Ágúst Jakob verkstjóri Telur bestu leiðina til að fá fólk til að fylgja merkingum þá að láta það bitna á veskinu.
Ágúst Jakob verkstjóri Telur bestu leiðina til að fá fólk til að fylgja merkingum þá að láta það bitna á veskinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Hraðakstur á vinnusvæðum hefur verið mikið og erfitt vandamál. Nýlegar mælingar við breikkun Suðurlandsvegar í Ölfusi, sem verktakinn ÍAV framkvæmdi, sýna að yfir helmingur ökumanna aki of hratt í gegnum vinnusvæði þar sem hámarkshraði er 70 km á klst. eða 53% ökumanna. Þar sem hámarkshraði er 50 km á klst. óku 70% ökumanna yfir þeim hraða.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Hraðakstur á vinnusvæðum hefur verið mikið og erfitt vandamál. Nýlegar mælingar við breikkun Suðurlandsvegar í Ölfusi, sem verktakinn ÍAV framkvæmdi, sýna að yfir helmingur ökumanna aki of hratt í gegnum vinnusvæði þar sem hámarkshraði er 70 km á klst. eða 53% ökumanna. Þar sem hámarkshraði er 50 km á klst. óku 70% ökumanna yfir þeim hraða.

Þetta kemur fram í samtali við Ágúst Jakob Ólafsson, yfirverkstjóra hjá ÍAV, á vef Vegagerðarinnar. „Þegar menn eru að vinna í nálægð við umferðina eru þeir í stórhættu, sérstaklega þegar fólk virðir ekki hraðatakmarkanir,“ segir Ágúst í samtalinu.

„Það er því ekki spurning hvort, heldur hvenær verður alvarlegt slys og jafnvel banaslys þegar fólk er að aka of hratt um vinnusvæði og keyrir á starfsfólk við vinnu.“

Nýlega var hleypt af stokkunum átaki til að fá fólk til að stilla hraðanum í hóf. Vegfarendur eru varaðir við því að framundan sé framkvæmdasvæði og því þurfi að aka varlega, enda vinni þar bæði mömmur og pabbar, afar og ömmur, frændur og frænkur.

Ágúst Jakob fagnar þessu framtaki og segir alla fræðslu af hinu góða og gott að reyna að vekja fólk til umhugsunar. En hann telur bestu leiðina til að fá fólk til að fylgja merkingum þá að láta það bitna á veskinu. „Fólk tekur ekki mark á þessu fyrr. Það þyrfti að setja upp hraðamyndavélar á vinnusvæðum og sekta þá sem fara of hratt. Jafnvel ætti sú sekt að vera hærri en venjulega.“

Hann segir fólk oft pirrað að aka langa vegarkafla með 70 eða 50 km hámarkshraða. „En við erum ekki að gera þetta að gamni okkar. Reglurnar um vinnusvæðamerkingar eru skýrar. Þegar búið er að raska umhverfi vegarins, búið að eiga við öryggissvæði hans, þá er vegurinn ekki eins öruggur og hann var. Þá þarf að taka niður hraða. Þess vegna getum við ekki hækkað hámarkshraðann í gegnum vinnusvæðin þótt enginn sé að vinna, til dæmis um helgar og á næturnar, því það er búið að raska öryggissvæðum vegarins.“

Hann bendir á að allar þessar merkingar og hraðatakmarkanir séu ekki síst hugsaðar til að minnka líkur á slysum vegfarenda.

Oft hefur legið við slysi

Ágúst þekkir mörg dæmi þess að legið hafi við slysi vegna hraðaksturs í gegnum vinnusvæði. „Það hefur verið keyrt utan í starfsmenn hér hjá okkur í þessu verki. Þeir meiddust sem betur fer ekki. Síðan varð slys hjá Colas í fyrra þar sem ekið var utan í mann.“

Í heildina eru um 55 manns að vinna við breikkun Suðurlandsvegar um þessar mundir og í kringum 30 tæki, allt frá vörubílum, ýtum og völturum til malbikunarvéla, grafa og hefla. Verkið er á áætlun, og vel það.