Dugnaður Aurore byrjaði strax að safna fyrir staðnum.
Dugnaður Aurore byrjaði strax að safna fyrir staðnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóra Birna Ingvarsdóttir thorab@mbl.is Aurore Pélier Cady opnaði á dögunum fyrstu frönsku sætabrauðsverslunina á Íslandi. Er hún til húsa á Bergstaðastræti 14 í Reykjavík.

Þóra Birna Ingvarsdóttir

thorab@mbl.is

Aurore Pélier Cady opnaði á dögunum fyrstu frönsku sætabrauðsverslunina á Íslandi. Er hún til húsa á Bergstaðastræti 14 í Reykjavík. Hún hefur gert leigusamning til þriggja mánaða, en vonast til þess að geta gert langtímaleigusamning, gangi reksturinn vel. Fyrstu dagarnir hafa farið vel af stað, að sögn Aurore. „Það er búið að vera frekar stöðugt flæði.“ Vinsælasta sætabrauðið er sítrónutertan og éclair, sem er hefðbundið franskt sætabrauð.

Hún kveðst nú þegar komin með góðan hóp viðskiptavina í nágrenninu. Þar að auki eigi erlendir ferðamenn oft leið hjá.

Aurore lærði matreiðslu í skólanum Institut Paul Bocuse í Lyon í Frakklandi. Í tólf ár starfaði hún svo í Parísarborg á hótelum og veitingastöðum á borð við Hotel George V og KL Patisserie. Brátt varð hún hugfangin af þeim möguleikum sem felast í frönskum sætabrauðsbakstri. Þá dreymdi hana um að stofna sinn eigin stað. Hún flutti til Íslands eftir að hafa komið til landsins í hestaferð og heillast af því.

Aurore hóf rakleitt að safna fyrir opnun eigin sætabrauðsbúðar. Þar að auki þurfti hún að sanna sig í veitingageiranum með því að vinna á veitingastöðum hér á landi. Hún hóf söfnun á Karolina fund fyrir sex mánuðum, hélt matreiðslunámskeið og kökusölu. Allur ágóði fór í að láta drauminn verða að veruleika.

Í dag er sætabrauðsverslunin opin frá miðvikudegi til sunnudags. Á mánudögum og þriðjudögum bakar Aurore fyrir komandi viku. Hún er eini starfsmaður hins nýstofnaða fyrirtækis, en hefur þó fengið aðstoð við baksturinn frá vinum sínum að undanförnu til þess að anna eftirspurn.

Aurore vill einbeita sér að því að kynna Íslendingum vandað franskt sætabrauð. Þá leikur hún sér einnig að því að nýta íslenskt hráefni til þess að skapa franskt góðgæti með íslensku ívafi.