[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Arnór Ingvi Traustason , landsliðsmaður í knattspyrnu, ætlar að ganga aftur í raðir sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping og skrifa undir langtímasamning við félagið. Sænski miðillinn Aftonbladet greinir frá.

* Arnór Ingvi Traustason , landsliðsmaður í knattspyrnu, ætlar að ganga aftur í raðir sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping og skrifa undir langtímasamning við félagið. Sænski miðillinn Aftonbladet greinir frá. Arnór Ingvi var á mála hjá Norrköping frá 2014 til 2016 og varð sænskur meistari með liðinu árið 2015. Hann hélt þá til Rapid Vín í Austurríki og fór þaðan til Malmö í Svíþjóð. Í upphafi síðasta árs söðlaði hann um og skipti til New England Revolution.

*Þýski sóknarmaðurinn Timo Werner er genginn aftur í raðir þýska knattspyrnuliðsins RB Leipzig eftir tveggja ára dvöl hjá Chelsea. Werner var einmitt keyptur til Chelsea frá Leipzig sumarið 2020 á 47,5 milljónir punda, eftir að hafa raðað inn mörkum í þýsku 1. deildinni. Ekki gekk honum jafn vel að skora í ensku úrvalsdeildinni. Hann skoraði aðeins tíu mörk í 56 deildarleikjum.

*Tenniskonan fertuga, Serena Williams, tilkynnti í gær að hún hyggist leggja tennisspaðann á hilluna eftir afar farsælan feril. Opna bandaríska meistaramótið, sem hefst í lok mánaðar, verður síðasta mótið á ferli þeirrar bandarísku. Williams hefur unnið 23 risamót á ferlinum og er aðeins einum risatitli frá því að jafna met Margaret Court .

*Handknattleikskonan Ásdís Guðmundsdóttir er orðin leikmaður Skara í Svíþjóð. Ásdís er annar leikmaðurinn til að ganga í raðir Skara frá KA/Þór en Aldís Ásta Heimisdóttir gerði samning við félagið á dögunum. Fjórir leikmenn hafa því yfirgefið KA/Þór og gengið í raðir erlendra félaga undanfarið. Fyrr í sumar samdi Sunna Guðrún Pétursdóttir við Amicitia Zürich og Rakel Sara Elvarsdóttir við Volda í Noregi.