— Morgunblaðið/Eggert
Aron Freyr Jónsson klippti á borða fyrir utan Sjóminjasafnið á Eyrarbakka og vígði þar með hundraðasta rampinn í verkefninu Römpum upp Ísland. Rampurinn var sá hundraðasti til að vera formlega tekinn í notkun, með athöfn klukkan tvö í gær.

Aron Freyr Jónsson klippti á borða fyrir utan Sjóminjasafnið á Eyrarbakka og vígði þar með hundraðasta rampinn í verkefninu Römpum upp Ísland. Rampurinn var sá hundraðasti til að vera formlega tekinn í notkun, með athöfn klukkan tvö í gær. Verkefnið Römpum upp Ísland hófst formlega með vígslu á fyrsta rampinum þann 23. maí sl. í Hveragerði. Stefnt er að því að setja upp þúsund rampa um allt land á næstu fjórum árum. Eru því 900 rampar eftir.

Leikskólabörn frá leikskólanum Strandheimum sungu nokkur lög við athöfnina en þau voru sérstakir gestir á athöfninni, ásamt íbúum á Sólvöllum, heimili fyrir aldraða.

Þá voru Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar, viðstödd. Þau fluttu bæði ávörp á athöfninni. Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, var einnig viðstaddur en hann er hvatamaður verkefnisins.