Guðný Hannesdóttir fæddist í Reykjavík 12. mars 1930. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 26. júlí 2022.

Foreldrar hennar voru Rósa Steinunn Guðnadóttir, f. 17. maí 1899, d. 15. september 1991, og Hannes Einarsson, f. 11. mars 1896, d. 7. ágúst 1970.

Guðný var yngst systkina sinna en hin voru Guðni, f. 4. apríl 1925, d. 30. desember 2016, Einar, f. 13. febrúar 1928, d. 26. maí 2021, og uppeldissystir Ellen Marie Sveins, f. 26. apríl 1929, d. 17. nóvember 2021.

Guðný giftist hinn 10. ágúst 1957 Jóni Guðmundi Axelssyni skipstjóra, f. 13. nóvember 1932, d. 8. desember 1982. Foreldrar hans voru Oddfríður Ragnheiður Jónsdóttir, f. 25. júní 1913, d. 12. september 1997, og Axel Guðmundsson, f. 15. júní 1905, d. 1. janúar 1971.

Börn þeirra: 1) Rósa Steinunn, f. 28. janúar 1958, maki Guðmundur I. Guðmundsson. Fyrri maki Eggert Ó. Antonsson, dóttir þeirra Guðný Arna, f. 13. febrúar 1977, maki Haraldur Már Guðnason, synir þeirra Haukur Logi og Valur Freyr. 2) Oddfríður Ragnheiður, f. 14. nóvember 1961, fyrri maki Tryggvi Harðarson, dætur þeirra a) Ingunn, f. 7. febrúar 1989, sambýlismaður Eyþór Arnarson, dætur þeirra Vordís Björk og Arney Ösp, b) Steinunn, f. 2. janúar 1991, sambýlismaður Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson, sonur þeirra Valtýr Leó. 3) Hannes Axel, f. 19. september 1964, maki Yukie Moryiama, dóttir þeirra Rósa Maiko, f. 29. október 1990.

Guðný ólst upp á Ránargötu 33 í Reykjavík þar sem foreldrar hennar byggðu sér heimili og bjuggu alla sína búskapartíð. Hún gekk í Miðbæjarskólann og að lokinni skólagöngu þar sat hún tvo vetur í kvöldskóla KFUK. Guðný var í Húsmæðraskólanum í Reykjavík veturinn 1948-49. Eftir það vann hún við verslunarstörf þar til hún gifti sig, en þau Jón kynntust árið 1956. Hann var í siglingum á millilandaskipum og var mikið að heiman. Á meðan börnin uxu úr grasi sinnti hún heimilisstörfum og uppeldi þeirra. Á seinni árum vann hún við verslunarstörf og á Borgarspítalanum í Fossvogi. Guðný tók virkan þátt í félagsstörfum í kvenfélaginu Hrönn.

Útförin fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 10. ágúst 2022, klukkan 13.

Hverfur margt

huganum förlast sýn

þó er bjart

þegar ég minnist þín.

Allt er geymt

allt er á vísum stað

engu gleymt,

ekkert er fullþakkað.

(Oddný Kristjánsdóttir)

Allt á sér upphaf og endi. Elsku mamma, eitt andartak var hún hjá okkur, á því næsta farin. Hún sofnaði inn í kyrra sumarnóttina á meðan rigningin féll hægt til jarðar. Allt varð hljótt um stund og ég grét með rigningunni. Nú er hún frjáls og laus undan veikindum sem hrjáðu hana undanfarna mánuði. Minningarnar eru margar og þær raða sér saman sem perlur á streng. Þær geymi ég í hjarta mínu.

Blessuð vertu baugalín.

Blíður Jesú gæti þín,

elskulega móðir mín;

mælir það hún dóttir þín.

(Ágústína J. Eyjólfsdóttir)

Þín

Rósa Steinunn.

Kveðja til mömmu

Söknuður sár nú sækir að mér,

ég sakna þín elsku mamma.

Eina sem ég á eftir af þér

er mynd af þér í ramma.

Þrautum þínum nú lokið er,

þú býrð nú á heimili nýju.

Þú taka munt þar á móti mér,

með þinni einstöku ást og hlýju.

(Heiða Jónsd.)

Ýmsar tilfinningar hafa farið í gegnum hugann síðustu daga. Söknuður og tómleiki vegna þess að þú ert farin frá okkur, en líka léttir yfir því að erfið veikindi þín eru yfirstaðin.

Þú fæddist og ólst upp á Ránargötu 33 hjá ástríkum foreldrum, ásamt tveimur bræðrum og uppeldissystur. Þar eignaðist þú góðar vinkonur og varði sú vinátta alla tíð. Fyrstu búskaparár ykkar pabba bjugguð þið í Vesturbænum en árið 1970 gerðust þið frumbyggjar í Fossvoginum og þar bjóstu til dauðadags.

Líf þitt var ekki alltaf dans á rósum en þú sýndir styrk og sjálfstæði á erfiðum stundum.

Þú hafðir ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og varst ekki vön að liggja á þeim. Þú stóðst fast á þínu og rökræður við þig enduðu oftar en ekki á að skipta um umræðuefni.

Ef eitthvað stóð til varstu ekki í vandræðum með að galdra fram kökuboð þar sem fræga sérrítertan þín var í öndvegi og ófáar snitturnar smurðirðu gegnum árin. Alltaf bakaðar nokkrar sortir af smákökum fyrir jólin og sendar í Mackintosh-dós til Japans, meðan Hannes og fjölskylda bjuggu þar.

Veislur af öllum stærðum og gerðum voru í miklu uppáhaldi hjá þér og þar varstu hrókur alls fagnaðar á meðan þú varst frísk.

Þú hélst upp á 90 ára afmælið þitt í skugga Covid, en að kvöldi þess dags var öllu skellt í lás. Tíminn sem fór í hönd var þér erfiður og einangrunin tók á. Verst fannst þér að þurfa að hætta að keyra og þú saknaðir þess frjálsræðis sem bíllinn gaf þér. Í dag verður þú jarðsett við hlið pabba, en það eru 65 ár síðan þið giftuð ykkur. Þó að sárt sé að kveðja er huggun í að þið séuð saman á ný.

Þín

Oddfríður (Fríða).

Ó elsku besta amma okkar. Við trúum varla að það sé komið að þessu, kveðjustundinni. Við huggum okkur þó við að nú líður þér betur í blómalandinu.

Þú varst ótrúleg kona, harðdugleg, ákveðin og viljasterk og sýndir það fram að hinsta andardrætti.

Við sjáum auðvitað þessa kosti þína í okkur og okkar börnum og fyrir það erum við þakklátar.

Minningarnar um samveru og spjall eru margar og skemmtilegar og við geymum þær í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Þú eyddir óratíma í að segja okkur frá gömlu dögunum, því þegar þú varst að alast upp á Ránargötunni, afa okkar sem við kynntumst aldrei og sögur af mömmu, Rósu og Hannesi sem krökkum.

Þú varst alltaf vel tilhöfð, með augnskugga og varalit sem þú passaðir alltaf upp á að væri í toppstandi.

Þú fórst varla út úr húsi án þess að vera í pilsi og hælaskóm, sama hvað við afkomendurnir reyndum að fá þig til að sleppa hælaskónum, a.m.k. svona seinustu árin.

Þú elskaðir veislur, hvers kyns veislur. Þú varst mætt fyrst og farin seinust úr kaffiboðum og afmælisveislum hjá okkur systrum.

Lengi vel bauðstu heim í kökuboð á afmælinu þínu og var sérrítertan þín einstaklega fræg og bökuð við hvert tilefni.

Við systur, verandi litlar stelpur þá, skildum svo sem aldrei af hverju hún var svona vinsæl enda ekki bragð af henni sem okkur þótti gott.

Að koma í Efstalandið til ömmu Guðnýjar og fá ísblóm var alltaf toppurinn og fékk Vordís Björk langömmustelpa aldeilis að kynnast því líka og þótti það mikið sport.

Þú gafst langömmubörnunum ekkert eftir og yngdist um tugi ára í hvert sinn sem þú hittir þau.

Þú faldir þig fyrir þeim og hoppaðir og skoppaðir um öll gólf.

Það gaf þér greinilega mikla orku og eldmóð að vera í kringum þau og þau voru öll svo hrifin af þér.

Það sem við erum þakklátar fyrir að við og okkar fólk höfum fengið að njóta samverunnar við þig í öll þessi ár.

Elsku amma okkar, eins og við sögðum í hvert einasta skipti sem við hittum þig: við elskum þig og munum alltaf gera.

Takk fyrir allt.

Þínar ömmustelpur,

Ingunn og

Steinunn.

Guðný Hannesdóttir föðursystir mín var ein eftirlifandi af hennar kynslóð í móðurætt. Elstur af þeim var Guðni bróðir f. 1925-2016, síðan Einar bróðir f. 1928-2021, Ellen f. 1929-2021, fóstursystir og frænka, en móðir hennar var Þorbjörg móðursystir Guðnýjar, Guðný f. 1930 og yngst var Didda, systurdóttir Rósu Steinunnar, f. 1932-2020. Þessi kynslóð var langlíf og komust þau öll yfir nírætt. Systur Rósu Steinunnar, mæður Ellenar og Diddu, létust á þrítugsaldri frá ungum börnum.

Guðný ólst upp á Ránargötu þar sem hún þekkti hvern krók og kima í Vesturbænum. Í þá daga voru tvö bakarí og margar verslanir í tveggja km radíus frá heimilinu, að ekki sé talað um ísbúðina Fjólu. Mikill samgangur var milli manna sem bjuggu í nágrenninu enda var það eins og lítið þorp og eignuðust þau systkinin þar vini fyrir lífstíð. Guðný átti ekki alltaf gott líf því eiginmaður hennar, Jón Axelsson, veiktist og lést langt um aldur fram. Þá varð hún einstæð með þrjú börn og fór út á vinnumarkaðinn. Hún hafði alltaf vísan stuðning hjá móður sinni en samband þeirra mæðgna var afar gott. Guðný átti auðvelt með að sjá það spaugilega í tilverunni og framkallaði hún óteljandi hlátrasköllin hjá mér í gegnum tíðina. Guðný elskaði sitt fólk og var stolt af því, augun ljómuðu þegar hún sagði sögur af ástvinum, fjær og nær. Hún var traustur vinur, vanaföst og hélt vel í góðar hefðir. Ég þakka elsku frænku minni fyrir allt og það verður tómlegt að hafa engan af elstu kynslóðinni með okkur lengur, þeirra er sárt saknað. Blessuð sé minning Guðnýjar frænku og þeirra sem eru gengnir.

Rósa Marta

Guðnadóttir.

Elsku Guðný frænka er sú síðasta í okkar fjölskyldu úr „öldungaráðinu“ til að kveðja en hún varð langlíf eins og aðrir í ættboganum. Guðný og móðir okkar, Ellen Marie Sveins, voru systradætur og ólust upp saman í kjölfar þess að mamma missti móður sína daginn eftir sjö ára afmælið sitt. Faðir hennar fluttist þá með hana til mágkonu sinnar og svila. Guðný og mamma deildu saman herbergi á Ránargötunni og út um gluggann í risinu kölluðust þær á við vinkonur sínar og skipulögðu bíóferðirnar sem þær töluðu alla tíð mikið um. Vinskapurinn sem myndaðist á Ránargötunni hélst alla tíð og var dýrmætur enda margt skemmtilegt sem vinkonurnar Guðný, Ellen, Hulda, Únna og Kata brölluðu saman.

Guðný frænka var stór hluti af okkar fjölskyldu. Eftir að hún varð ekkja kom hún á laugardögum í kaffi heim til foreldra okkar og var Rósa amma (móðir Guðnýjar) með í för meðan hún var á lífi. Laugardagskaffið varð fastur liður í tilverunni sem við systur sóttum með börn okkar og barnabörn löngu eftir að við vorum fluttar að heiman. Guðný kom iðulega með köku með sér til að leggja á kaffiborðið. Börnin okkar kynntust þarna smjörköku, möndluköku og sandköku og eiga margar góðar og skemmtilegar minningar frá fjölskyldusamkomum í laugardagskaffinu með ömmu Ellen og Guðnýju frænku.

Ekki var haldið afmæli eða aðrar veislur í fjölskyldunni án þess að Guðnýju frænku væri boðið en börnin hringdu iðulega sjálf í hana og var hún hrókur alls fagnaðar í veislunum. Hún var nösk á gjafir og þótti börnunum sérlega vænt um náttfötin sem hún gaf þeim og aðrar flíkur. Guðný var lífsglöð kona, sagði skemmtilega frá og var stálminnug. Hún var hreykin af öllu sínu fólki, fylgdist vel með allri stórfjölskyldunni og spurði iðulega frétta.

Ein af okkar síðustu stundum með elsku Guðnýju frænku var í apríl síðastliðnum en þá mætti hún í fermingu hjá Emilíu Sigrúnu, barnabarni Þorbjargar Rósu. Sökum heimsfaraldurs var orðið nokkuð langt síðan við sáum hana síðast en hún var hress og alveg til í smá sprell í myndabásnum og eigum við yndislega minningu um þessa stund með elsku frænku okkar.

Við þökkum henni fyrir samfylgdina gegnum lífið og erum þakklátar fyrir allar góðu minningarnar sem munu lifa í hjarta okkar um alla framtíð.

Þorbjörg Rósa, Ásta og Sveindís.

Nýlega barst mér sú sorgarfregn að Guðný Hannesdóttir væri látin. Guðný tengist fjölskyldu minni í gegnum móðursystur mína Steingerði Þórisdóttur. Guðný bjó í húsi á Ránargötunni en móðursystir mín á Bræðaborgarstígnum þar sem Sveinsbakarí var til húsa.

Sagt er að erfitt sé að segja til um á hvaða andartaki vinátta verður til, en hvað varðaði vináttu Guðnýjar og Steingerðar var það við þeirra fyrstu kynni.

Guðný segir sjálf svo frá í fallegri minningargrein um móðursystur mína að kynni þeirra Steingerðar hafi hafist á árinu 1938, þ.e. þegar Steingerður var þriggja ára og Guðný eitthvað eldri.

Ég held að þær vinkonur hafi haft nánast samband daglega, nema timabil þegar Steingerður flutti til Borås með fjölskyldu sinni þegar maki hennar var í framhaldsnámi. Að sjálfsögðu heimsótti Guðný vinkonu sína á þeim tíma til Svíþjóðar.

Steingerður fékk heilabóðfall og var á stofnun í 22 ár. Allan þennan tíma og allt til dauðadags heimsótti Guðný vinkonu sína reglulega og hlúði að henni. Missir okkar var mikill þegar Steingerður féll frá fyrir sjö árum og ekki síst fyrir Guðnýju sem alla sína ævi hélt vinskap við hana sem aldrei féll skuggi á.

Þau nánu og góðu kynni sem Guðný átti við stjórfjölskyldu mína leiddu til þess að frá barnsaldri kallaði ég hana alltaf Guðnýju frænku og taldi það vera svo og þannig er það í minningu minni.

Lífið kemur ekki upp í stafrófsröð og bókstafinn sem við fáum úthlutaðan í stafrófi lífsins fáum við ekkert um að segja. Mikill var missir Guðnýjar og barna hennar þegar maki hennar Jón Axelsson féll frá, langt fyrir aldur fram.

Minningin um þann góða mann lifir enn með manni. Hann var glaðvær og einlægur og líkt og sólin breiddi hann birtu og yl til samferðamanna sinna. Guðný tókst áfram við lífið af miklu æðruleysi við fráfall hans.

Ekki var hægt annað en að þykja vænt um Guðnýju, bara fyrir þá mannkosti sem hún bar. Hún var áhugasöm um líf og tilveru fjölskyldu sinnar, ættingja og vina. Börnin Rósa, Oddfríður og Hannes ásamt barnabörnum hennar voru henni allt. Mjög gjarnan var hún að flytja fréttir af þeim og var stolt af þeim og því sem þau tóku sér fyrir hendur.

Nú kveð ég góða frænku sem og sendi fjölskyldu hennar innilegustu samúðarkveðju. Mannsandinn líður ekki undir lok, minning um góða manneskju lifir í hjarta og minni, líkt og sólin sem virðist ganga undir en heldur alltaf áfram að lýsa.

Sveinn

Guðmundsson.

Í dag er lögð til hinstu hvílu Guðný æskuvinkona okkar af Ránargötunni í vesturbæ Reykjavíkur. Við vorum fimm í vinkonuhópnum en nú eru þrjár fallnar frá. Vinkonuhópurinn voru frænkurnar og uppeldissysturnar Guðný og Ellen, sem lést í nóvember árið 2021, systurnar Hulda og Únna, sem lést árið 2013, og Kata. Við bjuggum allar á Ránargötunni en við kynntumst þegar við ólumst þar upp á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar þegar Reykjavík var að breytast úr bæ í borg. Vináttan hélst allar götur síðan.

Þegar litið er til baka þá vakna margar góðar minningar. Við undum okkur við leik í götunni okkar en Kata bjó á númer 31, Hulda og Únna á 32 og Guðný og Ellen á 33. Þegar við stofnuðum fjölskyldur og fluttum af Ránargötunni héldum við sambandi og hittumst reglulega, til dæmis í afmælum hver hjá annarri. Guðný var góð vinkona. Hún var félagslynd og áhugasöm um lífið og tilveruna. Þá var hún sjálfstæð, tók til dæmis bílpróf ung og var alltaf tilbúin að skutlast með vinkonurnar allt þar til hún hætti að keyra fyrir ekki svo löngu.

Í september 2021 hittumst við Guðný, Ellen, Hulda og Kata í afmæli Huldu en í nóvember var Ellen jarðsungin. Núna átta mánuðum eftir andlát Ellenar hefur Guðný kvatt. Heilsunni hafði hrakað undanfarna mánuði og á afmælinu hennar í mars voru símtöl látin nægja.

Á kveðjustund sendum við ástvinum Guðnýjar hjartanlegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Hulda og Katrín.

Við systkinin eigum margar ljúfar minningar um hana Guðnýju. Guðný var besta vinkona móður okkar, Steingerðar Þórisdóttur, en bernskuheimili þeirra beggja voru í gamla Vesturbænum. Guðný bjó á Ránargötunni, en mamma skammt frá á Bræðraborgarstígnum. Guðný, sem var nokkrum árum eldri en mamma, fékk það hlutverk að barnfóstra mömmu. Þá stofnaðist vinátta sem varði lengi og aldrei bar skugga á.

Guðný gekk í hjónaband með Jóni Axelssyni skipstjóra og eignuðust þau tvær dætur og son sem öll fengu gott atlæti. Jón var á farskipum og mikið fjarri þannig að heimilishaldið og uppeldi barnanna kom að mestu í hlut Guðnýjar. Þau reistu sér hús í Fossvogi rétt eins og foreldrar okkar. Guðný var smekkkona og hélt fallegt heimili.

Það var mikill samgangur á milli fjölskyldu okkar og Guðnýjar og við börnin urðum góðir vinir. Minnisstætt er tjaldferðalag austur á land, nokkru áður en hringvegurinn kom. Sum okkar tók Guðný í fóstur þegar foreldrar okkar voru í langferðum. Hjá Guðnýju fékk maður alvöru franskar kartöflur sem þekktust varla þá. Samskiptin voru alltaf góð, enda var Guðný sérstaklega nærgætin og elskuleg.

Guðný var húmoristi og hafði skemmtilega frásagnargáfu og oft var mikið hlegið við eldhúsborðið í Búlandinu, en vinkonurnar hittust þar flesta morgna yfir kaffibolla. Þær bökuðu saman nokkrar sortir fyrir hver jól og iðulega tóku þær að sér snittugerð fyrir ýmis veisluhöld.

Því miður lést Jón langt um aldur fram eftir erfið veikindi. Guðný minnkaði við sig eftir andlát hans og flutti í Dalalandið, steinsnar frá okkur í Búlandinu. Guðný var dugleg og æðrulaus í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur. Hún starfaði lengi vel á Borgarspítalanum, sem var í næsta nágrenni við heimili hennar.

Móðir okkar veiktist alvarlega árið 1993 og dvaldi á sjúkrastofnun uns hún lést árið 2015. Við veikindi mömmu minnkuðu samskiptin, en Guðný heimsótti mömmu reglulega þar sem hún dvaldi.

Við þökkum Guðnýju samfylgdina og elskulegheitin í gegnum árin um leið og við vottum ástvinum hennar og fjölskyldu samúð.

F.h. „barnanna“ í Búlandi 27,

Tómas

Hallgrímsson.