Hörður Gestsson fæddist í Hafnarfirði 20. júní 1960. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Boðaþingi í Kópavogi 21. júlí 2022 en þar bjó hann síðustu árin.

Foreldrar Harðar voru Gestur Kristinn Árnason málarameistari, f. 21.9. 1918, d. 3.1. 2001, og Sigríður Friðfinnsdóttir húsmóðir, f. 26.8. 1923, d. 24.8. 1980.

Hörður var yngstur fjögurra bræðra en hinir eru Friðfinnur Steinar, f. 16.4. 1952, Gunnar, f. 24.8. 1955, d. 5.5. 2010, og Birgir Örn, f. 25.3. 1957.

Hörður kvæntist hinn 25.7. 1992 Magneu Sturludóttur, f. 21.7. 1965, í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði. Bjuggu þau mest af sínum búskap á Hraunkambi 5 í Hafnarfirði og síðar á Sjávargötu 24 á Álftanesi. Hörður og Magnea eignuðust fjögur börn en þau eru: 1) Aníta Estíva, f. 11.10. 1987. 2) Andrea Fanney, f. 3.2. 1993. 3) Aron Bjarki, f. 27.11. 1996. 4) Alexander Logi, f. 3.4. 1998.

Hörður ólst upp hjá fjölskyldu sinni í Hafnarfirði, lengst af á Þúfubarði 9. Hann gekk í Lækjarskóla og síðar Flensborg. Hörður sinnti ýmsum störfum um ævina en starfaði lengst af ýmist sem flokksstjóri eða vaktstjóri í álverinu við Straumsvík. Hann lauk síðan sínum starfsferli hjá Steypustöðinni.

Hörður var mikill fjölskyldumaður og naut sín best í félagsskap fjölskyldunnar og lætur hann einnig eftir sig sex barnabörn.

Útför Harðar Gestssonar fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 10. ágúst 2022, kl. 15.

Elsku Hörður minn, maðurinn sem ég hef gengið með í gegnum lífið í 42 ár, kvaddi okkur fjölskylduna í hinsta sinn eftir langa og erfiða glímu við framheilabilun. Það var erfitt að finna höndina þína, sem nokkru áður var svo heit, kólna og ósjálfrátt reyndi ég að ylja þér og strjúka til að hita hana aftur en ekkert dugði, þú varst farinn, sofnaður þínum hinsta svefni. Eftir sitja hugljúfar minningar um yndislega góðan dreng sem hélt í hönd mína hvert sem við fórum og hvað sem við gerðum, þá varst þú þar og passaðir upp á mig. Ég var rétt að verða 16 ára og vann í sjoppunni uppi á Holti eins og hún var kölluð í heimabæ okkar Hafnarfirði en staðsett í hverfinu þínu. Ég stóð þar í bílalúgu og afgreiddi hvern bílinn á fætur öðrum þegar þú birtist þar brosandi og sagðist vilja eina pylsu og Malt að drekka með. Þetta var ekki eina pylsan sem þú borðaðir heldur fórstu aftur í röðina og komst aftur og aftur og baðst alltaf um það sama; aðra pylsu bara til að geta spjallað lengur við stúlkuna sem varð svo síðar konan þín. Þú varst alltaf gríðarlega orkumikill og áttir erfitt með að gera ekki neitt því kom það sér vel að fyrstu tvö húsin okkar sem við eignuðumst voru gömul og ýmislegt sem þurfti að laga og breyta og þar komstu sterkur inn. Þú varst nautsterkur, verklaginn og lausnamiðaður og réðst til atlögu að hverju því sem beið þín og gerðir það með sóma. Verklagni þín fór með þér inn í lífið og þú hjálpaðir mörgum vinum og vandamönnum, alltaf vopnaður tækjum og tólum og tilbúinn að hjálpa hverjum þeim sem á þurfti að halda. Okkur hlotnaðist að eignast fjórar yndislegar perlur, tvær stúlkur og síðan tvo drengi. Þetta var stoltið þitt og mitt, börnin okkar, og reyndum við eftir bestu getu að búa þeim gott heimili og hlúa að þeim og umvefja ást og kærleika. Stóra hlýja faðmlagið þitt mun ylja okkur um hjartarætur það sem eftir er.

Við höfðum bæði gaman af því að ferðast um fallega landið okkar og því voru allar frístundir notaðar til að keyra með fellihýsið okkar í eftirdragi og alltaf hafðir þú jafn gaman af því að fræða börnin um hvað fjöllin hétu eða firðirnir eða hólarnir, já þetta voru góðir tímar og svo gott að eiga slíkar minningar um þig elsku Hörður minn, yndislegur, ljúfur, stríðinn og alltaf til í leik og fjör með perlunum þínum fjórum. Öll útivera átti hug þinn og leið þér alltaf best þegar þú fórst í fjallgöngu eða hjólaðir langar vegalengdir, úthald þitt virtist oft á tíðum endalaust og því komu fréttirnar um veikindi þín eins og þruma úr heiðskíru lofti. Við reyndum eins og við gátum að halda í þig, hjálpa þér að muna og rifja upp, berjast á móti þessum sjúkdómi sem var að yfirtaka huga þinn og teyma þig frá okkur en að lokum þurftum við að játa okkur sigruð. Það eina sem við gátum gert var að umvefja þig og leyfa þér að finna að þú værir ekki einn á þessari vegferð, hún var erfið og grýtt og mörg tárin búin að renna en ég kveð þig með þakklæti í hjarta að hafa fengið að ganga með þér í gegnum þetta líf og eiga þá björtu von með þér að dag einn muni Drottinn okkar sækja sitt fólk sem dó í trú sinni á hann og þá munu eiga sér stað gleðilegir endurfundir, þangað til sofðu rótt ástin mín.

Ástarkveðja, þín

Magnea.

Elsku pabbi. Ég trúi því varla að ég sé að skrifa þessi orð, þessa síðustu kveðju til þín sem þú færð ekki einu sinni að lesa. Allt virðist svo ótrúlega ósanngjarnt og sársaukafullt. Það er svo langt síðan við misstum þig frá okkur yfir í annan heim. Heim sem ekkert okkar vildi þurfa að upplifa með þér. Heim sem enginn ætti að þurfa að ganga í gegnum. Heim heilabilunar. En við gengum með þér og hvert einasta skref varð þyngra og þyngra allt þar til við vissum að þetta væri að verða búið. En við vorum bara ekki tilbúin. Hvernig getur maður verið tilbúinn til þess að missa pabba sinn? Klettinn sem hefur staðið við bakið á manni frá fæðingu og gert allt í sínu valdi til þess að gera líf okkar eins gott og hann mögulega gat? Það er ekki hægt.

Núna sit ég og skrifa þér kveðju án þess að vilja kveðja þig. Ég syrgi allar þær stundir sem við hefðum átt að eiga saman. Tímann með barnabörnunum þínum sem þú færð ekki að eiga. Ég veit að þú hefðir orðið besti afinn í heiminum hefðir þú fengið tækifæri til þess og ég mun gera mitt allra besta til þess að börnin mín fái að vita hvaða mann afi Hörður hafði að geyma. Skemmtilegan, uppátækjasaman, duglegan, hjálpsaman og mest af öllu hjartagóðan mann sem gerði allt fyrir þá sem honum þótti vænt um og meira til.

Við börnin þín fjögur vorum stolt þitt og við vissum það alltaf. Þú gerðir okkur alltaf grein fyrir því hvað við værum mikilvæg í þínu lífi. Við lifum áfram í þeirri von að geta haldið á lofti öllu því sem þú kenndir okkur. Við erum stolt af því að vera börnin þín, við erum samheldin og við elskum hvert annað. Við höldum utan um mömmu fyrir þig elsku pabbi. Litlu „roll on“-konuna þína sem þú elskaðir svo heitt alveg frá því hún seldi þér pylsu og malt í sjoppu á holtinu í Hafnarfirði. Ekki hafa áhyggjur pabbi, við pössum hana fyrir þig núna.

Ég á svo margar dýrmætar minningar elsku pabbi, enda varstu alltaf duglegur að gera eitthvað með okkur. Þú varst alltaf tilbúinn til þess að fara með okkur hvert sem var og oftar en ekki stakkst þú upp á einhverju skemmtilegu að gera. Þú fórst gjarnan óhefðbundnar leiðir í lífinu og ætli það hafi ekki verið þess vegna sem við áttuðum okkur ekki strax á veikindunum sem yfirtóku líf þitt. En allar þessar óhefðbundnu leiðir fengu okkur fjölskylduna oft til þess að hlæja og það þótti þér best. Enda sagðir þú okkur enn brandara þrátt fyrir að vera orðinn mikið veikur. Þú vildir að við værum glöð.

Einmitt núna blæðir hjarta mitt af sorg, tárin renna stanslaust og mér finnst ég vera mölbrotin. Ég veit ekki hvernig ég á að fara að því, en ég ætla mér að verða glöð aftur. Fyrir þig og fyrir börnin mín. Ég ætla mér að vera þeim stoðin og styttan sem þú varst fyrir mig. Ég ætla að halda í barnið í mér og leyfa mér að fara óhefðbundnar leiðir. Ég ætla að heiðra minningu þína í verki.

Ég vona svo innilega að þegar minn tími kemur, þá standir þú tilbúinn með útbreiddan risastóran faðminn svo ég fái að upplifa öryggi þitt og faðmlag aftur.

Ég elska þig elsku besti pabbi minn, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Minning þín mun lifa með mér.

Þín dóttir,

Aníta Estíva

Harðardóttir.

Elsku pabbi minn. Nú ertu búinn að fá hvíldina frá þessum ljóta heilabilunarsjúkdómi sem heltók líf þitt fyrir nokkrum árum. Lífið getur verið svo ósanngjarnt og óskiljanlegt. Þú varst á besta aldri í blóma lífsins og um það bil að fara að hætta að vinna til þess að njóta með eiginkonu þinni eftir margra ára puð í vinnu þegar fótunum er kippt undan þér og áður en við vissum af varst þú að týnast hægt og rólega frá raunveruleikanum.

Pabbi, þú varst alltaf kletturinn í okkar fjölskyldu. Alltaf reiðubúinn að hjálpa til, sama hvert vandamálið var. Fyrir þér voru bara til lausnir í lífinu. Það er þér að þakka að ég skuli vera þetta sjálfbjarga og kunna að redda mér þegar á þarf að halda. Þú vildir nefnilega að við systkinin lærðum að bjarga okkur og varst því duglegur að kenna okkur á lífið.

Pabbi, þú varst algjör snillingur og tókst lífið ekki of alvarlega. Þú gast svoleiðis þulið upp heilu brandarabækurnar og fengið alla til að hlæja með þér, jafnvel eftir að þú varðst veikur. Breiða brosið þitt var líka svo einlægt og smitandi að það var ekki annað hægt en að brosa á móti. Þú varst ótrúlega ljúfur maður og reiði var ekki til í þinni orðabók. Það sem ég sakna að heyra þig hlæja að eigin bröndurum, bara ef þú gætir sagt mér einu sinni enn „hvað gerir maður við gamalt hakk?“ eða einn af þínum fjölmörgu gullmolum, „Pepsí er best skítkalt“. Við systkinin munum sjá til þess að þínir gullmolar fái að lifa áfram og barnabörnin þín fái að vita hversu ótrúlega skemmtilegur og duglegur afi Hörður var.

Pabbi, ef þú bara vissir hvað þessi síðasta kveðja til þín er erfið að skrifa, tárin streyma og hjartslátturinn verður þyngri með hverju orðinu. Það erfiðastaa af öllu finnst mér að horfa á mömmu missa æskuástina sína, þið áttuð svo fallegt líf saman. Við systkinin munum passa mömmu fyrir þig og leiða hana og styrkja þegar hún þarf á því að halda.

Allar yndislegu minningarnar geymi ég fast í hjarta mínu og mun aldrei gleyma þeim. Ég vona að þegar við hittumst aftur munir þú taka á móti mér með þínum stóra og hlýja faðmi, ég sakna svo að finna fyrir þinni hlýju ást, elsku pabbi.

Þú verður alltaf mín stærsta fyrirmynd og ég elska þig að eilífu pabbi minn. Minning þín er ljós í lífi mínu.

Þín dóttir,

Andrea Fanney Harðardóttir.

Okkar stærsti klettur í lífinu féll frá hinn 21. júlí 2022 eftir baráttu við langvarandi heilahrörnunarsjúkdóm. En elsku pabbi okkar, það er ekki til nóg af fallegum orðum til að lýsa þér og öllu sem þú gerðir, það sem elsku pabbi okkar skilur eftir eru þær óteljandi hamingjustundir sem við fjölskyldan höfum átt saman. Við fjölskyldan ferðuðumst mikið og eru þær ferðir og minningar það dýrmætasta sem ég á. Pabbi var einhver almesti söngfugl sem ég hef nokkurn tímann kynnst og væri það ekki í frásögur færandi nema hvað að elsku kallinn vissi hvorki hvað taktur né tóntegund var og eru því allmargar minningar sem ég geymi tengdar því. Við bræður eigum endalausar minningar, bæði frá veiðiferðum og einnig úr fjárhúsunum þar sem við vorum með fé. Svarti Fjárhættubolurinn og gúmmítútturnar eru þar efst á lista. Það eru ekki margir sem eru jafn heppnir með vináttu milli feðga en við þrír feðgarnir áttum eitthvað sérstakt. Ef elsku mamma mín hefði komist að öllum áhættuatriðunum og leikjunum sem við feðgarnir framkvæmdum þá hefði hún sennilegast flengt okkur alla!

Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.

(Sálmarnir 119:105)

Elsku pabbi minn, þetta er kveðjan okkar til þín.

Þínir synir,

Alexander Logi Harðarson og Aron Bjarki Harðarson.

Mig langar bara með örfáum orðum að minnast vinar míns Harðar Geirssonar sem nú er farinn langt fyrir aldur fram.

Við Hörður kynntumst þegar ég byrjaði að vinna í álverinu í Straumsvík árið 1997 og tókst með okkur ágætis vinátta. Langar mig að minnast þess þegar ég var að byggja húsið mitt, þá vorum við saman á vakt og unnum fimm daga í röð og fimm daga frí milli syrpna. Kom Hörður að hjálpa mér í upphafi byggingar sem varð til þess að hann vann hjá mér í öllum fríum meðan við kláruðum húsið. Átti hann stóran þátt í því hvað verkið gekk vel og hratt fyrir sig. Duglegri mann var ekki hægt að hugsa sér í vinnu. Það var alveg sama hvað við vorum að gera, hvort sem það voru smíðar, uppsláttur, pípulagnir eða önnur verkefni, það lék allt í höndunum á honum.

Hörður var mikill fjölskyldumaður sem naut þess að vera með börnunum sínum og Magneu sinni. Ferðuðust þau mikið um landið í sumarfríinu sínu og nutu samverunnar. Eftir að við hættum að vinna saman hittumst við sjaldnar, en við vorum alltaf í góðu sambandi.

Síðustu ár hafa verið honum og fjölskyldu hans erfið vegna veikinda hans, veit ég þó að hann er nú kominn á betri stað núna.

Ég votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum en minningar um góðan mann lifa.

Þórður Örn

Erlingsson.