússa, enda þyrftu þjóðirnar að vera á verði gegn „vestrænum svikabrögðum“. Pútin og Erdogan töldu sig geta opnað siglingaleiðir með hveiti og korn til sveltandi þjóða.

Erdogan vildi svigrúm til að berjast við Kúrda í Norður-Sýrlandi. Rússar og Íranir halda hlífiskildi yfir Bashad al Assad, einræðisherra í Sýrlandi, óvini Erdogans. Sérstaka athygli vakti að Erdogan gerði sig merkilegan og lét Pútin bíða eftir sér fyrir framan sjónvarpsvélarnar. Þetta var fyrsti fundur þeirra augliti til auglitis frá því að Pútin hóf stríðið.

Eftir að fundum valdsmannanna lauk þriðjudaginn 19. júlí, sneri Pútin sér að gassölu til Evrópu. Þjóðverjar telja það yfirvarp þegar Pútin lætur eins og ekki sé unnt að senda gas eftir Nord Stream 1 leiðslunni vegna fjarveru túrbínu sem hefur verið í viðgerð hjá Siemens í Kanada. Hún er nú á leiðinni um Þýskaland til Rússlands. Þá heimtar Pútin viðgerð á annarri túrbínu.

Óvíst er hve mikið gas verður nú flutt með Nord Stream 1 eftir lokun leiðslunnar í 10 daga vegna árlegs viðhalds. Var jafnvel talið líklegt að Rússar mundu ekki opna leiðsluna að nýju. Þeir gerðu það þó fimmtudaginn 21. júlí en gasmagnið sem fer um hana er minna en áður. Rússar vilja ekki sleppa pólitísku gastökunum á Evrópu sem þeir gerðu með því að loka alveg fyrir Nord Stream 1 leiðsluna.

Framkvæmdastjórn ESB hvatti í vikunni þjóðir sambandsins til að minnka notkun sína á jarðgasi um 15% frá 1. ágúst 2022 til 31. mars 2023 til að takast á við samdrátt í gaskaupum af Rússum. Jafnframt fer framkvæmdastjórnin fram á heimild til að grípa til skömmtunar á gasi sé hennar talin þörf. Ráðherrar ESB-ríkjanna taka afstöðu til þessara tillagna 26. júlí.

ESB hefur ákveðið að banna innflutning á rússneskri olíu frá og með áramótum en ekki er lagt bann við innflutningi á rússnesku gasi.

Í tólf ríkjum af 27 innan ESB hefur notkun á rússnesku gasi þó verið hætt. Frá áramótum hefur Hollendingum tekist að minnka gasnotkun sína um þriðjung. Talið er að þrír þættir skipti mestu: óvenjulega mildur vetur, kolakynt orkuver og þá hefur gasnotkun dregist mikið saman. Gassparnaðurinn hjá fyrirtækjum og heimilum vegur þyngst. Stjórnvöld hófu skipulagða herferð í apríl til að lækka húshita með því að minnka gasstrauminn og hvöttu jafnframt til betri einangrunar húsa og kaupa á orkusparandi tækjum.

Hvort Þjóðverjar, sem treysta mest á gas frá Rússlandi, feta í fótspor Hollendinga, kemur í ljós. Þýskir orkureikningar hækka stöðugt. Það blasir við þýskum almenningi og stjórnmálamönnum að veruleg hætta og mikill kostnaður fylgir rússnesku gasstefnunni sem hófst með jafnaðarmanninum Gerhard Schröder á kanslarastóli og hélt áfram í tíð kristilega demókratans Angelu Merkel.

Þýsk stjórnvöld vinna ekki aðeins að gjörbreyttri stefnu í orkumálum, heldur glíma einnig við alvarlegan fjárhagsvanda gasfyrirtækja í landinu. Þar er stærst orkufyrirtækið Uniper, dótturfyrirtæki Fortum í meirihlutaeign finnska ríkisins. Vegna samdráttar í viðskiptum við rússneska fyrirtækið Gazprom rambar Uniper á barmi gjaldþrots. Þýska ríkið eitt er talið geta bjargað því frá falli. Líklegt er að þýsku ríkisfé verði dælt inn í Uniper. Í Berlín óttast ráðamenn að hrun fyrirtækisins hefði svipuð áhrif á orkumarkaðinn og fall Lehman Brothers á fjármálamarkaðinn síðsumars 2008.

Framkvæmdastjórn ESB er tilbúin til að samræma sameiginleg gaskaup fyrir aðildarríkin og hefur einnig gert birgðasamninga við nokkur ríki, þar á meðal Bandaríkin, Noreg, Aserbaídsjan, Katar og Ísrael. Ítalir huga að samningum um kaup á gasi frá Alsír, handan Miðjarðarhafs.

Markmið ESB er að fyrir 1. nóvember verði evrópskt birgðarými fyrir gas allt að 80% fullt. Nú er birgðahlutfallið 65%, miðar hægt að settu marki.

„Ég er sannfærð um að okkur tekst saman að sigrast á þessari orkukreppu. Tilraun Rússa til að beita okkur fjárkúgun í vetur mun mistakast. Við komum sterkari frá þessu,“ sagði Ursula von der Leyen þegar hún kynnti gassparnaðarstefnu ESB miðvikudaginn 20. júlí. Sumir telja að vísu að tilraun Pútins til fjárkúgunar takist. Wolfgang Munchau, ritstjóri og álitsgjafi, sagði nýlega á vefsíðunni Eurointelligence að opnaði Pútin Nord Stream 1 leiðsluna að nýju, sem hann gerði, gætum við verið fullviss um að hann hefði „geirnegldar tryggingar frá þýskum vinum sínum fyrir að þeir kaupi rússneskt gas áfram“.

Hvort þessi spá er rétt, veit enginn. Ekkert pólitískt traust er hins vegar lengur í samskiptum Þjóðverja og Rússa. Í því skjóli tókst Pútin að hreiðra betur um sig í Evrópu en góðu hófi gegndi. Fokið er í það samhliða ákvörðunum um að þýski herinn skuli stórefldur.

Það er tímafrekt og hvorki auðvelt né ódýrt að snúa þýsku þjóðarskútunni í átt frá Rússlandi og gasi Pútins. Sú ferð er þó hafin.

Bjorn Bjarnason bjorn@bjorn.is