[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jenny Colgan. Helga Soffía Einarsdóttir þýddi. Angústúra, 2022. Kilja, 425 síður.

Nýjasta bók skosku skáldkonunnar Jenny Colgan, sem áður hefur meðal annars sent frá sér verkin Litla bakaríið við Strandgötu , sem var fyrsta bókin á íslensku, Á fjarlægri strönd og Litla bókabúðin í hálöndunum , ber titilinn 500 mílur frá mér til þín. Sagan segir frá tveimur hjúkrunarfræðingum, Alyssu Westcott, jafnan þekkt sem Lissa, frá London og Cormac frá rólega þorpinu Kirrinfief.

Eins og heiti fyrrnefndra bóka bera með sér tengjast þær oft stöðum og er 500 mílur frá mér til þín ekki undanskilin. Söguþráður skáldsögunnar er ekki ólíkur hinni vinsælu jólamynd The Holiday (2006) eftir Nancy Meyers. Í myndinni skipta aðalpersónurnar, Iris (Kate Winslet) og Amanda (Cameron Diaz), um heimili yfir jólin. Iris býr í litlu, heimilislegu húsi í Shere á Englandi en Amanda í stóru einbýlishúsi í LA. Aðalpersónur skáldsögunnar gera slíkt hið sama; Lissa og Cormac hafa starfs- og vistaskipti. Lissa tekur við, í stað Cormac, sem hjúkrunarfræðingur í litla þorpinu Kirrinfief og Cormac kynnist álaginu í yfirþyrmandi stórborginni. Ólíkt The Holiday finna aðalpersónurnar sér ekki maka hvor á sínum staðnum heldur falla þau smátt og smátt hvort fyrir öðru í gegnum samskipti sín á netinu.

Skáldsagan byrjar á erfiðum nótum, sem endurspeglar illa afganginn af bókinni sem er hugljúfur og notalegur. Lissa glímir við áfallastreituröskun eftir að verða vitni að hræðilegu banaslysi í London. Yfirmenn hennar þrýsta á um að hún hafi vistaskipti við Cormac í von um að sveitasælan geri henni gott. Ljóst er að Cormac hefur líka gott af nýju umhverfi en hann man enn tilgangslausan sársaukann og sóunina sem hann varð vitni að í hernum.

Það eru kannski ekki margir lesendur sem geta fyllilega samsamað sig Lissu og aðstæðum hennar en það sem Lissa er einnig að upplifa eru einkenni kulnunar, en hægt er að ímynda sér að heimsfaraldurinn hafi tekið sinn toll af fólkinu í heilbrigðiskerfinu hérlendis og annars staðar.

Persónur skáldsögunnar eru misskýrar. Lissa og Cormac eru auðvitað í forgrunni en lesendur kynnast líka öðrum persónum ágætlega, t.d. hinni skrautlegu og kjaftforu Kim Ange sem starfar einnig sem hjúkrunarfræðingur í London. Svo eru aðrar persónur sem týnast í bakgrunninum, eins og vinalegir nágrannar þeirra í Kirrinfief, sumir að vísu viljandi. Colgan tekst listilega að lífga við skoska hálendið og fólkið þar með fallegum lýsingum á tærri náttúrunni og sérkennilegum bæjarbúum.

Söguþráðurinn er mjög straumlínulagaður og ekki síður fyrirsjáanlegur en stíllinn er hlýlegur og skáldsagan flæðir vel, sem gerir hana góða aflestrar. Colgan leiðir lesandann auðveldlega í gegnum hverja síðuna á fætur annarri. Hún skrifar í þriðju persónu og flakkar aðallega á milli Lissu í Kirrinfief og Cormac í London en beinir athygli sinni stundum að aukapersónum, sem getur stundum verið ruglingslegt.

Elskendur sem aldrei snertast

Ítarlegar lýsingar á daglegum störfum þeirra sem hjúkrunarfræðingar eru margar hverjar mjög spennandi og áhugaverðar. Þær styðja við söguþráðinn, sem annars væri einungis mjög hæg saga um tvo brotna einstaklinga sem finna ástina á netinu. Skilaboðin þeirra á milli, sem oftast eru um vinnuna, eru einu samskipti þeirra og birtast lesendum myndrænt á síðum bókarinnar. Þrátt fyrir að samskiptin séu í gegnum netið tekst Colgan að skapa trúverðuga hrifningu þeirra á milli. Ástarsagan sem Colgan gefur sér mikinn tíma í að byggja upp stenst hins vegar ekki væntingar undir lokin.

500 mílur frá mér til þín er sjálfstætt framhald af Litlu bókabúðinni í hálöndunum og Litlu bókabúðinni við vatnið og munu lesendur bókarinnar eflaust bíða í ofvæni eftir næstu bók Jenny Colgan sem hefur slegið í gegn hjá íslenskum lesendum. Heilt yfir er hér um að ræða hugljúfa og einlæga skáldsögu sem skortir alla kynorku en er rómantísk samt sem áður.

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Höf.: Jóna Gréta Hilmarsdóttir