Evrópumeistarar Matthildur Óskarsdóttir og Alexandrea Rán Guðnýjardóttir urðu Evrópumeistarar í Búdapest.
Evrópumeistarar Matthildur Óskarsdóttir og Alexandrea Rán Guðnýjardóttir urðu Evrópumeistarar í Búdapest.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kraftlyftingar Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Matthildur Óskarsdóttir gerði sér lítið fyrir og varð Evrópumeistari ungmenna í bekkpressu í -84 kílóa flokki er EM í Búdapest fór fram um síðastliðna helgi. Matthildur varð einnig stigahæst allra í sínum flokki, þar sem hún náði bestum árangri allra keppenda í ungmennaflokknum.

Kraftlyftingar

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Matthildur Óskarsdóttir gerði sér lítið fyrir og varð Evrópumeistari ungmenna í bekkpressu í -84 kílóa flokki er EM í Búdapest fór fram um síðastliðna helgi. Matthildur varð einnig stigahæst allra í sínum flokki, þar sem hún náði bestum árangri allra keppenda í ungmennaflokknum.

„Ég átti von á að vinna minn þyngdarflokk en ég átti ekki von á að vinna allt mótið. Það var svolítið skemmtileg viðbót,“ sagði Matthildur í samtali við Morgunblaðið.

Faðmlag og nokkur tár

Sigurlyfta Matthildar var 127,5 kíló og með henni bætti hún eigið Íslandsmet frá því í maí, er hún lyfti 125 kílóum á heimsmeistaramótinu í Kasakstan.

„Ég kláraði lyftuna og ég þurfti að spyrja vinkonu mína [Rögnu Kristínu Guðbrandsdóttur] sem var að aðstoða mig hvort ég hefði unnið, ég var ekki viss hvort síðasta lyftan hefði nægt til að vinna. Þegar það kom í ljós féllumst við í faðma og það komu nokkur tár. Ég stökk svo af pallinum og þá tók lyfjaeftirlitið á móti mér og ég fór beint í lyfjapróf. Þar þurfti ég að skila þvagsýni og lyfjaeftirlitið í Ungverjalandi tók við því. Það gekk allt vel,“ útskýrði Matthildur.

Matthildur náði árangrinum glæsilega í Búdapest án þess að hafa undirbúið sig sérstaklega fyrir mótið. Hún hefur augun á Norðurlandameistaramótinu í Svíþjóð í næsta mánuði, þar sem hún keppir í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu, en í Búdapest var aðeins keppt í bekkpressu.

„Mér leið rosalega vel og þetta var ótrúlega skemmtilegt. Ég hef ekki endilega verið að einbeita mér að þessu móti, því það er Norðurlandamót eftir sex vikur. Ég hef einbeitt mér meira að því, því þar keppi ég í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu, svokallaðri þrílyftu, en mótið í Búdapest var bara bekkpressa. Ég bjóst því ekki við einhverri sérstakri bætingu, heldur ætlaði ég bara að fá að vera með.“

Hefði unnið opna flokkinn

Matthildur er 22 ára gömul og því á lokaári í ungmennaflokki. Með árangrinum í Búdapest hefði hún orðið Evrópumeistari fullorðinna eða í opnum flokki.

„Út þetta ár verð ég í ungmennaflokki en á næsta ári fer ég í fullorðinsflokk eða opinn flokk. Það er samt skemmtilegt að segja frá því að ég hefði unnið opna flokkinn á þessu móti með lyftunni minni. Ég hef því ekki áhyggjur þegar ég færi mig yfir, ég hlakka bara til,“ sagði hún.

Meðfram kraftlyftingunum er Matthildur í sjúkraþjálfaranámi. Vegna þess gæti hún misst af Evrópumótinu í Póllandi í nóvember, þar sem prófin í háskólanum ganga fyrir. „Það er Evrópumót í kraftlyftingum og þar er keppt í þrílyftu í lok nóvember í Póllandi, en ég er í háskóla og þetta er akkúrat prófatímabil. Ég stefni á það mót en ég veit ekki hvort ég kemst út af prófunum, en ég er að læra sjúkraþjálfarann.“

Ætlar að keppa til sjötugs

Matthildur er rétt að byrja í íþróttinni, því hún hefur það markmið að keppa til sjötugs. Hún á því 50 góð ár eftir, ef allt gengur að óskum.

„Í lyftingunum er markmiðið að keppa í öllum aldursflokkum og þar er keppt alveg til 70+. Mitt stærsta markmið er að komast þangað. Ég byrjaði svo ung að ég náði að keppa í flokki sem heitir „sub junior“ og núna er ég í „junior-flokki“. Eftir það koma öldungaflokkar eitt, tvö, þrjú og fjögur. Þetta eru sjö flokkar og mig langar að keppa í þeim öllum,“ sagði hún glaðbeitt.

Eftir námið ætlar Matthildur að blanda saman sjúkraþjálfun og kraftlyftingum, en hún á eftir að finna nákvæma útfærslu á slíku.

„Ég vil líka blanda saman kraftlyftingunum og sjúkraþjálfaranáminu. Ég er ekki alveg klár á því nákvæmlega hvernig ég vil gera það, en ég var að byrja á þriðja ári í sjúkraþjálfun. Það væri gaman að vinna með blöndu af lyftingum, sjúkraþjálfun og forvörnum,“ sagði hún.

Íslenskar konur hafa náð glæsilegum árangri í kraftlyftingum á undanförnum árum. Kristín Þórhallsdóttir hefur sankað að sér verðlaunum á heims- og Evrópumótum og Alexandrea Rán Guðnýjardóttir varð einnig Evrópumeistari í bekkpressu í Búdapest í -63 kílóa flokki. Matthildur segir aðstæður til að iðka kraftlyftingar betri nú en þegar hún hóf sinn feril.

„Ég held að það séu bara góðar fyrirmyndir fyrir okkur. Fanney Hauksdóttir gerði garðinn frægan árið 2014 þegar hún varð heims- og Evrópumeistari í bekkpressu. Það er líka gott aðgengi að íþróttinni núna. Það var það ekki þegar ég byrjaði, en núna er komin góð lyftingaaðstaða víða um landið og svo er krossfittið líka góð leið inn í kraftlyftingar.“

Úr fimleikum í kraftlyftingar

Matthildur hóf að æfa kraftlyftingar 14 ára og var fljót að ná afar góðum tökum á íþróttinni. Nokkrum mánuðum eftir fyrstu æfinguna var hún orðin langbest í sínum aldursflokki.

„Ég var alltaf í fimleikum þegar ég var yngri en svo sneri ég upp á ökklann og hann varð aldrei alveg heill. Ég hætti því að geta hlaupið, hoppað og stundað fimleikana. Ég keypti mér þá kort í ræktina, 14 ára gömul, og þá var mamma að æfa hjá Ingimundi, sem er enn þjálfarinn minn í dag, og ég kom með á æfingu. Hann spurði mig hvort ég vildi keppa á móti eftir fimm mánuði og ég var alveg til í það. Á því móti setti ég 14 Íslandsmet og varð Íslandsmeistari í stúlknaflokki. Þá varð ekki aftur snúið,“ sagði Matthildur.