Anna María Elísabet Einarsdóttir fæddist 24. mars 1946 í Reykjavík. Hún lést á Landspítalanum 26. júlí 2022.

Foreldrar Önnu Maríu voru Einar Árnason, f. 27.2. 1913, d. 19.5. 1998, sonur séra Árna Þórarinssonar prófasts og Önnu Maríu Elísabetar Sigurðardóttur frá Stóra-Hrauni, og Vilborg Sigurðardóttir, f. 14.12. 1912, d. 23.4. 1998, dóttir Sigurðar Lárusar Jónssonar og Ingibjargar Jónasdóttur.

Anna María var þriðja í röð fimm systkina og ólust þau upp í Hólmgarði 1 í Reykjavík.

Systkini Önnu Maríu eru: Ingibjörg (Edda), f. 17.10. 1937, maki Þórir Þórðarson, f. 26.8. 1933, d. 11.6. 2017; Sigurður Lárus, f. 18.12. 1942, maki Guðbjörg Friðriksdóttir, f. 3.8. 1943; Árni, f. 5.12. 1947, maki Ragnhildur Nordgulen, f. 23.1. 1946; Sigurbjörg, f. 25.12. 1950, maki Eyþór Árnason, f. 11.8. 1948.

Fyrri eiginmaður Önnu Maríu var Jón Breiðfjörð Bjarnason, f. 6.11. 1937, og eignuðust þau eina dóttur, Sigurbjörgu Ernu, f. 14.5. 1965, hennar maki er Hjörtur Jóhannsson, f. 6.5. 1963. Synir þeirra eru: a) Róbert Örn, f. 1984, maki Gyða Dögg Sigurðardóttir, f. 1984, þau eiga þrjá syni, Daníel Orra, f. 2011, Davíð Atla, f. 2016, og Kristófer Inga, f. 2019. b) Jakob Þór, f. 1986. c) Pétur Már, f. 1994, maki Sigríður Atladóttir, f. 1996.

Hinn 23.9. 1971 giftist Anna María eftirlifandi eiginmanni sínum, Gústaf Guðmundssyni flugstjóra frá Flateyri, f. 24.11. 1946. Börn þeirra eru:

1) Bjarni Þór, f. 26.12. 1968, maki Elísa Berglind Sigurjónsdóttir, f. 7.8. 1971, og samtals eiga þau fjögur börn með fyrri mökum: a) Svövu Kristjönu f. 1988, maki Chris Engø f. 1989. Þau eiga einn son, Erik Úlf, f. 2022; b) Gústaf, f. 1994, maki Þórhildur Guðjónsdóttir, f. 1995; c) Bryndísi Önnu Ólöfu, f. 1995, hún á tvo syni, Elmar Frey, f. 2018, og Mikael Mána, f. 2020; d) Hrafnkel Hilmar, f. 1997.

2) Ásta, f. 9.3. 1972, maki hennar er Ingólfur Már Ingólfsson, f. 4.10. 1971, þau eiga tvo syni, a) Daníel Þór, f. 2003, og b) Arnar Kristin, f. 2006.

3) Inga Rósa, f. 18.9. 1973, maki hennar er Sigurður V. Fjeldsted, f. 10.11. 1972, þau eiga tvö börn; a) Birnu Maríu, f. 2000, maki Rúnar Ívarsson, f. 1993, og b) Einar Kristján, f. 2007.

Útför Önnu Maríu Elísabetar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 10. ágúst 2022, klukkan 13.

Elsku mamma mín, nú kveð ég þig hinstu kveðju í dag. Margt kemur upp í hugann og ég veit varla hvar ég á að byrja. Þú varst mér alltaf góð móðir og á ég þér svo margt að þakka í þessu lífi. Við áttum eitt og annað órætt eins og gerist og gengur, en við klárum það þegar við hittumst næst. Þú varst „tekin“ heldur óvænt frá okkur og skil ég ekki af hverju, enda getur maður ekki skilið allt!

Það er sárt að hugsa til þess að koma í Klapparhlíðina og sjá þig ekki í forstofunni og rétta mér kinnina til að kyssa á.

Við komum til með að hugsa vel um pabba gamla fyrir þig, en ekki víst að hann fái alveg sömu „þjónustu“ hjá okkur og hann fékk hjá þér.

Ég gæti setið hér í allan dag og skrifað eitthvað til þín, en hér ætla ég að nema staðar að þessu sinni.

Ég mun aldrei gleyma þér og alltaf mun ég elska þig.

Mamma mín

Ég man það elsku mamma mín,

hve mild var höndin þín.

Að koma upp í kjöltu þér

var kærust óskin mín.

Þá söngst þú við mig lítið lag,

þín ljúf var rödd og vær.

Ó, elsku góða mamma mín,

þín minning er svo kær.

Ég sofnaði við sönginn þinn

í sælli aftanró.

Og varir kysstu vanga minn.

Það var mín hjartans fró.

Er vaknaði ég af værum blund

var þá nóttin fjær.

Ó, elsku góða mamma mín,

þín minning er svo kær.

Og enn þá rómar röddin þín,

Svo rík í hjarta mér.

Er nóttin kemur dagur dvín,

Í draumi ég er hjá þér.

Þá syngur þú mitt litla lag,

Þín ljúf er rödd og vær.

Ó, elsku hjartans mamma mín,

Þín minning er svo kær.

(Jenni Jónsson)

Þinn sonur,

Bjarni Þór.

Elsku mamma, mikið ofboðslega er erfitt að setjast niður og skrifa þér þína hinstu kveðju. Við áttum alls ekki von á að þinn síðasti dagur væri svo nærri og kæmi svo snögglega að við næðum ekki að kveðja þig. En sennilega var þetta alveg eins og þú vildir hafa hlutina, að fá að fara svo snögglega að þú sjálf hafir örugglega ekki áttað þig á hvað var að gerast fyrr en allt var afstaðið. Við huggum okkur við að það hefur verið vel tekið á móti þér í „sumarlandinu“ en söknum þín samt sárt.

Mamma var töffari af guðs náð, hún hafði munninn fyrir neðan nefið og lét engan eiga neitt hjá sér. Hún hafði samt svo stórt hjarta og það var alltaf pláss fyrir fleiri til að þykja vænt um, og sérstakt pláss fengu þeir sem á einhvern hátt áttu bágt eða þurftu meira á henni að halda en aðrir. Hún var mikil félagsvera og sótti í félagsstörf frá unga aldri, fyrst í íþróttum sem barn, svo félagslífinu og ýmsum félagsskap með skemmtilegu fólki alla tíð. Hún starfaði meðal annars um tíma með Junior Chamber, félagsskap sem ég síðar starfaði með sjálf og kynntist þar eiginmanni mínum. Að ganga til liðs við JC, sem heitir í dag JCI, var alltaf á stefnuskránni því ég man enn hvað var gaman að mæta á fjölskylduviðburði með mömmu og pabba, t.d. ræðukeppnir og JC-útileguna sem er með skemmtilegri minningum æskunnar.

Mamma starfaði einnig með Lions í Mosó, Sjálfstæðisflokknum, kvenfélaginu Bláklukkum á Egilsstöðum og þau pabbi voru árum saman félagar í þjóðdansafélaginu Fiðrildunum. Þau voru dugleg að ferðast bæði innanlands og utan. Þær voru ófáar útilegurnar sem við krakkarnir fórum með þeim á yngri árum og oft lá leiðin vestur á firði þar sem pabbi ólst upp. Á seinni árum hafa þau meira ferðast erlendis og gæti hver sem er verið stoltur af þeim ævintýrum sem þau hafa upplifað, hafa m.a. farið til Egyptalands og séð pýramídana, gengið eftir Kínamúrnum og siglt á skútu um Miðjarðarhaf, fyrir utan að hafa heimsótt heilmörg Evrópulönd og ýmis fylki Bandaríkjanna og Kanada.

Mamma var mjög fjölskyldurækin og þekkti stórfjölskylduna frá Stóra-Hrauni nánast alla þrátt fyrir að hún væri mjög stór, en afi var næstyngstur 11 systkina. Mamma var mjög stolt af því að tilheyra þessum hópi og voru góð samskipti milli systkinabarna alla tíð og nokkur ættarmót haldin í gegnum árin.

Það var ríkt í mömmu og fjölskyldu hennar að hafa alla vel nærða, það þurfti bara lítið tilefni til að „henda í veislu“, hún var góður kokkur og allt sem hún gerði var ljúffengt. Mamma var líka alltaf fyrst til að bjóða fram aðstoð, það þótti ekki mikið mál að baka nokkra marengsa eða setja saman brauðtertu. Enda var mamma mikið partíljón og þótti ekkert meira gaman en þegar við vorum öll saman, sem við reyndum að gera á öllum helstu stórhátíðum og oft af minna tilefni. Þessar hefðir munum við halda í í minningu mömmu og vitum að ef einhver leið er til að vera með okkur í anda, þá finnur hún þá leið.

Elsku mamma hvíldu í friði, elska þig alltaf.

Þín dóttir,

Ásta.

Ég trúi því ekki að ég sitji hér og skrifi minningarorð, hina hinstu kveðju, um elsku uppáhaldstengdamóður mína. Þetta er svo óraunverulegt og ég næ enn ekki utan um þetta. Hvernig bara getur þetta verið staðan?

Það er svo skrýtið að sjá þig ekki og heyra ekki í þér. Að koma í Klapparhlíðina og þú stendur ekki með breitt bros í dyrunum og segir „hæ hæ“ með þínum sérstaka raddblæ og svo var smellt á kossi á kinn. Maður á alltaf von á því að sjá þig birtast, spyrjandi hvort ekki mætti bjóða einhverjum eitthvað. Því þannig varst þú. Alltaf á milljón að hugsa um aðra. Máttir ekkert aumt sjá. Barst svo mikla umhyggju fyrir öllum. Sérstaklega minni máttar. Þú varst svo sterk en samt svo mjúk. Hafðir skoðanir á öllu og oftar en ekki mjög sterkar skoðanir og lást ekki á þeim.

Ég hef nú tilheyrt fjölskyldunni í rúm 16 ár og hvílík blessun sem það var fyrir mig og börnin mín að verða partur af þínum stórkostlega hópi. Það er aðdáunarvert hvernig þú bauðst Bryndísi og Hrafnkel strax velkomin í fjölskylduna og frá fyrsta degi talaðir þú aldrei um þau á annan hátt en að þau væru ömmubörnin þín. Og þetta er svo lýsandi fyrir þá umhyggju sem þú sýndir okkur öllum.

Í þér átti ég bandamann. Aldrei, ekki í eitt skipti, dæmdirðu mig. Þú tókst mér nákvæmlega eins og ég er, með öllum mínum kostum og göllum. Ég gat alltaf verið ég sjálf í kringum þig. Þurfti aldrei að þykjast. Og það er ekki sjálfgefið. Og samt vorum við svo ólíkar. Þú svona extróvert, svo mikið fiðrildi, alltaf einhvers staðar að hitta fólk og ferðast, brasa og gera eitthvað, hressasta manneskjan alls staðar, og ég svona rosalega intróvert og vil helst bara alltaf vera heima. Því miður var ég ekkert sú duglegasta að koma, mínir veikleikar hindruðu það og það er auðvelt núna að falla í gryfju eftirsjár. Af hverju var ég ekki duglegri að koma eða gera eitthvað með ykkur? En þú hefðir sagt mér að lífið heldur áfram og það sem er liðið er liðið og við breytum engu um það. Sem er hárrétt. Við megum ekki lifa lífinu í eftirsjá.

Þú varst límið í fjölskyldunni elsku Maja og það á eftir að verða svo skrýtið að hafa þig ekki með. Tilhugsunin um allar föstu samverustundirnar á hverju ári sem hafa nú breyst að eilífu. Enn drögum við hin andann og nú munum við öll þurfa að venjast breytingunum og reyna að halda í hefðirnar – bara einum færri.

Þú elskaðir öll börnin þín svo mikið. Og barnabörnin og barnabarnabörnin voru stolt þitt og yndi. Það fór ekki fram hjá neinum. Fjölskyldan öll naut dugnaðar þíns, gæsku og gjafmildi, hjartahlýju og kærleika. Elsku besta Maja mín. Mig langar ekki að kveðja þig. Mig langar bara að hafa þig hér áfram. Ég þakka þér af öllu hjarta mínu og af allri sálu minni fyrir allt sem þú varst og fyrir allt sem þú gerðir. Ég hlakka til að hitta þig aftur þegar mitt kall kemur.

Ég lít í anda liðna tíð,

er leynt í hjarta geymi.

Sú ljúfa minning létt og hljótt,

hún læðist til mín dag og nótt,

svo aldrei, aldrei gleymi...

(Halla Eyjólfsdóttir)

Berglind.

Ég vil hér setja niður nokkur orð og minnast hennar Mæju. Kynni mín við hana hófust árið 1986 á Egilsstöðum. Þangað kom ég nýútskrifaður þroskaþjálfi og hóf störf við Vonarland, þá stofnun fyrir einstaklinga með fötlun á ýmsum aldri. Að koma inn á vinnustað getur verið erfitt, en Mæja tók mér einstaklega vel, var röggsöm en um leið full kærleiks og áhuga. Hún var einn af stólpum vinnuhópsins, sem voru mest konur utan einn karlmaður. Að mig minnir. Að leita til hennar var alltaf gott, hún vann sitt starf vel. Þess nutum við samstarfsmenn hennar sem og íbúar staðarins. Hvað hún starfaði við síðar er ég ekki viss um, en hún átti nokkur börn með eiginmanni sínum, honum Gústa mínum eins og hún sagði stundum. Mér þótti þau alltaf svo falleg hjón saman. Barnabörn hefur hún átt mörg og sinnt vel. Nokkur þeirra sem við Mæja sinntum á Vonarlandi eru farin sem og samstarfsfólk okkar og nú Mæja. Ég vil votta eftirlifandi eiginmanni hennar og aðstandendum öllum mína dýpstu samúð.

Minning Mæju mun lifa, brosmild og falleg.

Unnur Fríða

Halldórsdóttir.

Lionsklúbburinn Úa kveður góða vinkonu og félaga. Anna María var einn af stofnendum Lionsklúbbsins Úu og gegndi þar ýmsum ábyrgðarstörfum. Mæja lét aldrei sitt eftir liggja að taka að sér ný verkefni ásamt því að hvetja okkur hinar til þess sama og að vera virkar. Hún var kona hugsjóna og verka og hafði sterkar skoðanir. Við Úur getum þakkað henni fyrir að kalla okkur saman til spjalls og ráðagerða við sitt stóra borð eins og hún sagði oft, en það var alltaf gott að koma til Mæju. Til að minnast á mikilvæg og óeigingjörn störf Mæju má nefna þátt hennar í ungmennabúðum Lions í júlí 2008 sem voru haldnar það árið í Varmárskóla. Þar sá hún um matseld fyrir ungmennin og sinnti öðrum störfum sem til féllu. Lionsklúbbar bjóða árlega upp á fríar blóðsykursmælingar í tengslum við alþjóðasykursýkisdaginn, þar var hún ötul við að hvetja fólk til að láta mæla sig. Hún lét sig heldur ekki vanta þegar klúbburinn aðstoðaði við kaffiveitingar á fræðslufyrirlestrum Alzheimersamtakanna. Við árlega gróðursetningu í Úulundi mætti hún ásamt öðrum með kaffiveitingar. Lionsklúbbarnir í Mosfellsbæ héldu Lionsþing 2010 og 2016, þar tók hún þátt í ýmsum verkum sem tilheyra stóru þingi. 2016 var hún í undirbúningsnefnd þingsins. Til margra ára hélt hún utan um og prentaði félagaskrána fyrir klúbbinn með dyggri aðstoð eiginmannsins. Starfsárið 2021-2022 var hún svæðisstjóri yfir sex klúbbum á svæði 1-2 í umdæmi 109B. 2016 gerði klúbburinn Önnu Maríu að Melvin Jones-félaga.

Félagar í Lionsklúbbnum Úu minnast hennar með hlýhug og þakklæti. Maka og aðstandendum hennar sendum við innilegar samúðarkveðjur.

F.h. félaga í Lionsklúbbnum Úu Mosfellsbæ,

Dagný Sæbjörg Finnsdóttir.