Spennandi Verkefnið er spennandi og opnar ýmsar dyr fyrir ÍSOR.
Spennandi Verkefnið er spennandi og opnar ýmsar dyr fyrir ÍSOR. — Ljósmynd/ ÍSOR
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóra Birna Ingvarsdóttir thorab@mbl.is Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR, hafa gengið frá samningi við eitt stærsta olíufyrirtæki Indlands, ONGC, vegna undirbúnings jarðvarmavirkjunar í Puga-dal í Ladakh í Kasmírhéraði Indlands.

Þóra Birna Ingvarsdóttir

thorab@mbl.is

Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR, hafa gengið frá samningi við eitt stærsta olíufyrirtæki Indlands, ONGC, vegna undirbúnings jarðvarmavirkjunar í Puga-dal í Ladakh í Kasmírhéraði Indlands.

Verkefnið er hið fyrsta sem ONGC ræðst í á þessu svæði, auk þess sem það er liður í undirbúningi að fyrsta jarðvarmaorkuveri í Indlandi. Takist vel til, markar það líklega frekari framkvæmdir fyrirtækisins við nýtingu jarðvarma á Indlandi.

Stærsti einstaki erlendi samningurinn

Daði Þorbjörnsson fer fyrir verkefninu fyrir hönd ÍSOR. Hann telur töluverð tækifæri til jarðvarmanýtingar á Indlandi. „Eitt af því sem þetta fyrirtæki sér fyrir sér er að nota annað en olíu og gas til rafmagnsframleiðslu en líka til húshitunar, framleiðslu á matvælum og þess háttar.“

Í samningnum sem ÍSOR hefur gert við ONGC felst ráðgjöf við undirbúning borana, rannsóknir, vöktun, mælingar, afkastamælingar og úrvinnslu gagna. Um er að ræða einn stærsta einstaka samning sem ÍSOR hefur gert erlendis. Daði kýs að láta liggja milli hluta hve miklar tekjur fást af verkefninu en segir þær þó ágætar.

Í fyrstu umferð verða boraðar tvær grannar rannsóknarholur. Áætlað er að þær verði um það bil eitt þúsund metra djúpar og eiga þær að nýtast til raforkuframleiðslu á smáum skala.

„Íbúar þarna hafa helst verið að nota heita vatnið til baða og þvotta, eins og við gerðum lengi á Íslandi, þar til við fórum að nýta jarðvarmann á markvissari hátt.“

Áskoranir fylgja mikilli hæð

Til Puga eru komnir tveir sérfræðingar á vegum ÍSOR og munu boranir hefjast á næstu dögum. „Þeir hafa reynt að bora á þessu svæði áður en það hefur ekki tekist. Við erum að beita aðeins öðruvísi aðferðum svo ég er nokkuð bjartsýnn á að þetta heppnist núna.“

Verkstaðurinn er í um 4.400 metra hæð yfir sjávarmáli, en Puga er í Himalajafjöllum. Þessi mikla hæð felur í sér áskoranir. „Þarna er minna súrefni svo fólk þarf að fara varlega bæði á leið upp og þegar þangað er komið.“ Þar að auki er loftþrýstingur lægri í svo mikilli lofthæð, sem veldur því að suðumark vatns er lægra. „Vatnið sýður við 85 gráður þarna, en það sýður vanalega við 100 gráður. Þess vegna þarf að breyta hönnun og laga tæknina að því.“

Fyrra verkefni reyndist vel

Verkfræðistofan Verkís og indverska fyrirtækið Techon Consulting, eru meðal undirverktaka og samstarfsaðila ÍSOR í verkefninu.

Þetta er ekki fyrsta jarðhitaverkefnið sem ÍSOR kemur að á Indlandi. Í samstarfi við Verkís og SIH pípulagnir tók ÍSOR þátt í húshitunarverkefni í þorpinu Chumathang, ásamt Norðmönnum, fyrir nokkrum árum. Var það fyrsta skrefið í markvissri nýtingu jarðvarma á svæðinu og að sögn Daða hefur það reynst vel. Þetta verkefni tengist því þó ekki, en ÍSOR fékk að þessu sinni boð um þátttöku í gegnum VERKÍS.

Rannsóknarverkefni olíurisans

„ONGC er að horfa til þess að framleiða eitt megavatt af raforku til að byrja með. Ef það gengur upp hyggjast þeir fara í frekari rannsóknir og nýtingu. Það má því segja að þetta sé rannsóknarverkefni.“

Daði segir að þetta verkefni sé sáralítið skref ef litið er til umfangs þess og beinna áhrifa á orkunýtingu og útblástur gróðurhúsalofttegunda. „Þetta er samt stórt skref í þeim skilningi að þarna er risastórt olíufyrirtæki farið að horfa í aðrar áttir og leita leiða til þess að þróa sjálfbæra orku, í stað þess að styðjast við olíu og gas.“

Opnar ýmsar dyr

Fyrir ÍSOR er skemmtilegt að hefja svona verkefni á svæðum þar sem ekki hefur verið mikið horft til jarðhita áður, að sögn Daða. Gangi allt vel gæti það opnað dyr að öðrum verkefnum á Indlandi eða öðrum svæðum utan hefðbundinna jarðhitasvæða.

Daði nefnir að á Indlandi sé annað verkefni í gangi, sem ÍSOR er þó ekki þátttakandi í, þar sem jarðvarmi er notaður til kælingar. Þá er einnig áhugi fyrir því að nýta jarðvarmann á gömlum olíusvæðum.