Gunnlaugur Þór Ingvarsson, tannlæknir, fæddist í Reykjavík 17. júlí 1936. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 18. júlí 2022.

Foreldrar hans voru Ingvar Kristjánsson, bifreiðaeftirlitsmaður, f. 4. október 1904, d. 5. desember 1987, og Margrét Sesselja Gunnlaugsdóttir, húsmóðir, f. 17. janúar 1894, d. 28. janúar 1962. Systir Gunnlaugs er Auður Björg Ingvarsdóttir, læknir, f. 4. nóvember 1933.

Gunnlaugur kvæntist Auði Gestsdóttur, bókasafnsfræðingi, f. 18. ágúst 1937, þann 17. ágúst 1960. Börn þeirra eru: 1) Margrét, f. 7. maí 1961. Maki hennar er Guðmundur Rafn Bjarnason, f. 1960. Börn Margrétar eru Andri, f. 1980, Freyr, f. 1988, Hólmfríður, f. 1994 og Auður, f. 1998. 2) Brynja, f. 9. febrúar 1966. Maki hennar er Emil H. Valgeirsson, f. 1965. Börn Brynju eru Helga Marín, f. 1993, og Þórður, f. 2000. 3) Ingvar Þór, f. 27. júlí 1973. Maki hans er Margrét Stefánsdóttir, f. 1978. Börn Ingvars eru Gunnlaugur Dagur, f. 2003, og Íris Birta, f. 2010. Barnabarnabörn Gunnlaugs eru fimm talsins.

Gunnlaugur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1957. Eftir útskrift sinnti hann ýmsum störfum, m.a. kennslu í grunnskóla og hjá Raforkumálastofnun í Hveragerði. Hann lauk prófi í tannlækningum frá Háskólanum í Bonn í Þýskalandi 1970 og framhaldsnámi hjá Memorial Hospital Worchester í Massachusets í Bandaríkjunum 1971. Hann starfaði sem skólatannlæknir í Reykjavík frá 1971 og rak eigin tannlæknastofu í Reykjavík frá 1974 til 2002.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Kópavogskirkju, í dag, 2. ágúst 2022, klukkan 13.

Elskulegur afi minn, Gunnlaugur Þór Ingvarsson, er fallinn frá.

Afi Gulli ólst upp í Reykjavík stríðsáranna, fyrst á Grettisgötu en síðar á Bergþórugötu. Faðir hans, Ingvar, var frá Grísatungu í Borgarfirði en móðir hans, Margrét, frá Syðri-Völlum í Miðfirði. Ingvar og Margrét kynntust á mölinni og áttu tvö börn, afa og Buggu frænku.

Afi fór í sveit á sumrin til móðursystur sinnar á Litla-Ósi í Miðfirði. Þar leið honum alltaf vel og reyndi bara að strjúka einu sinni. Þá batt hann fötin sín í lítinn poka á prik og lagði af stað í átt að Holtavörðuheiði. Hann komst þó ekki langt og var tekinn upp af vörubílstjóra sem skutlaði honum aftur heim að Litla-Ósi. Þessa sögu hef ég heyrt óteljandi sinnum og fannst hún jafn skemmtileg í öll skiptin.

Þegar bernskuárin voru að baki fór afi í Menntaskólann á Laugarvatni og kynntist ömmu, Auði Gestsdóttur. Þau voru góð hjón, hæfilega ólík en alltaf samrýmd. Afi alltaf að stríða ömmu góðlátlega. „Hva, engin brúnkaka?,“ sagði hann stundum glettinn ef amma var búin að galdra fram sérstaklega glæsilegt veisluborð. Saman fóru þau síðar til Bonn í Þýskalandi þar sem afi fór að læra tannlækningar. Þá var mamma mín, Margrét, fædd og Brynja frænka fæddist svo úti.

Þýskalandsár ömmu og afa hafa alltaf verið sveipuð mikil dýrðarljóma í okkar fjölskyldu. Amma og afi svo glæsileg og heimsborgaraleg á öllum myndum sem þar voru teknar og dvölin úti var augljóslega afar mótandi fyrir þau bæði. Sem dæmi um það voru bæði amma og afi allar götur síðan áhugasöm um þýska menningu og sögu. Seinna, þegar ég var kominn í heiminn, var stundum töluð þýska við kvöldmatarborðið í Álftamýri þegar umræðuefnið var of eldfimt fyrir ung eyru.

Að framhaldsnámi í Massachusetts í Bandaríkjunum loknu komu amma og afi heim til Íslands og fljótlega var fjölskyldan fullskipuð. Ingvar var kominn í heiminn og fjölskyldan flutt í Álftamýrina.

Amma og afi áttu stóran og samheldinn vinahóp. Bjarni og Valka, Halla og Sigurgeir, Heiður og Birgir, Guðmundur og Örbrún og fleiri voru alltaf í mat, eða í kaffi, eða saman á ferðalögum bæði hér heima og erlendis. Með þessum hópi skapaðist einstök og náin vinátta sem haldið hefur í áratugi og kynslóðir.

Svo þegar börnin urðu eldri fór afi að spila golf og gerði nánast fram á síðasta dag. Hann var stundum að æfa sig að pútta í stofunni í Álftamýri og leyfði mér að vera með. Við spiluðum svo saman hring á Flúðum síðasta sumar og afi gaf mér góð ráð til að laga sveifluna. Ég skildi samt aldrei hvernig afi náði að tolla svona lengi í golfinu, því óþolinmóðari mann var erfitt að finna.

Afi var glæsilegur maður. Kúltiveraður og fyndinn. Töffari á einstaklega áreynslulausan hátt. Hann las Vonnegut og Gunther Grass. Hlustaði á Miles Davis og Dave Brubeck. Reykti pípu þegar hann var yngri og fékk sér viskí fyrir kvöldmat. Hann sagði svo skemmtilega frá og hafði svo einstakt skopskyn.

Betri afa var ekki hægt að eiga. Hans verður sárt saknað.

Andri Ólafsson.

Við eignuðumst Gulla og Auði í gegnum Bjarna föðurbróður minn en þeir Gulli voru æskuvinir. Þeir félagarnir voru um margt líkir. Gleðigjafar, húmorinn leiftrandi, orð sögð, stundum ekki, horft, blikkað auga, bros.

Auðvitað sóttum við fjölskyldan tannlæknaþjónustu til Gulla og ólíkt flestum öðrum var okkur tilhlökkunarefni að fara til tannlæknisins. Mamma sagði að hún hefði sagt vinafólki sínu að henni þætti gaman að fara til tannlæknis. Það trúði henni enginn. En Gulli, með sinni skemmtilegu aðstoðarkonu, henni Ingibjörgu, var sannkallaður gleðigjafi.

Karíus og Baktus voru tíðir gestir í mínum tönnum á æskuárum og ekki batnaði ástandið á unglings- og menntaskólaárunum. Eftir að ég fór að standa á eigin fótum var gott að eiga Gulla að. Námslánin runnu ekki til hans.

Svo kom að námslokum og ég fór að vinna fyrir mér. Þá gerði konan mín athugasemd við samband okkar Gulla, fannst kominn tími til að borga honum fyrir þjónustuna.

Næst var ég nokkuð brattur og sagði Gulla að ég væri góður fyrir mig og gæti farið að borga.

Fátt var um svör.

Pabbi fór til Gulla seinna sama dag og þá sagði Gulli: „Það kom til mín mikill burgeis hérna í morgun, sagðist vera góður fyrir sinn hatt.“ Og þessu fylgdu þvílíkir leikrænir tilburðir að pabbi hafði ekki séð annað eins, grét af hlátri.

Nú er góðmennið, gleðigjafinn, húmoristinn og lífskúnstnerinn Gunnlaugur Ingvarsson allur.

Fyrir hönd fjölskyldunnar þakka ég samfylgdina, allar gleðistundirnar og fallega samveru.

Auði, börnum, tengdafólki og öllum afkomendum óska ég velfarnaðar.

Hvíl þú í friði, kæri Gulli. Guð þig verndi.

Þórólfur Árnason.

Ég var staddur erlendis en Kata í Reykjavík. Hún hringdi, sagðist hafa verið eitthvað döpur í gærkvöldi, þurfti að geta glaðst með einhverjum. Þá datt henni fyrst í hug að heimsækja Gulla og Auði. Og hún varð ekki fyrir vonbrigðum þá, frekar en endranær, enda allar stundir með þeim hjónum gleðistundir. Hún mátti til að deila þessu með mér.

En nú er hann Gulli bekkjarbróðir minn horfinn yfir móðuna miklu og héðan í frá verðum við að gleðja okkur við minningarnar um Gulla, sem alltaf tókst að skapa létt andrúmsloft í kringum sig með sínum einstaka húmor. Gulli var ekki bara grínisti, hann var einnig tryggur vinur, sem ævinlega mætti þegar við bekkjarsystkin hittumst. Og hann hikaði ekki þótt leiðin væri löng og allra veðra von. Þannig skelltu þau Auður sér yfir allar norðlensku heiðarnar, norður í Kelduhverfi í byrjun janúar 2007 til að fagna með mér á sjötugsafmæli mínu. Og Gulli kominn á áttræðisaldurinn, vegalengdin 530 km. Já, Gulli var grínisti en ræktun vináttunnar var honum ekkert grín.

Gulli lærði tannlækningar í Þýskalandi, auk eins árs framhaldsnáms í USA. Hann rak tannlæknastofu í Reykjavík en var jafnframt skólatannlæknir. Ég man að hann var ekki sáttur við að lagðar yrðu niður skólatannlækningar, var hræddur um að forvarnir í tannlækningum myndu líða fyrir það. Það reyndist rétt.

Árið 2001 reistu Gulli og Auður sumarbústað norðan í Langholtsfjallinu með glæsilegu útsýni yfir Biskupstungur og Laugardal. Þar undu þau öllum stundum á sumrin. Skömmu áður keyptum við Lindarbrekku í Kelduhverfi og hófum þar skógrækt. Og Gulli og Auður plöntuðu skógi í spilduna hjá bústaðnum. Ekki var metist um árangur af ræktunarstarfinu, miklu frekar skiptst á huggunarorðum ef hægt gekk. „Þetta kemur allt með tímanum,“ sagði Gulli pollrólegur, sem reyndist rétt. Þolinmæði okkar hefur skilað sælureit á báðum stöðum.

Eftir að Gulli hætti störfum sem tannlæknir, gerðist hann heimsóknarvinur hjá Rauða krossinum og sinnti mörgum skjólstæðingum, sumum að minnsta kosti í tíu ár. Hann gekk ekki heill til skógar síðustu árin, en var þó alltaf hress. Andlátsfregn hans kom því nánast eins og þruma úr heiðskíru lofti, svo mér datt satt að segja fyrst í hug að nú væri hann Gulli að grínast eina ferðina enn. En nei, Gulli er genginn á vit forfeðranna, hvorki mun hans sérstaki hlátur né hans einstaki húmor hljóma meir. Góður drengur er genginn. Blessuð veri minning Gunnlaugs Þórs Ingvarssonar.

Við hjónin vottum Auði, börnum þeirra og öllum nákomnum okkar dýpstu samúð.

Gísli G.

Auðunsson.

Það myndast oft sterk vinabönd milli íslenskra námsmanna í útlöndum, óháð bakgrunni fólks eða fyrri kynnum. Þau bönd eru þeim mun þéttofnari sem námsmennirnir eru færri og lengra heim, því námsfólk heldur tryggð við heimalandið með hjálp landa sinna, þeir koma jafnvel í stað nánustu fjölskyldu. Í höfuðborgarþorpi Þýskalands á sjöunda áratugnum, Bonn, voru ekki margir íslenskir námsmenn og leiðin heim lengri en nú. Það var ekki hringt til Íslands nema endrum og eins og aldrei að tilefnislausu og það var heldur ekki verið að skreppa heim; árin fimm sem okkar fjölskylda var þarna fór pabbi aldrei heim en mamma einu sinni með okkur börnin.

Þeim mun meira happ var það fyrir okkur systkinin að foreldrar okkar skyldu kynnast í Bonn þeim heiðurshjónum Auði og Gulla. Í stað þess að fara í sunnudagsbíltúra með afa og ömmu í Hveragerði fórum við með þeim og stelpunum um Rínardalinn. Að vísu þyrfti margur gæslumaður umferðarreglna samtímans áfallahjálp yrði hann vitni að þeim bílferðum. Gátan um hversu margir farþegar komast í Volkswagen bjöllu var leyst hér með hjálp hólfsins fyrir aftan aftursætið sem fyllt var af kátum stelpum; þetta var tveggja fjölskyldna bíll. Og þessar fjölskyldur brösuðu margt saman, á afmælum, um jól og páska og náttúrlega 17. júní, en taumlaus gleði Íslendinga þann dag vafðist fyrir Þjóðverjum, enda var hann þjóðarsorgardagur í Vestur-Þýskalandi.

Boðin urðu að hefðum þar sem fjölskyldurnar komu saman, eins og til laufabrauðsgerðar, en þá kúnst kenndi Guðbjörg frænka úr Þingeyjarsýslum okkur, þar var nú ekki verið að kaupa tilbúið. Í öllum þessum samkomum var Gulli ógleymanlegur, með hlýju sinni, húmor og fallega brosi. Hann var snokinn fyrir fúlum bröndurum, eins og flest gáfað fólk, sagði þá marga og hló að þeim sjálfur aftur á bak, en sá hlátur hefur nú glatt fjórar kynslóðir laufabrauðsgerðarfólks í okkar fjölskyldum.

Þessi vinátta Auðar og Gulla og foreldra okkar hélst óbreytt eftir að heim var komið og var pabba og mömmu ómetanleg, á góðum stundum sem miður góðum, eins og öll vinátta er. Við erfðum hana og allar götur síðan hefur verið efnt til laufabrauðsgerðar þessara fjölskyldna sem hafa orðið fjölmennari með hverju árinu. Við systkinin áttum líka öll eftir að fara í stólinn til Gulla, sem var óvenjuleg upplifun að því leyti að tannlæknirinn sparaði hvergi gamanmálin, en viðmælandinn í stólnum var bókstaflega kjaftstopp og gat ekki einu sinni flissað með fullan munninn af tólum og bómull.

En allt frá því mamma okkar uppgötvaði að henni fyndist skata ekki nærri eins vond ef það væri brennivín með, hefur það bæst við hefðir okkar systkina að borða skötu á Þorláksmessu með Auði og Gulla. Nú síðast í fyrra, þar sem Gulli var hrókur fagnaðarins og rifjaði upp gamlar sögur, tók staup og hló aftur á bak með hljóðum. Þannig viljum við muna þennan góða dreng sem var okkur svo kær allt frá bernsku.

Auði, Margréti, Brynju og Ingvari og öllu þeirra góða fólki færum við innilegar samúðarkveðjur.

Halldór, Örbrún, Hrafnhildur,

Gunnþórunn.

Í dag kveðjum við Gunnlaug Þ. Ingvarsson, vin okkar og félaga eða Gulla eins og hann var alltaf kallaður. Kynni okkar af Gulla og Auði konu hans hófust fyrir rúmri hálfri öld þegar við dvöldum öll á Nýja-Englandi í Vesturheimi. Gulli að auka þekkingu sína á tannlækningum sem hann hafði lagt stund á í Þýskalandi og Geir og Þorgeir í framhaldsnámi í verkfræði. Á þessum árum kynntumst við einnig vinafólki þeirra Auðar og Gulla, þeim Höllu og Sigurgeiri og Heiði og Birgi. Þau voru einnig á Nýja-Englandi í sömu erindum og við, eiginmennirnir að afla sér sérfræðimenntunar í læknisfræði. Þegar hópurinn tíndist síðan heim til Íslands hélt vinskapurinn áfram.

Fyrir um 40 árum ákvað þessi hópur vina ásamt nokkrum vinum og vandamönnum að verja einni viku á sumri hverju saman í ferðalag um landið. Í mörg ár lögðum við Geirfuglarnir land undir fót til að ferðast um landið með góðum vinum og upplifðum töfra og stundum vosbúð Íslands. Á göngu um friðsæla staði töluðum við saman um margbreytilega þætti mannlífsins og deildum skini og skúrum, nutum náttúrunnar, vináttunnar og félagsskapar hvert annars. Síðar fórum við einnig að fara í gönguferðir í Evrópu.

Það fór ekki endilega mikið fyrir honum Gulla í hópnum en hann endaði þó oft sem miðpunktur gleðinnar í samræðunum. Hann hafði einstaka frásagnarhæfileika. Sögurnar hans voru oft ógleymanlegar og vöktu mikla kátínu. Eftirminnileg er sagan frá unglingsárunum, þegar hann ásamt félaga sínum fór í ferð að Tröllafossi og nestið var sveskjugrautur í glerkrukku. En það þurfti ekki endilega að vera saga sem hann sagði til þess að vekja bros eða hlátur; það gátu verið nokkur orð eða tilsvar. Hvernig hann sagði hlutina, áherslurnar og brosið, það kom okkur öllum til að hlæja. Hann var húmoristi af besta tagi.

En stundum kom það fyrir að Gulli fór einhverja aðra slóð en hópurinn. Hann var alla tíð léttur á fæti og fannst kannski stundum að hópurinn væri of seinn í svifum. Ef til vill vildi hann bara njóta dálítillar einveru og skoða veröldina frá nýju sjónarhorni. En aðeins Auður fékk að vita hvað hann hefði verið að skoða eða hugsa.

Á þessum tímamótum koma upp í huga okkar Geirfuglanna atburðir frá liðnum árum, sem skýra þá mynd sem við höfum gert okkur af Gulla. Í hugum okkar mun lifa einkar hugljúf mynd af einstökum manni, spaugsömum, jákvæðum, hjálpsömum, miklu snyrtimenni og síðast en ekki síst frábærum ferðafélaga og vini. Mynd sem við eigum fá orð til að lýsa en varðveitum með okkur svo lengi sem við lifum.

Við Geirfuglarnir vitum að harmur Auðar, Margrétar, Brynju og Ingvars og fjölskyldna þeirra er mikill við fráfall Gulla. Hugur okkar er með þeim á þessari stundu og við biðjum að ljúfar minningar um hann Gulla okkar veiti þeim styrk.

Geir og Kristín,

Þorgeir og Anna.

Með Gunnlaugi er genginn kær félagi og vinur frá því er leiðir okkar lágu saman í ML fyrir 67 árum. Eftir stúdentspróf tók hann sé frí frá námi, hóf störf við eftirlit á hitavatnsholum sem biðu virkjunar.

Um sumarið gekk hann að eiga Auði Gestsdóttur, prestur séra Róbert Jack á Tjörn á Vatnsnesi V-Hún.

Um haustið fluttust þau til Þýskalands þar sem Gulli hóf tannlæknanám. Auður varð löggiltur skjalaþýðandi og starfaði í sendiráðinu í Bonn. Við héldum nánu sambandi þennan tíma. Við fórum í skemmtiferð með þeim um Rínar- og Aardalinn.

Um tíma dvöldu þau hjón á Íslandi og vann Gulli á ýmsum stöðum við afleysingar, lengst af hjá Sverri Einarssyni í Vestmannaeyjum.

Það losnaði staða á Memorial sem Gulli sótti um og fékk. Fluttu þau sig þá um set til Worcester og fengi íbúð við hliðina á okkur og urðum sem ein stór fjölskylda.

Þegar kom fram á maímánuð ákváðum við að leita á hlýrri slóðir. Fjárhagurinn leyfði engin hótelpláss á þeim tíma, en einhver benti okkur á Myrtle Beach í Suður-Karólínu og var stefnan tekin þangað með tjöld og vistir. Á tjaldsvæðinu okkar er þar fyrir löngu risin þétt borgarbyggð með frægustu golfvelli heimsbyggðarinnar. Þarna áttum við yndislega daga á ósbakka árinnar sem þarna rann í sjóinn þar sem dorgað var fyrir smáfiski og ekið um nærliggjandi svæði, en þarna voru reyndar minjar miðstöðva þrælaverslunar fyrr á öldum.

Tíminn leið og nokkru eftir heimkomu okkar 1972 ákváðu þau Halla og Gulli að stofna eigin stofu ásamt Kristjáni Ingólfssyni, nánum félaga Höllu úr deildinni. Fyrir valinu varð leiga á annarri hæð á Grensásvegi 48, atvinnuhúsnæði, og tóku þau helming hæðarinnar sem þarfnaðist gagngerðar yfirhalningar með lögnum fyrir að- og fráleiðslur. Ekki veit ég til þess að slest hafi upp á vinskap þeirra, en grun hef ég um að þeir hafi oft á tíðum fallist á frumkvæði Höllu þegar stórframkvæmdir kölluðu að.

Mér hefur hér að framanskráðu orðið tíðrætt om lífshlaup okkar kæra Gulla en miklu minna um hans persónu, sem ekki fór framhjá neinum enda heillandi og athyglisverð. Hann ólst upp og sótti skóla í Austurbænum, en á sumrum dvaldi hann á Litla Ósi í Miðfirði, sem að hans mati var ekki beinlínis höfuðból, en þaðan eru sprottnar margar af hans reynslusögum, og um búvísindi Björns bónda var ekki að tvíla, en verða ekki rakin hér, en á þeim bæ nutum við ómældrar gestrisni sumarið 1974.

Í gönguhópnum Geirfuglum hélt hann sig oft til hlés en innlegg hans í umræður með hans ísmeygilegu athugasemdum féllu jafnan í góðan jarðveg. Hann var einnig vel þeginn gestur í Ekrusmáranum eftir að hjólastóll varð förunautur minn, þar fundu þau Jóhanna mín sameiginlegar húnvetnskar rætur og saknar hún hans húmors og tilsvara.

Auði og fjölskyldu vottum við innilega samúð.

Ég kveð þennan trygga vin minn með söknuði og óska honum góðrar heimkomu á nýjum stað.

Sigurgeir

Kjartansson.

Í dag er kvaddur góður einstakur vinur, þekktur fyrir sína miklu gamansemi og hjálpsemi.

Við kynntumst þeim hjónum stuttlega áður en við héldum utan til náms hvor í sína álfuna, en urðum náin þegar Gunnlaugur kom til frekara náms í Bandaríkjunum. Eftir heimflutning beggja var lengi búið í sama hverfi og þar var bankað á dyr án boðs, til gönguferða eða bara í kaffisopa.

Fyrstu skíðaferðir okkar hjónanna voru með þeim til Austurríkis. Síðar varð til göngu/ferðahópur samferðamanna frá Bandaríkjunum og gengið um fjöll og firði á Íslandi og síðar farnar gönguferðir til Austurríkis. Nokkrir félagar eru þegar fallnir frá.

Ekki gleymast unaðsstundir í heimsókn og dvöl hjá þeim í sumarbústað þeirra í Langholti með óviðjafnanlegu útsýni yfir Suðurlandið. Minnist ég sérstaklega nýlega ánægjulegs kvöldverðar hjá þeim hjónum þegar ég gat fært honum nýinnbundið ársrit Ferðafélags Íslands um Vestur-Húnavatnssýslu sem hann dásamaði mjög, en þar átti hann mörg góð sumur. Ég hafði Austur-Húnavatnssýsluna, minn sumardvalastað. Kappræddum við kosti dvalarstaðar hvor annars. Málsnilld hans og ákafi var mér meiri. Á stund sem þessari þótti okkur gaman að fá okkur ofurlítið of mikið af góðu viskíi, svo jafnvel eiginkonur höfðu gaman af. Að sjálfsögðu var þetta of sjaldan. Verður þetta endurtekið í öðrum heimi?

Af hálfu okkar hjóna sendi ég fjölskyldunni saknaðar- og samúðarkveðjur.

Birgir Guðjónsson.

Látinn er eftir stutta sjúkdómslegu kær vinur Gunnlaugur Ingvarsson, alltaf kallaður Gulli af fjölskyldu og vinum.

Okkar kynni hófust í Bonn og Köln í Þýskalandi árið 1967. Gulli og Auður kona hans dvöldu þá í Bonn, þar sem Gulli stundaði tannlæknanám og þar dvaldi einnig undirrituð ásamt eiginmanni sínum, Eiði Ágústi Gunnarssyni, sem var við nám í tónlist og söng í Köln á sama tíma.

Á þessum árum voru fáir Íslendingar við nám og störf á þessum slóðum, en þessir fáu voru fljótir að finna hver annan og kynnast. Með okkur tókst strax mikil og góð vinátta, sem haldið hefur alla tíð síðan og aldrei borið skugga á. Í Köln var starfrækt félag „Deutsch-Isländische Gesellschaft“ stjórnað af Þjóðverjum, miklum Íslandsvinum, sem héldu utan um alla íslenska námsmenn, sem komu til Kölnar og nágrannaborga. Einnig var í Köln konsúll fyrir Ísland, dr. Löffler, alveg sérlega elskulegur og ljúfur maður, sem hugsaði rausnarlega um íslenska hópinn, hélt t.d. vegleg jólaboð fyrir allan hópinn og stuðlaði þannig að því, að landsmenn kynntust og bundust þannig vinaböndum.

Auður og Gulli fluttu á undan okkur heim til Íslands. En vinaböndin brustu aldrei. Þegar þau komu til Þýskalands litu þau alltaf til okkar og þegar við fórum heim til að hitta fjölskyldu og vini, var alltaf hóað til vinafunda, alltaf jafn skemmtilegt, alltaf eins og við hefðum aldrei verið fjarri. Í þessum hópi voru einnig hjónin Örbrún Halldórsdóttir og Guðmundur Georgsson sem einnig var við framhaldsnám í Bonn. Eftir að við vorum öll flutt í heimahagana var oft hist og stofnað til margra gleðifunda. Við ánetjuðumst þá golfíþróttinni og áttum saman margar góðar stundir á fjölda golfvalla bæði utanlands og hér heima. Þetta sport gerði okkur svo gott, holl og góð hreyfing í samneyti við yndislega vini.

Gulli opnaði hér sína tannlæknastofu og þar áttum við greiðan aðgang að hjálpsemi hans og elskusemi. Ekki þurfti að hræðast tannpínuna þá. Það var beinlínis tilhlökkunarefni að setjast í stólinn hjá honum.

Þessir góðu vinir okkar, Auður og Gulli, voru gestrisin með afbrigðum og Gulli lék alltaf við hvurn sinn fingur, kátur, glaður, sérlega hnyttinn í tilsvörum og skemmtilegur. Við minnumst hans með einlægu þakklæti fyrir allt.

Við óskum Auði og börnum þeirra, Margréti, Brynju og Ingvari og þeirra fjölskyldum, styrks og stuðnings á sorgar- og kveðjustund.

Það er sárt að missa, en það er dýrmætt að hafa átt.

Lucinda og

Grímur Ingi.