Biden á fundi með blaðamönnum. Á árinu 2022 er allt annað en auðvelt að vita hvað er satt og rétt og vissara að hafa réttar skoðanir á málunum.
Biden á fundi með blaðamönnum. Á árinu 2022 er allt annað en auðvelt að vita hvað er satt og rétt og vissara að hafa réttar skoðanir á málunum. — AFP/Evan Vucci
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá París ai@mbl.is Það, hvort að runnið er upp samdráttarskeið í Bandaríkjunum, veltur víst á því hver er spurður.

Það eru engar ýkjur að segja að við lifum á stórfurðulegum tímum og er ástandið hvergi skrítnara en í Bandaríkjunum.

Þannig gerðist það í júlí að birtar voru nýjar hagtölur sem sýndu að landsframleiðsla í Bandaríkjunum hefði dregist saman tvo ársfjórðunga í röð, sem er einmitt það sem hér um bil allir hagfræðingar nota sem viðmið, til að skilgreina hvenær samdráttarskeið er runnið upp.

Greinilegt var að bandarískir hægrimenn hugsuðu sér gott til glóðarinnar, enda fara fram þingkosningar í nóvember þar sem öll 435 sætin í neðri deild þingsins og þriðjungur sæta í efri deildinni eru í húfi. Minnkandi landsframleiðslu má hæglega rekja til aðgerða ríkisstjórnar Joes Bidens og væri leikandi létt fyrir repúblíkana að nota samdráttinn til að lumbra á demókrötum í aðdraganda kosninganna.

En þá hugkvæmdist demókrötum svolítið, sem að meira að segja Trump sjálfur hefði ekki haft ímyndunaraflið til að gera: þeir véfengdu hvernig efnahagslegt samdráttarskeið er skilgreint og þrættu fyrir það að bandaríska hagkerfið væri í efnahagslægð – þrátt fyrir það sem tölurnar sýna.

Frá sjónarhóli Hvíta hússins er hagkerfi Bandaríkjanna í uppsveiflu ef eitthvað er: „Efnahagslega erum við sterkari í dag en nokkurn tíma í sögunni,“ sagði Karine Jean-Pierre, upplýsingafulltrúi forsetans, á fundi með blaðamönnum um leið og hún kenndi Úkraínustríðinu og kórónuveirufaraldrinum um allt það sem aflaga hefur farið. Janet Yellen tók í svipaðan streng í viðtali hjá NBC fyrr í júlí: „Þegar tekst að skapa nærri 400.000 ný störf á einum mánuði, þá erum við ekki á samdráttarskeiði.“

Á heimasíðu Hvíta hússins birtist síðan stutt grein sem fjallaði gagngert um af hverju það væri kolrangt að nota neikvæðan hagvöxt tvo ársfjórðunga í röð, og ekkert annað, sem einhvers konar skilgreiningu á samdráttarskeiði. Hvíta húsið fullyrti að þess í stað líti hagfræðingar á fjölda þátta, s.s. ástand vinnumarkaðar, útgjöld heimila og fyrirtækja og framleiðslu iðnfyrirtækja til að meta hvort að samdráttartímabil sé hafið eður ei. Benti Hvíta húsið á það væri bandaríska hagfræðistofnunin, NBER, og enginn annar, sem úrskurðaði um það hvort hagkerfið væri í upp- eða niðursveiflu.

Eyjaálfa hefur alltaf verið í stríði við Evrasíu

Pólitískir útúrsnúningar eru svo sem ekkert nýtt. Öllu verra var þó að lesa fréttir um að skilgreiningunni á samdráttarskeiði hefði verið breytt hjá alfræðiorðabókinni Wikipediu. Endurskilgreining hugtaksins hófst skömmu áður en hagtölur annars ársfjórðungs voru birtar. Ekki er alveg ljóst hver hleypti af fyrsta skotinu. Í umfjöllun NPR um málið segir að fyrst hafi skilgreiningin verið þrengd og miðað við tvo neikvæða ársfjórðunga, en svo komu breytingar í hina áttina, sem féllu betur að nýrri skilgreiningu Hvíta hússins.

Ritstjórar Wikipediu gripu að lokum til þess ráðs að takmarka breytingar á umræddri grein og ákváðu að inngangstexti greinarinnar skyldi vera nokkurn veginn á þessa leið: að almennt sé miðað við samdrátt í tvo ársfjórðunga í röð til að skilgreina að samdráttarskeið sé hafið, en að önnur viðmið gildi í Bandaríkjunum.

Það er kannski svolítið klént að segja það, en fréttir undanfarinna vikna minna óþægilega á þann heim sem birtist í meistaraverki Orwells, þar sem hægt var að breyta staðreyndum og meira að segja merkingu orða eftir hentugleika (hér í þýðingu Þórdísar Bachmann):

Núna til dæmis, árið 1984 (ef þetta var árið 1984), var Eyjaálfa í stríði við Evrasíu og í bandalagi við Austasíu. Hvergi var játað, hvorki undir fjögur augu né á mannamótum, að þessi þrjú stórveldi hefðu nokkru sinni skipað sér öðru vísi.

Reyndar vissi Winston vel, að aðeins voru fjögur ár síðan Eyjaálfa átti í 41 stríði við Austasíu og var í bandalagi við Evrasíu. Þetta var þó einungis laumulegur fróðleiksmoli sem Winston bjó af tilviljun yfir, því að minni hans lét ekki fullkomlega að stjórn.

Opinberlega hafði aldrei orðið nein breyting á þessu sviði. Eyjaálfa var í stríði við Evrasíu — þess vegna hafði Eyjaálfa alltaf verið í stríði við Evrasíu.

Ef lesendum þykir það helst til dramatískt að vitna í Nítján hundruð áttatíu og fjögur, þá er ágætt að minna á að í maí höfðuðu ríkissaksóknarar í Missouri og Louisiana mál gegn Joe Biden og öðrum hátt settum embættismönnum fyrir að hafa fengið tæknirisa á borð við Meta, Twitter og YouTube til að ritstýra samfélagsumræðunni og skerða tjáningarfrelsi fólks.

Snýr málsóknin m.a. að því hvernig reynt var að kæfa fréttina um óskemmtileg gögn sem fundust á fartölvu Hunters Biden í aðdraganda forsetakosninganna, hvernig það sama var gert til að ritskoða þann möguleika að kórónuveiran gæti átt uppruna sinn á rannsóknarstofu í Vúhan, og hvernig efasemdir um gagnsemi andlitsgríma voru ritskoðaðar í takt við stefnu stjórnvalda.

Hvort málssóknin heldur vatni á eftir að koma í ljós.

Allir æstir yfir einhverju

Hringlandaháttur Hvíta hússins með hagfræðilegar skilgreiningar, og það undarlega ritskoðunarumhverfi sem búið er að skapa, er bara lítil birtingarmynd þess skrítna ástands sem við búum við.

Hjónin Bret Weinstein og Heather Heying lýstu hluta vandans einkar vel i hlaðvarpi sínu fyrr í sumar. Þar bentu þau á hvernig mál dagsins hverju sinni er allsráðandi. Umræðan í samfélaginu og í fjölmiðlum stekkur með reglulegu millibili á milli tiltekinna mála sem fanga alla athygli okkar og hleypa öllu í háaloft.

Er eins og að í hverri viku komi upp nýtt mál dagsins sem æsir alla upp, fær samfélagsmiðla til að loga og fréttaskýrendur til að froðufella.

Í upphafi þessa árs var kórónuveirufaraldurinn ennþá mál dagsins en eins og hendi væri veifað hætti veiran að skipta máli, eftir að Pútín sendi her sinn inn í Úkraínu. Inn á milli hafa komið smærri stórmál, eins og þegar strákpjakkurinn Kyle Rittenhouse var sýknaður fyrir að skjóta þrjá Antifa-mótmælendur í sjálfsvörn; eða þegar fyrstu drögum að tímamótaúrskurði Hæstaréttar Bandaríkjanna um fóstureyðingar var lekið; eða karpið um trans fólk í íþróttum. Svo var það kinnhesturinn á Óskarsverðlaunahátíðinni, dómsmál Johnnys Depp og Amber Heard og Twitter-drama Elons Musks sem virðist aldrei ætla að enda.

Verst er samt að mál dagsins taka yfirleitt á sig þá mynd að það leyfist aðeins að hafa á þeim eina rétta skoðun. Frávik í hugsun eru ekki leyfð og ekki einu sinni minni háttar blæbrigði í skoðunum.

Það er ekki fyrr en nýtt mál dagsins er orðið ráðandi í umræðunni að fólk má leyfa sér að viðra önnur sjónarmið um eldri mál. Það var t.d. ekki fyrr en kórónuveirufaraldurinn var kominn vel og vandlega af dagskrá að fólk fór að játa að því hefði kannski innst inni þótt eitthvað bogið við allt offorsið, að Jacinda Ardern væri kannski ekki snjallasti þjóðarleiðtogi sögunnar, og að hámenntaða efasemdarfólkið, sem var kallað öllum illum nöfnum og bolað út af samfélagsmiðlum, hefði kannski haft eitthvað til síns máls.

Annars er það að frétta að apabóla er komin á kreik og einhver var að æsa sig á því að svört kona hefði verið valin í ákveðið hlutverk í nýju Sandman þáttunum á Netflix. Þá á

Eyjaálfa í stríði við Austasíu, og hefur alltaf átt í stríði við Austasíu.