Hildur Ruth Markúsdóttir fæddist á Patreksfirði 22. febrúar 1968. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 26. júlí 2022.

Foreldrar hennar eru Svanhildur Sigurðardóttir, f. 11. september 1949, og Gísli Karlsson, f. 19. júlí 1940. Eiginmaður Svanhildar og kjörfaðir Hildar er Markús Ívar Magnússon, f. 22. júlí 1947. Þau eru búsett í Lúxemborg.

Hildur Ruth var elst fimm systkina. Börn Svanhildar og Markúsar eru: Guðrún Eva, f. 13. maí 1981, sambýlismaður hennar er Aleš Guštin, synir þeirra eru Baldur Markús og Jónas Þór; Sigurður Bjarni, f. 8. desember 1986, sambýliskona hans er Catherine Ziegler, sonur hans er Dylan Jay; Magnús Ívar, f. 23. maí 1988. Hálfbræður Hildar, samfeðra, eru Benedikt og Ólafur Haukur.

Hildur Ruth bjó á Patreksfirði fyrstu árin en flutti síðan til Reykjavíkur og Lúxemborgar, þar sem hún starfaði nokkur sumur.

Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1990 og burtfararprófi frá Fósturskóla Íslands vorið 1996, en vegna veikinda varð starfsferillinn ekki langur.

Hildur Ruth giftist Arnari Pálssyni 6. júní 1998, þau slitu samvistir.

Þau eignuðust tvö börn, Alexöndru Diljá, f. 27. apríl 1997, maki Guðmundur Gauti Eysteinsson, og Bjarka Má, f. 22. nóvember 1998, kærasta hans er Rebekka Rut Scheving.

Hildur veiktist alvarlega sumarið 2007 og dvaldi lengi á Grensásdeild Landspítala. Eftir stutta dvöl á heimili fjölskyldunnar í Kópavogi flutti hún í Sjálfsbjargarheimilið, Hátúni 12, árið 2008. Heilsu hennar hrakaði mjög í byrjun árs og flutti hún nýlega á hjúkrunarheimilið Seltjörn.

Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 10. ágúst 2022, klukkan 15.

Það er komið að leiðarlokum hjá Hildi Ruth bróðurdóttur minni. Hún varð aðeins 54 ára gömul, en ég held að hún hafi verið hvíldinni fegin eftir að takast á við erfiða sjúkdóma um langt árabil og tvö stór áföll á þessu ári. Þó kvartaði hún ekki oft yfir hlutskipti sínu.

Hildur Ruth var ósköp smá þegar hún kom í þennan heim, en braggaðist vel og var kátur krakki. Hún var tíu ára þegar ég kynntist henni fyrst. Hún var þá nýlega komin í fjölskylduna, er Markús bróðir minn og Svanhildur mamma hennar hófu sinn búskap. Það var alltaf mjög kært með þeim feðginum. Þegar foreldrar hennar og systkini fluttust búferlum til Lúxemborgar vegna atvinnu Markúsar kaus Hildur Ruth að búa hér hjá móðurömmu sinni og stunda nám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og Fósturskólann. Tengsl við móðurfjölskylduna urðu þá eðlilega meiri. Samskipti okkar voru góð en ekki sérlega mikil framan af, svona eins og gengur og gerist. Hún gifti sig og stofnaði fjölskyldu og ég bjó erlendis um árabil. En tengslin hafa styrkst og aukist eftir að hún flutti í Hátún 12 árið 2008 eftir erfið veikindi. Við Hildur Ruth höfum brallað ýmislegt saman á undanförnum árum. Stundum var hún þung á brúnina þegar ég kom í heimsókn til hennar. Þá fannst henni tilveran heldur dapurleg og var ekki til í eitt eða neitt, en sjaldan var samt langt í húmorinn og brosið og jafnvel skellihlátur. Við sátum oft heima hjá henni í Hátúni og spjölluðum um lífið og tilveruna, uppáhaldstónlistina, komandi kosningar, lélegt aðgengi fyrir fatlaða, nýjasta eldgosið...

Við skelltum okkur á gospelkvöld og sungum fullum hálsi undir styrkri stjórn Þorvaldar Halldórssonar. Tókum þátt í bingókvöldum, yfirleitt enginn vinningur, en góð skemmtun. Einu sinni unnum við þó risastórt páskaegg. Þá var gaman. Við fórum í ótal bíltúra um Reykjavík og nágrenni. Byrjuðum þá gjarnan ferðina í Sundahöfn og skoðuðum skemmtiferðaskipin og giskuðum á hve margar hæðir þau væru og hve margir farþegar, hvaðan þau kæmu og hvert leiðin lægi. Seltjarnarnesið var henni kært og hún sagði að sig hefði langað til að búa á Vífilsstöðum þegar hún var krakki. Örlögin höguðu því svo þannig að hún bjó síðustu mánuði lífsins á þessum tveimur stöðum.

Við gengum stundum um Elliðaárdalinn og dáðumst að gróðri og fuglalífi og sáum lúpínu, kerfil, maríustakk og sigurskúf leysa hvert annað af hólmi eftir því sem leið á sumarið. Skruppum í kaffisopa til Láru Kristínar. Skunduðum á Þingvöll í blíðskaparveðri og horfðum á urriða leika sér undir brúm og spáðum í klettana á barmi Almannagjár: skyldi þessi hanga þarna ennþá þegar við komum næst? Ósjaldan var farið í ísbúð. Áður fyrr dugði ekki minna en meðalstór bragðarefur, en kröfurnar minnkuðu og magamálið líka og undanfarið hefur óskin verið barnaís með smá dýfu. Engiferöl var í miklu uppáhaldi og miklar pælingar um hvaða tegund væri bragðsterkust og best. En ekkert toppaði Síríus-suðusúkkulaði.

Takk Hildur Ruth mín fyrir samfylgdina við mig og mína. Guð geymi þig.

Guðrún Magnúsdóttir

(Dúna frænka).

Við minnumst Hildar Ruthar með gleði.

Hún var einstaklega vel gerð, brosmild, hlý manneskja, söngelsk og mikil barnagæla.

Jónas man Hildi Ruth sem litla stúlku sem var meira eins og litla systir hans fyrstu æviár hennar, alltaf kát og glöð. Ein skemmtileg minning rifjast upp. Þegar Jónas kom heim í mat í hádeginu einn daginn þegar Hildur Ruth var tveggja eða þriggja ára, þá lagði hann sig á stofugólfinu og steinsofnaði og vaknaði við að Hildur Ruth var að berja í ennið á honum með hamri sem hún réð varla við, hann hefur oft í gegnum árin minnt hana á þetta og þau hafa bæði skemmt sér yfir minningunni.

Hún lauk námi sem leikskólakennari og hún varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast fjölskyldu og tvö yndisleg börn áður en hún veiktist.

Við fjölskyldan erum sérlega þakklát fyrir þær stundir sem við höfum átt með henni síðustu ár, þegar við höfum heimsótt hana í Hátúnið og nú síðast á Seltjörn.

Þrátt fyrir mikil og erfið veikindi tókst Hildi Ruth alltaf að halda í gleðina og brosti sínu fallega brosi þegar hún sá okkur.

Sérlega minnisstæðar eru heimsóknirnar tvær núna í júlí á Seltjörn og í annað skiptið vorum við með barnabörnin okkar þrjú með okkur, þessi heimsókn gladdi Hildi Ruth mikið og sérstaklega þegar börnin sungu tvö lög fyrir hana, þá tók hún undir með þeim, það var sérlega gleðilegt að sjá og heyra.

Við munum alltaf minnast Hildar Ruthar fyrir hennar einstaklega ljúfu lund og æðruleysi þrátt fyrir erfið veikindi.

Sendum börnum hennar, foreldrum, systkinum og öðrum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jónas, Elsa Nína

og Sunna María.