Minningastund Volódímír Selenskí flytur ávarp við orðuathöfn hjá úkraínska flughernum á sunnudaginn. Hann krefst þess að vestræn ríki hætti að hleypa Rússum inn fyrir landamæri sín, þar sé hin endanlega þvingun.
Minningastund Volódímír Selenskí flytur ávarp við orðuathöfn hjá úkraínska flughernum á sunnudaginn. Hann krefst þess að vestræn ríki hætti að hleypa Rússum inn fyrir landamæri sín, þar sé hin endanlega þvingun. — AFP/Forsetaskrifstofa Úkraínu
Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.is Rússar ættu að „lifa í sínum eigin heimi þar til þeir breyta viðhorfum sínum“.

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Rússar ættu að „lifa í sínum eigin heimi þar til þeir breyta viðhorfum sínum“. Þetta segir Volódímír Selenskí Úkraínuforseti í áskorun sinni til vestrænna ríkja, um að loka á alla rússneska gesti, ferðamenn sem aðra, á meðan Rússar halda uppteknum hætti og fara með oddi og egg gegn nágrannaþjóð sinni.

Ræddi Selenskí við bandaríska dagblaðið The Washington Post í fyrradag og setti þar sjónarmið sín fram. Telur hann slíkt heimsóknabann hafa mun meira að segja en þær viðskiptaþvinganir sem Rússar sæta um þessar mundir.

„Afdrifaríkustu þvinganirnar eru lokun landamæra, vegna þess að Rússar eru að taka land sem þeir eiga ekki,“ sagði Selenskí við dagblaðið. Ekki er reiknað með að stjórnvöld margra ríkja verði við þessari kröfu forsetans. Viðskiptatengsl Rússlands við umheiminn eru enn mjög umfangsmikil, segir breska ríkisútvarpið BBC í umfjöllun sinni.

Hættið að veita áritanir

Ekki daufheyrast þjóðarleiðtogar þó allir sem einn við kallinu. Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, tók undir með Selenskí í gær og ritaði þá á Twitter-síðu sína: „Hættið að veita Rússum ferðamannaáritanir. Heimsókn til Evrópu er forréttindi, ekki mannréttindi.“ Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, lét þess þá getið í samtali við vefritið Politico í júlí, að Evrópusambandsríkjum væri rétt að reisa hömlur við vegabréfsáritunum, Rússum til handa, nema í þeim tilvikum er spryttu af mannúðarmálum.

Finnski forsætisráðherrann, Sanna Marin, lét þess einnig getið í viðtali við þarlenda ríkisútvarpið YLE á mánudaginn, að eitthvað væri bogið við það sem hún orðaði sem svo að „samtímis því sem Rússar heyja grimmilegt árásarstríð í Evrópu fá þeir að njóta eðlilegs lífs, ferðast um Evrópu, vera ferðamenn“.

Hæpnar tilraunir

Búist er við að fulltrúar Eistlands og Finnlands taki vegabréfsáritanamálið upp á fundi utanríkisráðherra Evrópusambandsríkja, sem nú stendur fyrir dyrum.

Dmítrí Peskov, talsmaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, fordæmir ferðabannskröfu Selenskís og kveður ekki hægt að líta á hana öðruvísi en sem „mjög neikvæða“. „Allar tilraunir til að einangra Rússa eða Rússland eru ákaflega hæpnar,“ segir Peskov.

Schengen-vegabréfsáritun gerir handhafa kleift að dvelja innan Evrópusambandsins í allt að 90 daga í nafni viðskipta eða afþreyingar. Þar með getur hinn sami farið um öll 26 ríkin sem þátt taka í Schengen-samstarfinu, það er að segja 22 ESB-ríki, auk Íslands, Noregs, Sviss og Liechtenstein.

Gleymska fylgifiskur óvildar

Hinn almenni Rússi getur því farið víða, en ekki má gleyma því að mörg ríki hafa hins vegar vísað svokölluðum óligörkum á dyr, séðum viðskiptamönnum, sem gripu tækifærið í kjölfar falls Sovétríkjanna og komust til æðstu metorða í rússnesku viðskiptalífi, gjarnan í krafti spillingar. Sömu leið hafa vildarvinir Pútíns forseta víða farið og embættismenn með tengsl við her landsins.

Selenskí Úkraínuforseti hefur enn fremur fordæmt hik Vesturlanda við að banna innflutning rússneskrar olíu og gass, tekjulindar sem nýtist Pútín við stríðsreksturinn í Úkraínu. Ólíklegt er þó að til slíks banns komi, enda eru Þjóðverjar með böggum hildar yfir síminnkandi gasstreymi frá rússneska risanum Gazprom og sjá fram á að fara um dimman og kaldan dal í vetur án þessarar auðlindar frá Rússlandi.

Áðurnefndur Peskov líkir úlfúðinni í garð Rússa við það ástand sem ríkti í Evrópu, rétt áður en síðari heimsstyrjöldin braust út árið 1939. „Mörgum þessara ríkja er hætt við að gleymskan verði fylgifiskur óvildar þeirra,“ segir hann, „þaðan berast nú yfirlýsingar sem eru kunnuglegar frá nokkrum ríkjum í Evrópu miðri fyrir 80 árum.“