Fengur Þýsk stjórnvöld skrifuðu nýverið undir samning við nígerísk stjórnvöld um að skila því Benín-bronsi sem finna má á söfnum þar í landi. Listaverkin prýddu konungshöllina í konungsríkinu Benín til 1897 er þeim var stolið.
Fengur Þýsk stjórnvöld skrifuðu nýverið undir samning við nígerísk stjórnvöld um að skila því Benín-bronsi sem finna má á söfnum þar í landi. Listaverkin prýddu konungshöllina í konungsríkinu Benín til 1897 er þeim var stolið. — AFP/Adam Berry
Stjórnendur hjá Horniman-safninu í London hafa ákveðið að skila 72 benínskum listaverkum til Nígeríu.

Stjórnendur hjá Horniman-safninu í London hafa ákveðið að skila 72 benínskum listaverkum til Nígeríu. Þeirra á meðal er hluti af Benín-bronsinu svonefnda, en þegar breski herinn árið 1897 fór um vesturafríska konungsríkið Benín, þar sem nú er fylkið Edo í Suður-Nígeríu, tók hann þúsundir járnskúlptúra og listaverka ófrjálsri hendi.

Samkvæmt frétt The Guardian er Horniman-safnið fyrsta ríkisrekna listasafnið í Bretlandi sem skilar hluta ránsfengsins. Þar kemur líka fram að um samhljóða ákvörðun stjórnar safnsins hafi verið að ræða. „Það fer ekkert á milli mála að þessir gripir voru teknir með ofbeldi. Utanaðkomandi ráðgjafar studdu þá skoðun okkar að það væri bæði viðeigandi og siðferðisleg skylda okkar að skila gripunum til Nígeríu,“ segir stjórnarformaður Eve Salomon í samtali við The Guardian . Þar kemur fram að nígerísk stjórnvöld hafi í byrjun árs falast eftir því við stjórn safnsins að gripunum yrði skilað, en til stendur að opna sýningu í Edo-safninu fyrir vesturafríska list 2025 þar sem gripirnir verða til sýnis.

Alls var um 10.000 gripum stolið í konungsríkinu Benín 1897 og eru listaverkin geymd hjá 165 opinberum söfnum víðs vegar um heiminn sem og í einkasöfnum safnara. British Museum í London geymir flesta gripi eða 900 talsins. Nýverið tilkynntu stjórnendur hjá háskólunum í Oxford og Cambridge að þeir hygðust skila samtals um 200 gripum.

Að mati Dans Hicks, prófessors í fornleifafræði við Oxford-háskóla, er ákvörðun stjórnar Horniman-safnsins „einstaklega mikilvæg“ vegna þess að safnið er ekki aðeins þýðingarmikið safn í London heldur einnig rekið fyrir ríkisfé. „Fram til þessa hefur aðeins einum og einum grip verið skilað í einu, sem er allt annars eðlis en þeir 1.100 gripir sem þýsk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að skila,“ segir Hicks og bendir á að ákvörðun Horniman-safnsins setji aukinn þrýsting á stjórnendur British Museum, sem fram til þessa hafa neitað að skila sínum gripum.