Gosstöðvarnar Margir mæta á svæðið illa búnir, að sögn lögreglunnar.
Gosstöðvarnar Margir mæta á svæðið illa búnir, að sögn lögreglunnar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Veronika Steinunn Magnúsdóttir Hólmfríður María Ragnhildardóttir Ákvörðun, þess efnis að banna börnum undir 12 ára að koma að gossvæðinu, er matskennd en henni verður framfylgt, að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

Ákvörðun, þess efnis að banna börnum undir 12 ára að koma að gossvæðinu, er matskennd en henni verður framfylgt, að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum.

Ef lögregla mun beita sektum gegn þeim sem fara á gossvæðið í trássi við fyrirmæli, verður það gert samkvæmt lögreglulögum. Lögreglustjóri getur veitt almenn fyrirmæli á hættustundu, samkvæmt 23. gr. laga um almannavarnir. Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.

„Mönnum er skylt að fara eftir fyrirmælum lögreglu og ef það er ekki gert, þá er hægt að beita sektum samkvæmt lögreglulögum,“ segir Úlfar, spurður hvort unnt sé að sekta fólk sem fer að gosinu eða þá sem halda að gosinu með börn undir 12 ára aldri.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvað í gær að takmarka aðgengi barna yngri en 12 ára að gosstöðvunum í Meradölum, þegar svæðið er opið, þar sem erfiðlega hefur gengið að hefta för foreldra með ung börn inn að gosinu, sem í flestum tilfellum eru erlendir ferðamenn. Börn og foreldrar þeirra hafi í mörgum tilfellum verið illa búin og telur lögregla útlit fyrir að fólk geri sér ekki grein fyrir aðstæðum á gosstöðvunum.

Spurður hvernig eftirliti með slíku er háttað segir Úlfar: „Við verðum með virkt eftirlit á Suðurstrandarveginum, við tölum við þá sem fara í gegn.

Gæti þá verið spurt um skilríki hjá börnum?

„Það gæti komið fyrir, ef vafi leikur á aldri.“

Hvers vegna 12 ára börn? Er eitthvað sem liggur þarna að baki?

„Hvers vegna ekki? Þetta er náttúrlega matskennd ákvörðun,“ segir Úlfar. Ekki fengust nánari upplýsingar um ástæður aldurstakmarksins.

„Menn geta velt þessu fyrir sér en ákvörðunin liggur fyrir og henni verður framfylgt,“ segir Úlfar. Hann segist vonast til þess að aðgerðirnar verði til þess að tryggja öryggi á svæðinu. Almannavarnir beri ábyrgð á að það sé gert.

Spurður, hvort tilmælin séu of sértæk, segir Úlfar að ákvæðið sé rúmt og því svigrúm til staðar.

Lokað var inn á gosstöðvarnar í gær vegna veðurs og verður tekin ákvörðun um hvort gossvæðið verði opið í dag, klukkan 08.30 í dag. Gul veðurviðvörun var í gildi á Suðurlandi til hádegis í gær.

Ómögulegt að fólk í sjálfboðavinnu standi vaktina

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir ómögulegt að björgunarsveitir í sjálfboðaliðavinnu víða af landinu standi aftur vaktina við eldgos á Reykjanesskaga mánuðum saman. Vonar hann að málið verði leyst sem allra fyrst og bendir hann meðal annars á að þetta sé vakt sem landverðir gætu sinnt.

„Björgunarsveitirnar munu eftir sem áður koma að björgunarstörfum en ekki vera með stýringu og almenna landvörslu á svæðinu. Það er bara ekki forsvaranlegt að ætlast til þess.

Þess vegna er verið að tala um að fá í þetta aðra aðila og kostnaður við það yrði þá væntanlega greiddur úr ríkissjóði,“ segir Fannar.