[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnheiður Sigurðardóttir, alltaf kölluð Ragna, fæddist 10. ágúst 1962 í Reykjavík og bjó fyrstu árin á Tjarnargötu 40. „Við veiddum síli í tjörninni og lékum okkur með sleða á veturna, en ég er yngst þriggja systra.

Ragnheiður Sigurðardóttir, alltaf kölluð Ragna, fæddist 10. ágúst 1962 í Reykjavík og bjó fyrstu árin á Tjarnargötu 40. „Við veiddum síli í tjörninni og lékum okkur með sleða á veturna, en ég er yngst þriggja systra.“ Árið 1969 flutti fjölskyldan í nýbyggingu í raðhúsi í Neðra-Breiðholti. „Allt í kring var sveit með hestum á beit, á Kópavogshæð bar fiskitrönur við himin. Núna horfi ég líka út um gluggann hjá mér á hesta á beit, við Kasthúsatjörn á Álftanesinu.“

Ragna gekk í nýjan Breiðholtsskóla en fór síðan í Menntaskólann í Reykjavík þar sem hún útskrifaðist af fornmálabraut 1982. „Við vorum nokkrar vinkonur sem fórum saman úr Breiðholtinu í MR, og við höldum sambandi enn í dag.“ Eftir menntaskólann lá leiðin til Aix-en-Provence í tvö ár þar sem Ragna lærði frönsku og var í myndlistarnámi við háskólann í Aix. „Námið hentaði mér ekki og ég fór heim og sótti um í Myndlista- og handíðaskólanum. Árið 1989 útskrifaðist ég úr nýlistadeild og fór þá til Maastricht í Hollandi í meistaranám í myndlist.“

Að loknu námi var Ragna búsett í Rotterdam þar sem hún skrifaði fyrstu skáldsögu sína, Borg , og starfaði jafnfram sem myndlistarmaður. „Í myndlistinni var ég þó alltaf að skrifa, texta sem ég setti fram í rými á ýmsan hátt. Þegar á leið fann ég að mig langaði meira að skrifa sögur en að vinna innan myndlistar.“ Skot kom út sama ár og eldri dóttirin fæddist, 1997, og síðan ein skáldsagan af annarri.

„Eftir að við Hilmar fluttum heim til Íslands skrifaði ég myndlistargagnrýni fyrir Morgunblaðið í um áratug og Fréttablaðið um tíma. Samhliða skáldsagnaskrifum og fæðingu yngri dóttur okkar, Ernu Maríu, árið 2003 tók ég að mér þýðingar, fyrst úr hollensku og síðan líka úr ensku og dönsku.“ Ragna kennir líka listasögu í stundakennslu við Myndlistaskólann í Reykjavík. „Mér finnst frábært að hitta vikulega hóp af ungu og skapandi fólki.“

Ragna hefur skrifað sjö skáldsögur og eitt smásagnasafn. Borg var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ensk útgáfa á Hið fullkomna landslag var tilnefnd til Impac Dublin Literary Award og Bónusstelpan til Bókmenntaverðlauna DV. Vinkonur kom út 2016 og smásagnasafnið Vetrargulrætur 2019. Í haust er væntanleg frá Forlaginu skáldsagan Þetta rauða, það er ástin . „Í Vetrargulrótum skrifaði ég meðal annars um listamenn sem lærðu í París um miðja síðustu öld. Í þessari bók held ég áfram með áþekkt söguefni, en sagan segir frá ungri listakonu sem fer til listnáms í París upp úr 1950.“

Um áhugamál sín segir Ragna: „Ég er svo heppin að starfa við áhugamál mín, en þar að auki fæ ég mikið út úr því að hugsa um garðinn okkar hér á nesinu. Ég vil helst ganga úti daglega og undanfarin ár hef ég farið á kvöldnámskeið í teikningu og málun í MÍR. En áhugamál mín hverfast í raun öll óbeint um skrifin, því þegar ég stússa í garðinum, geng hér meðfram sjónum eða mála blóm, þá er ég oftast að hugsa um það sem ég er skrifa hverju sinni. Eins og rithöfundar þekkja er ekkert líf án þess að vera með bók í höfðinu. Það sem ég elska mest er samt að vera samvistum við fjölskylduna, ég fæ aldrei nóg af því og er þakklát fyrir hvað ég á góða að. Og ekki má gleyma kisunni okkar henni Sultu, sem er uppáhald allra í fjölskyldunni.“

Fjölskylda

Eiginmaður Rögnu er Hilmar Örn Hilmarsson, f. 23.4. 1958, tónskáld og allsherjargoði. Foreldrar hans: Hjónin Hilmar Ólafsson, f. 18.5. 1936, d. 28.12. 1986, arkitekt í Reykjavík og fyrsti forstöðumaður Þróunarstofnunar Reykjavíkurborgar, og Rannveig Hrönn Kristinsdóttir, f. 12.6. 1937, fyrrverandi fulltrúi, búsett í Reykjavík. „Við Hilmar Örn hófum búskap í Danmörku og þar fæddist Sólveig Hrönn, eldri dóttir okkar, en við fluttum heim til Íslands árið 1999. Við bjuggum einn vetur á Freyjugötu en frá árinu 2000 höfum við verið búsett og unað okkur mjög vel í sveitinni á Álftanesi.“

Dætur Rögnu og Hilmars Arnar eru: 1) Sólveig Hrönn, f. 5.7. 1997, doktorsnemi í klassískum fræðum við Cambridge-háskólann á Englandi. Maki hennar er Oddur Snorrason, doktorsnemi í málvísindum við Queen Mary-háskólann í London, þau eru búsett í Cambridge. „Sem betur fer er nútímatækni þannig að við getum talað saman alla daga og haldið þannig nánum tengslum þrátt fyrir fjarlægðina milli landa, að auki koma þau heim í öllum fríum.“ 2) Erna María, f. 20.9. 2003, er að ljúka námi við Menntaskólann í Hamrahlíð og búsett í foreldrahúsum. Maki hennar er Amelía Björk Davíðsdóttir, nemi í íslensku við Háskóla Íslands. Synir Hilmars eru: 1) Logi, f. 13.8. 1985, kvikmyndagerðarmaður í Reykjavík, sonur hans er Úlfur Lúkas. 2) Óðinn Örn, f. 2.11. 1989, kvikmyndagerðarmaður og tónskáld í London.

Foreldrar Rögnu: Hjónin Sigurður Sigfússon, f. 15.12. 1931, 1.1. 2022, verkfræðingur, og Anna María Þórisdóttir, f. 24.10. 1929, húsmóðir, rithöfundur og þýðandi. „Móðir mín var heimavinnandi en afkastaði miklu sem höfundur og þýðandi, pikkið í ritvélinni var hluti af heimilislífinu. Pabbi vann sem verkfræðingur, lengst af hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og kom meðal annars að helstu vatnsaflsvirkjunum landsins. Hann lést á nýársdag síðastliðinn. Mamma er nú búsett á Hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík.“