Breytingar Loksins bar verður lokað um áramótin. Nýir veitingastaðir verða opnaðir í Leifsstöð á næsta ári.
Breytingar Loksins bar verður lokað um áramótin. Nýir veitingastaðir verða opnaðir í Leifsstöð á næsta ári. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Isavia hefur sett af stað útboð á rekstri þriggja veitingastaða í Leifsstöð. Þetta er annað útboðið af þremur á veitingarýmum í flugstöðinni en eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu er fyrir höndum nær alger endurnýjun á veitingarekstri þar á næstu misserum.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Isavia hefur sett af stað útboð á rekstri þriggja veitingastaða í Leifsstöð. Þetta er annað útboðið af þremur á veitingarýmum í flugstöðinni en eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu er fyrir höndum nær alger endurnýjun á veitingarekstri þar á næstu misserum.

Útboðið nú tekur til þriggja rýma sem skilgreind eru sem sölustaðir fyrir kaffi og brauð. Fyrr á árinu var boðinn út rekstur tveggja stærri veitingastaða í norðurbyggingu flugstöðvarinnar. Búast má við að niðurstaða þess útboðs liggi fyrir í haust.

Hluti af þeim breytingum sem eru fyrir dyrum er að vinsælir veitingastaðir í Leifsstöð eru á útleið. Þar á meðal eru Joe and the Juice, Loksins bar, Segafredo og Nord. Útboðið sem nú stendur yfir nær sem fyrr segir til þriggja rýma og eru þau boðin út saman til fimm ára með möguleika á tveggja ára framlengingu. Hægt verður að hefja rekstur nýrra staða í apríl á næsta ári. Stærsti bitinn er veitingarými á besta stað í brottfararsalnum í norðurbyggingunni, mitt á milli þess sem Joe and the Juice og Nord eru núna. Rýmið verður um 80 fermetrar og er mælst til þess í kynningu Isavia að þar verði bæði hægt að setjast niður en einnig að grípa með sér veitingar. Á staðnum á að vera hægt að fá ferskar samlokur og kaffi sem útbúið er eftir pöntun, ferska safa, hristinga og hollan mat auk áfengra drykkja. Veitingastaður þessi á að bera sterk íslensk einkenni og honum er ætlað að draga að sér yngri kynslóðir svo líklegra sé að þær mæti snemma á flugvöllinn með fjölskyldu og vinum, eins og það er orðað í kynningunni.

Annað veitingarýmið verður á efri hæð suðurbyggingar. Þar er fyrir á fleti veitingastaðurinn Hjá Höllu sem er sá eini sem heldur áfram starfsemi í flugstöðinni eftir þá endurnýjun sem nú fer í hönd. Kaffistaðurinn nýi verður gegnt veitingastað Höllu og á að þjóna þeim sem millilenda hér á landi og þeim sem eru á leið í flug til Schengen-landa.

Þriðja veitingarýmið er á jarðhæð norðurbyggingarinnar þar sem Joe and the Juice er núna. Það er ætlað bæði komufarþegum og þeim sem eru að fara utan auk fjölda starfsmanna sem vinna að stækkun flugstöðvarinnar um þessar mundir. Þarna er ætlast til þess að opið verði á öllum tímum og seldar verði samlokur, hollur matur svo sem súpa dagsins, nýbakað brauð og gæðakaffi auk þess sem gott úrval verði af ferskum safa og öðrum drykkjum, áfengum sem óáfengum.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu eru veitingarými í Leifsstöð boðin út í þremur pökkum og boðað er að þriðji og síðasti pakkinn verði boðinn út innan tveggja ára. Innan hans er til að mynda staðurinn þar sem Mathús er nú í brottfararsalnum. Sami rekstraraðili getur aðeins fengið tvo af þessum þremur pökkum.

Endurnýjun í Leifsstöð
» Veitingastöðunum Joe & the Juice, Loksins bar, Nord og Segafredo verður brátt lokað í Leifsstöð.
» Útboði á tveimur veitingarýmum í brottfararsal lokið og niðurstöðu að vænta í haust.
» Isavia býður nú út þrjú veitingarými til viðbótar, þar af rými þar sem Joe & the Juice og Nord eru nú.