Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Eftir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson: "Byggingarverktakar stýra nú uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík, nánast allt í háreistum fjölbýlishúsum á lóðum sem þeir hafa keypt á ofurverði."

Enn er verið að ræða af fullri alvöru núverandi borgarlínutillögur sem munu aldrei ganga upp. Kostnaður við þá framkvæmd var áætlaður um 120 milljarðar króna, sem er óheyrilegt og gott dæmi um óráðsíu borgarstjórnarmeirihlutans í fjármálastjórn undanfarin kjörtímabil. Ýmsar borgir sem upphaflega ætluðu að byggja borgarlínu í háum gæðaflokki, sem stofnunin Institute for Transport and Development Policy viðurkennir sem hraðvagnakerfi BRT, hættu við það og byggðu þess í stað miklu ódýrari borgarlínu, stundum nefnd BRT-Lite, eða létt borgarlína. Sýnt hefur verið fram á, án þess að gerðar hafi verið athugasemdir, að kostnaður við létta borgarlínu sé rúmir 20 milljarðar króna.

Hvað þarf að gera til að koma í veg fyrir rándýra borgarlínu? Það þarf almenn mótmæli kjósenda, fyrst og fremst í Reykjavík, en þeir munu aðallega þurfa að greiða fyrir þann óheyrilega kostnað á næstu árum og áratugum sem núverandi áform hafa í för með sér. Það verður að útfæra þetta viðfangsefni á forsendum íbúa og atvinnurekenda í borginni með það fyrir augum að einn fararmáti vegi ekki að öðrum. Markmiðið á að vera að gera almenningssamgöngur að raunhæfum kosti fyrir fleiri með hagkvæmni og skilvirkni að leiðarljósi. Núverandi samgöngukerfi strætó er enn í ógöngum og þjónar ekki íbúum borgarinnar eins og nýlegt dæmi sannar þar sem vagnarnir önnuðu ekki eftirspurn íbúa vegna fjárhagsstöðu Strætó. Nær væri að taka strætókerfið til algjörrar endurskoðunar með hagsmuni almennings í huga. Fyrirhuguð lagning borgarlínu er vanhugsuð framkvæmd og fullkomin óráðsíða. Auk þess liggur ekki fyrir í dag með hvaða hætti þessi framkvæmd verði fjármögnuð.

Yfirgengileg skuldaaukning

Skuldaaukning borgarsjóðs undanfarin ár er fyrir löngu komin á hættustig. Það þýðir lítið fyrir meirihlutann að sýna ávallt saman stöðu borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar og villa þannig kjósendum sýn á raunverulegri stöðu borgarsjóðs. Ef ekki verður gripið í taumana á næstunni er ljóst að fjárhagsstaða borgarsjóðs mun draga úr og lama margar nauðsynlegar framkvæmdir, svo sem í málefnum grunnskóla, leikskóla, menningar- og íþróttamálum og ýmsum öðrum mikilvægum verkefnum borgarinnar. Það er augljóst að stöðug og markviss skuldasöfnun borgarsjóðs gengur ekki til lengdar. Bruðl með fjármuni borgarinnar á sér víða stað í borgarkerfinu. Enn er verið að eyða hundruðum milljóna króna í að rannsaka Hvassahraun sem hugsanlegt flugvallarstæði fyrir innanlandsflugið þótt ljóst sé að þar verður aldrei byggður flugvöllur. Nýlegar yfirlýsingar borgarstjóra og verðandi borgarstjóra um það mál eru eins og hvert annað grín. Fjárhagsstaða borgarsjóðs er mjög alvarleg og hefur aldrei verið verri. Það kemur að skuldadögum á þeim bæ eins og hjá öðrum sem eyða um efni fram.

Fráleit lóðastefna

Annað mikilvægt borgarmálefni sem hvílir þungt á fjölmörgum borgarbúum er lóðastefna meirihlutans í mörg ár. Allt bendir til þess að sú stefna verði óbreytt. Undanfarin ár hafa nánast eingöngu verið byggð háreist fjölbýlishús í Reykjavík. Örfáum lóðum undir sérbýlishús hefur verið úthlutað á þessu tímabili. Þessi fráleita stefna hefur leitt til þess að þúsundir Reykvíkinga hafa flutt í önnur sveitarfélög þar sem fjölbreytni í lóðaúthlutunum er með öðrum hætti en í Reykjavík. Byggingarverktakar stýra nú uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík, fyrst og fremst á lóðum sem þeir hafa keypt á ofurverði. Það endurspeglast síðan í söluverði íbúðarhúsnæðis í Reykjavík í dag. Lítið er gert með íbúasamráð og mótmæli íbúa.

Það er dapurt að sitja uppi með meirihluta i borgarstjórn sem hagar sér með fyrrgreindum hætti. Framsókn lofaði að breyta þessu. Afar ólíklegt að það gerist.

Höfundur er fv. borgarstjóri.