Franska fjárfestingafélagið Ardian íhugar það nú alvarlega að hætta við kaupin á Mílu, dótturfélagi Símans. Svo virðist sem ekki verði komist lengra til að mæta athugasemdum Samkeppniseftirlitsins við söluna.

Franska fjárfestingafélagið Ardian íhugar það nú alvarlega að hætta við kaupin á Mílu, dótturfélagi Símans. Svo virðist sem ekki verði komist lengra til að mæta athugasemdum Samkeppniseftirlitsins við söluna. Ekki komi til greina að lækka verðið frekar eða rýra verðmæti Mílu.

Samningur á milli Símans og Ardians var undirritaður í október í fyrra. Heildarvirði viðskiptanna var þá um 78 milljarðar króna, en um var að ræða stærstu erlendu fjárfestingu hér á landi frá því fyrir fjármálakrísuna haustið 2008. Samhliða var íslenskum lífeyrissjóðum boðið að eignast allt að 20% hlut í Mílu með beinni þátttöku eða í gegnum innlenda fjárfestingarsjóði.

Síðan þá eru liðnir tíu mánuðir og salan ekki enn gengin í gegn. Málið strandar nú á athugasemdum Samkeppniseftirlitins, sem hefur gert athugasemdir við kaupin. Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans, sem fjallar um málið í dag, er þolinmæði bæði Símans og Ardians á þrotum. Forsvarsmenn Ardians áttu í gær fund með Samkeppniseftirlitinu, rúmum mánuði eftir að óskað var eftir sáttaviðræðum, en sá fundur skilaði engri efnislegri niðurstöðu.

Ardian hefur enn sem komið er ekki óskað eftir frekari fresti til að koma fram nýjum sjónarmiðum.

ViðskiptaMogginn