„Samkeppni um starfsfólk er nokkuð hörð enda hafa t.d. grafískir hönnuðir úr fleiri störfum að velja en áður með tilkomu leikjafyrirtækja og hugbúnaðarhúsa,“ segir Kári.
„Samkeppni um starfsfólk er nokkuð hörð enda hafa t.d. grafískir hönnuðir úr fleiri störfum að velja en áður með tilkomu leikjafyrirtækja og hugbúnaðarhúsa,“ segir Kári. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Hönnunar- og auglýsingastofan TVIST er á sínu sjötta starfsári og segir Kári að vel hafi gengið að byggja upp langtímasambönd við metnaðarfull íslensk vörumerki, sem hann þakkar ekki síst áherslu á mýkt í samskiptum.

Hönnunar- og auglýsingastofan TVIST er á sínu sjötta starfsári og segir Kári að vel hafi gengið að byggja upp langtímasambönd við metnaðarfull íslensk vörumerki, sem hann þakkar ekki síst áherslu á mýkt í samskiptum.

Hverjar eru helstu áskoranirnar

í rekstrinum þessi misserin?

Verðbólgan er áskorun í okkar rekstri eins og öðrum og það er snúið að halda í við hana. Óvissuástand undanfarinna ára hefur verið krefjandi á margan hátt en hefur líka kennt okkur ýmislegt í skipulagningu og fjarvinnubrögðum.

Hver var síðasti fyrirlesturinn

sem þú sóttir?

Síðustu ár hafa verið með daufara lagi í fyrirlestrahaldi en þau sem standa upp úr eru Rory Sutherland og Katie Mckay-Sinclair frá Mother. Bæði tvö voru flutt inn af Ímark sem hafa staðið sig vel í að flytja inn áhugaverða fyrirlesara á undanförnum árum. Rory Sutherland býður upp á áhugavert sjónarhorn á auglýsingar og markaðsmál sem höfðar til okkar á TVIST. Yfir bæði verkum og starfsemi Mother svífur manneskjulegur andi sem við lítum mikið upp til.

Hvaða hugsuður hefur haft

mest áhrif á hvernig þú starfar?

Luke Sullivan, höfundur auglýsingabókarinnar Hey Whipple , er án efa minn mesti áhrifavaldur. Það hafa fáir náð að fanga á jafn kaldhæðinn hátt allt það besta og versta við auglýsingabransann og flétta inn í það gagnleg ráð í leiðinni. Það var án efa ein af stóru stundunum á Hvíta húsinu þegar við buðum Luke að heimsækja Ísland og hann reyndist eins skemmtilegur í eigin persónu og bækurnar hans.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég les mikið. Bæði bækur og blöð um fagið en líka málefni sem eru á einhvern hátt tengd því sem ég fæst við. Það er með ólíkindum hvernig þekking hefur lag á því að nýtast. Nýlega hef ég lesið bækur um samningatækni, rekstur skapandi fyrirtækja, mannfræði og kosningaherferðir.

Það er ýmislegt á floti í heiminum og það borgar sig að endurnýja þekkingu sína reglulega til að staðna ekki. Það skiptir líka máli að vinna með fólki á breiðum aldri og hlusta eftir sjónarmiðum ólíkra hópa. Það er lygilega auðvelt að festast í eigin bergmálshelli.

Auglýsingar og þróun vörumerkja er menningartengd starfsemi og menning er kvik og síbreytileg. Þetta er nokkuð sem við sjáum skýrt í húmor, tísku og tónlist en á ekki síður við í markaðsmálum.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég hjóla í vinnuna nánast daglega jafnt sumar sem vetur, stunda Klifurhúsið og fer á skíði hvenær sem færi gefst. Mér finnst líkamsrækt ekki síður hafa góð áhrif á streitustig og andlega líðan.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ég gæti vel hugsað mér að sinna ráðgjafarstörfum af einhverju tagi og ná þannig að vinna úr þeirri reynslu sem ég hef öðlast í gegnum tíðina. Ég hef unun af því að vinna með skapandi fólki á nánast hvaða sviði sem er og gaman af því að sjá hugmyndir verða að veruleika.

Hvaða kosti og galla sérðu

við rekstrarumhverfið?

Það er ótvíræður kostur við rekstrarumhverfi auglýsingastofa að það er hægt að byrja með nánast tvær hendur tómar ef fólki tekst að fá viðskiptavini til að vinna með stofunni. Fyrirtæki geta því hafið starfsemi lítið skuldsett og vaxið á eðlilegum hraða. Á sama tíma felst í þessum lága þröskuldi ákveðin ógn fyrir rótgrónari stofur. Samkeppni um starfsfólk er nokkuð hörð enda hafa t.d. grafískir hönnuðir úr fleiri störfum að velja en áður með tilkomu leikjafyrirtækja og hugbúnaðarhúsa. Samræmt framtíðarfyrirkomulag auglýsingabirtinga á Íslandi er nokkuð sem allir helstu hagaðilar þyrftu að fara að koma skikki á.

Hvað gerirðu til að fá orku

og innblástur í starfi?

Mikilvægast er að vinna með hæfileikaríku og skemmtilegu fólki, bæði á stofunni og í hópi viðskiptavina. Það skiptir líka máli að hafa trú á því sem við erum að gera og muna eftir því að það geta verið margar, jafn réttar, leiðir til að ná árangri.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Það eru engin ein lög sem fara sérstaklega fyrir brjóstið á mér en ég myndi vilja gera átak í lýðheilsumálum þjóðarinnar. Það mætti gera svo miklu betur í þeim efnum og það þarf líklega meira til en nú er verið að gera.

Hin hliðin

Nám: Stúdent af nýmáladeild Menntaskólans í Reykjavík 1999; BA í ítölsku frá Háskólanum í Árósum 2005 og meistaragráða í táknfræði (e. cognitive semiotics) frá sama skóla 2008.

Störf: Hönnuður hjá Góðu fólki 1999 til 2002; texta- og hugmyndasmiður hjá Hvíta húsinu 2007 til 2014; aðstoðarsköpunarstjóri (e. associate creative director) hjá Íslensku auglýsingastofunni 2014 til 2016; meðstofnandi og sköpunarstjóri hjá TVIST frá 2016.

Áhugamál: Ég hef stundað útivist af öllu tagi frá blautu barnsbeini. Skíði í öllum helstu birtingarmyndum (fjallaskíði, telemark, svigskíði og nýlega gönguskíði), klifur, bakpokaferðir, stangveiði og hjólreiðar. Útivistin gefur gott tækifæri til að njóta samvista með fjölskyldu og vinum. Á fjöllum á ég mínar bestu stundir. Ég er talsverður lestrarhestur og fylgist stundum helst til mikið með fréttum.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Sigurlaugu Maríu Hreinsdóttur, deildarstjóra við menntavísindasvið HÍ. Saman eigum við tvö börn: Sóleyju átta ára og Kolbein fimm ára. Af fyrra hjónabandi á ég einn son, Orra, 18 ára.