Salan á Mílu til Ardians hefði orðið stærsta erlenda fjárfesting hér á landi í hálfan annan áratug.
Salan á Mílu til Ardians hefði orðið stærsta erlenda fjárfesting hér á landi í hálfan annan áratug. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is Franski fjárfestingasjóðurinn Ardian kann að hætta við kaupin á Mílu. Söluferlið hefur tekið tíu mánuði og er enn í óvissu.

Franska fjárfestingafélagið Ardian íhugar það nú alvarlega að hætta við kaupin á Mílu, dótturfélagi Símans. Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans liggur fyrir að Samkeppniseftirlitið (SKE) mun að öllu óbreyttu ekki heimila söluna með þeim fyrirvörum sem lagt hefur verið upp með. Á móti kemur að Síminn, sem hefur nú þegar lækkað verðmiðann á Mílu um fimm milljarða króna vegna athugasemda SKE, hefur ekki áhuga á því að lækka verðmiðann enn frekar – og á sama tíma telja forsvarsmenn Ardians ólíklegt að ásættanlegir samningar náist við SKE um frekari útfærslur kaupsamningsins.

Helsti fyrirvarinn sem SKE gerir við viðskiptin er einkakaupasamningur á milli Símans og Mílu. Sumir keppinautar Símans og Mílu telja að samningurinn feli í sér samkeppnishindranir, og hafa lýst því í greinargerðum sínum til SKE. Ljósleiðarinn, sem er opinbert félag í samkeppni við Mílu, gengur lengst í athugasemdum sínum.

SKE gerði athugasemd við söluna á Mílu í byrjun júlí. Ardian óskaði í kjölfarið eftir sáttaviðræðum og skilaði greinargerð um málið 15. júlí sl. Fyrsti efnislegi fundurinn á milli SKE og Ardians fór þó ekki fram fyrr en í gær, 9. ágúst. Í millitíðinni hafði SKE óskað eftir umsögnum keppinauta, boðið Símanum og Mílu að svara þeim umsögnum, og í gærmorgun var aftur óskað eftir frekari umsögnum samkeppnisaðila. Fundi SKE og Ardians í gær lauk án niðurstöðu. Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans kom þó fram að SKE tæki undir sjónarmið Ljósleiðararns og að ólíklegt væri að salan yrði samþykkt miðað við þær forsendur sem liggja fyrir.

Samningur á milli Símans og Ardians var undirritaður í október í fyrra og hefur málið því tekið tíu mánuði. Ardian hefur rétt á því að óska eftir fresti í einn mánuð til viðbótar, en sú ósk var þó ekki lögð fram á fundinum í gær.