Almar Guðmundsson
Almar Guðmundsson
Bæjarráð Garðabæjar hefur falið Almari Guðmundssyni, bæjarstjóra Garðabæjar, að bregðast við neikvæðri umsögn Náttúrufræðistofnunar, þar sem bæjaryfirvöldum var meinað að stinga á egg sílamáva til að draga úr fjölgun þeirra í Sjálandi í Garðabæ.

Bæjarráð Garðabæjar hefur falið Almari Guðmundssyni, bæjarstjóra Garðabæjar, að bregðast við neikvæðri umsögn Náttúrufræðistofnunar, þar sem bæjaryfirvöldum var meinað að stinga á egg sílamáva til að draga úr fjölgun þeirra í Sjálandi í Garðabæ.

Þessi niðurstaða kemur í kjölfar þess að íbúi á Strandvegi í Sjálandi í Garðabæ sendi formlega fyrirspurn til bæjarráðs Garðabæjar, þar sem hún kvartaði undan mávageri í Sjálandi. „Mörg dæmi eru um að mávarnir ráðist á fólk. Það er ekki svefnfriður á nóttunni, og þetta ástand er algjörlega óþolandi,“ kemur fram í fyrirspurn íbúans. Þá krafðist hún aðgerða frá bæjaryfirvöldum.

Málið var tekið fyrir hjá bæjarráði Garðabæjar á mánudaginn. Þar upplýsti Almar um neikvæða umsögn Náttúrufræðistofnunar við umsókn Garðabæjar um undanþágu frá friðlýsingarskilmálum Gálgahrauns og leyfi til að fækka sílamávum á svæðinu. Garðabær sendi umsókn sína þann 26. apríl. Beðið var um leyfi umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins til að fækka sílamávum með því að stinga á egg til að draga úr varpárangri mávanna.

Ráðuneytið óskaði þá eftir umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þann 13. maí barst neikvætt svar frá Snorra Sigurðssyni, sviðsstjóra náttúruverndarsviðs stofnunarinnar. Hann sagði erfitt að spá fyrir um hvaða áhrif staðbundnar aðgerðir myndu hafa, án þess að fyrir lægju upplýsingar um stofnstærð sílamávs á helstu varpstöðvum á Suðvesturlandi. „Náttúrufræðistofnun hefur því ekki mikla trú á að þessar áætluðu aðgerðir um að stinga á egg í hreiðrum í hluta Gálgahrauns muni skila árangri við að fækka sílamávi.“

Snorri biðlar að auki til bæjaryfirvalda að miðla upplýsingum til almennings og minna á að samneyti við villta náttúru fylgi oft árekstrar og ónæði. „Þéttbýli útilokar ekki nánd við villt dýr og sýna þarf lífsbaráttu þeirra skilning.“

Bæjarstjóri Garðabæjar mun nú undirbúa svar við umsögn Náttúrufræðistofnunar, ásamt því að vinna að tillögum um aðgerðir til að draga úr ágangi máva innan bæjarmarkanna. hmr@mbl.is