Hetja Guðrún stendur sig eins og hetja í krabbameinsmeðferðinni.
Hetja Guðrún stendur sig eins og hetja í krabbameinsmeðferðinni.
Ari Páll Karlsson ari@mbl.is Hlaupahópurinn Sperrileggir – vinir Guðrúnar Birnu, hefur safnað yfir hálfri milljón fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB).

Ari Páll Karlsson

ari@mbl.is

Hlaupahópurinn Sperrileggir – vinir Guðrúnar Birnu, hefur safnað yfir hálfri milljón fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB).

Hópurinn samanstendur af fjölskyldu, vinum og velunnurum Guðrúnar Birnu Blöndal, 13 ára harðjaxls sem greindist með beinkrabbamein í upphandlegg og meinvörp í lungum í febrúar sl.

Móðir Guðrúnar Birnu, Elín Blöndal, segist ánægð með stuðninginn og að þú greinilegt að markmiðið hefði vel mátt vera hærra en 500 þúsund krónur. Hópurinn fagni þó frekari framlögum til SKB sem veiti börnum sem greinast með krabbamein og fjölskyldum þeirra ómetanlegan stuðning.

Guðrún Birna hefur farið í tvær skurðaðgerðir til viðbótar við lyfjameðferð vegna krabbameinsins, sem að sögn Elínar gengu vonum framar. „Hún er auðvitað enn í miðri krabbameinsmeðferð og verður langt fram eftir ári. En aðgerðirnar tókust vel, sérstaklega þessi handleggsaðgerð, hún var bara mögnuð,“ segir hún en í aðgerðinni var svokallaður sperrileggur úr fætinum græddur í handlegg Guðrúnar Birnu í stað stórs hluta upphandleggsbeins.

Um er að ræða aðgerð sem er ný af nálinni hér á landi og kom læknir frá Salgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg til að framkvæma hana auk „magnaðs teymi íslenskra lækna og heilbrigðisfólks“ að sögn Elínar. „Hún er eiginlega með fót í hendinni, ef svo má segja.“ Annað teymi kom síðan að lungnaaðgerð, þar sem meinvörp voru fjarlægð úr lungunum. „Þannig þetta er dálítið margþætt og búið að vera ansi mikið.“

Um 40 hlauparar hlaupa fyrir Guðrúnu Birnu, allt frá skemmtiskokki til maraþons. Sjálf er Elín gamall hlaupari en meidd í hnénu svo hún lætur skemmtiskokkið duga. Þá hafði Elín hugsað sér að kippa Guðrúnu Birnu með í hjólastól ef heilsan leyfði, sem er þó frekar ólíklegt að verði þar Guðrúnu Birnu finnist það frekar vond hugmynd.

„Við erum með maraþonhlaupara, maðurinn minn og fleiri hlaupa hálfmaraþon. Síðan eru nokkrir í tíu kílómetrunum og aðrir í skemmtiskokkinu,“ segir hún og kveðst full þakklætis í garð hlauparanna og annarra sem hafi stutt þau og verið til staðar í gegnum ferlið, þ.m.t. því heilbrigðisstarfsfólki sem komið hefur að meðferð og umönnun Guðrúnar Birnu. „Það er þvílíkur fjársjóður í þessu fólki og sem dyggur notandi heilbrigðiskerfisins þakka ég fyrir hverja einustu krónu sem ég hef greitt til þess.“