Inga Árnadóttir fæddist á Siglufirði 10. mars 1948. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 29. júlí 2022. Foreldrar Ingu voru Ásta Kristinsdóttir, f. 4.1. 1924, d. 14.8. 2012, og Árni Vigfússon, f. 7.12. 1921, d. 23.7. 1995. Systkini Ingu eru: Georg, f. 1.10. 1946, Valdís, f. 10.3. 1948, Hulda, f. 2.1. 1951, og Kristín, f. 15.11. 1959. Hálfbróðir samfeðra er Ingólfur, f. 22.3. 1943.

Eiginmaður Ingu er Sölvi Stefánsson, f. 5.10. 1948. Þau gengu í hjónaband 21.11. 1970. Börn þeirra eru: 1) Ásta, f. 23.7. 1971, eiginmaður hennar er Ingvar H. Ragnarsson, f. 11.5. 1972, sonur þeirra er Jökull Tinni, f. 2003; 2) Hildur, f. 27.9. 1974, eiginmaður hennar er Ian H. Muir, f. 15.3. 1971. Börn þeirra eru Evadís Ceciley, f. 2007, og Oliver Robert, f. 2010; 3) Stefán Örn, f. 9.8. 1979, eiginkona hans er Birna V. Jakobsdóttir, f. 9.2. 1982. Börn þeirra eru Sölvi Steinn, f. 2011, og Eyvör Edda, f. 2014.

Inga fæddist á Siglufirði en ólst upp í Innri-Njarðvík frá 5 ára aldri. Eftir gagnfræðapróf sótti Inga bæði húsmæðraskóla og lýðháskóla í Svíþjóð og vann á yngri árum í Bókabúð Keflavíkur. Inga sinnti húsmóðurstörfum á meðan börnin voru lítil. Hún vann til fjölda ára í Fríhöfninni og síðar í verslun ÁTVR í Reykjanesbæ.

Inga var félagslynd og vinmörg. Hún var félagi í Lionessuklúbbi Keflavíkur. Inga hafði mikinn áhuga á hannyrðum og hafði yndi af ferðalögum og samverustundum með fjölskyldu sinni.

Inga og Sölvi héldu heimili í Keflavík alla tíð. Eins nutu þau að verja tíma í sumarhúsum sínum við Álftavatn og í Skjaldfannardal.

Útför Ingu fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 10. ágúst 2022, kl. 13.

Í dag kveð ég elsku mömmu með hlýhug og söknuði.

Ég minnist sanngjarnrar og umhyggjusamrar móður sem passaði vel upp á börnin sín og barnabörn. Mamma var alltaf til staðar fyrir okkur systkinin þegar á þurfti að halda og passaði að gera aldrei upp á milli barna og barnabarna. Það skyldi alltaf jafnt yfir alla ganga.

Mamma var dugnaðarforkur en um leið viðkvæm og dul. Hún starfaði við verslunarstörf með hléum allan sinn starfsferil. Vinnan veitti henni gleði, enda var mamma sérlega félagslynd kona sem fannst ekkert skemmtilegra en að vera innan um fólk. Þegar við systkinin vorum lítil var hún heimavinnandi eins og algengt var á þeim árum. Þá var ansi gestkvæmt heima, enda margar konur heimavinnandi á þeim tíma. Þegar við urðum stálpuð var alltaf pláss við matarborðið fyrir vini okkar systkina en mamma var mikil húsmóðir sem hugsaði vel um heimilið. Þá fylgdist hún vel með tískunni og fannst gaman að fletta tímaritum og skoða nýjar uppskriftir, jafnt prjónauppskriftir sem matar. Hún hafði mjög gaman af veisluhöldum og öllu umstangi í kringum slíkt.

Mamma var mikil fjölskyldukona. Hún var frændrækin og laðaðist fólk að henni. Systkini mömmu eru sérlega samheldinn hópur sem hefur ferðast saman í gegnum lífið. Þau pabbi voru líka dugleg að ferðast með ömmur og afa í sælureit fjölskyldunnar, Laugarás á Snæfjallaströnd, þaðan sem allir koma endurnærðir til baka. Eins veitti griðastaðurinn við Álftavatn mömmu ávallt hugarró.

Síðari ár, eða frá 2005 þegar mamma greindist fyrst með krabbamein, voru stundum snúin hjá mömmu. Alvarlegir sjúkdómar geta haft ýmiss konar ófyrirséða fylgikvilla í för með sér og sú varð raunin í tilfelli mömmu. Árið 2019 tók meinið sig upp aftur og tókst mamma á við veikindi sín af miklu æðruleysi. Hún minnti okkur á að „lífið er núna“ og sagðist bara ekkert skilja í þessu öllu saman.

Eftir situr minning um yndislega móður sem var alltaf tilbúin til að hlusta á aðra og gott var að leita til.

Ásta Sölvadóttir.

Elsku tengdamamma. Með bros á vör tókstu á móti mér, ungum manni. Bauðst mig velkominn í fjölskylduna.

Lífsglöð, félagslynd. Það var gaman að vera í kringum þig.

Fjölskyldumót, mannamót. Í miðjum hópnum sastu. Skrafhreifin og hláturmild. Með blik í augum.

Amma Inga átti athvarf fyrir glaðan ömmudreng. Náttfataklæddan. Á kósíhelgi í Heiðarbóli.

Síðan bönkuðu veikindin upp á. Mörkuðu lífið.

Áfram hélstu. Fannst á endanum sátt. Brosið birtist á ný og var komið til að vera. Síðustu árin var lífið. Núna.

Elsku Inga. Takk. Takk fyrir allt.

Ingvar H. Ragnarsson.

Okkar kæra systir og mágkona er látin.

Við systkinin fæddumst á Siglufirði í húsi ömmu okkar og afa, Ingiríðar Ásgrímsdóttur og Kristins Bessasonar, á Lindargötu 5. Móðir mín Ásta Kristinsdóttir sagði mér að amma Ingiríður hefði sagt við sig að ef hún eignaðist stúlku og hefði hug á að skíra hana í höfuðið á sér þá skyldi hún skíra hana Ingu en ekki Ingiríði. Það gekk eftir og þú varst skírð Inga, mín kæra systir.

Við fluttum frá Siglufirði árið 1954 með viðkomu í Laxnesi í Mosfellssveit. Þá tek ég eftir því, þar sem þið systur eruð að leika ykkur í móanum fyrir neðan Gljúfrastein, að nóbelsskáldið gengur að ykkur systrum og fer að spjalla við ykkur. Hann spjallaði við ykkur í dágóða stund og ég man að þú hafðir orðið fyrir ykkur systrum. Eftir sex mánaða dvöl í Laxnesi fluttum við suður í Innri-Njarðvík að Kirkjubraut 11, í sumarbústað sem hafði verið fluttur frá Vatnsenda við Reykjavík. Afi og pabbi höfðu fest kaup á honum til flutninga suður til Innri-Njarðvíkur.

Fljótlega eftir að við fluttum til Innri-Njarðvíkur tókst þú að þér barnagæslu, það var kallað að fara í vist í þá daga. Það fórst þér vel úr hendi, mín kæra systir, eins og allt sem þú tókst að þér.

Þú varst félagslynd. Alltaf var gott að fá ykkur Sölva í bústaðinn og heim í Vesturberg. Við vorum góðar vinkonur, kæra mágkona. Mikið sakna ég þín.

Þú varst mikil barnagæla og elskaðir alltaf litlu krílin. Þú sagðir mér: „Ég er búin að kaupa gjafir handa tvíburunum og hlakka til að koma í skírnarveisluna,“ enda komstu flott og fín kæra mágkona.

Georg Árnason,

Hrafnhildur Jónsdóttir.

Ég á margar góðar minningar um Ingu systur mína og vinkonu. Við fluttum frá Siglufirði til Innri-Njarðvíkur þar sem pabbi byggði húsið okkar á Kirkjubraut 11 sem við ólumst upp, þar til við giftum okkur og fluttum að heiman. Það var systrabrúðkaup hjá okkur Ingu og Sölva og mér og Gumma árið 1970.

Inga systir var umhyggjusöm og ástúðleg alla tíð, hún var vinsælasta barnapían í Innri-Njarðvík frá unga aldri, ég gleymi ekki hvíta og bláa velúrjakkanum með Íslandskorti á bakinu, rokkskónum, mokkasíunum með pening og hvítu sokkunum sem Ingibjörg Smith gaf henni fyrir barnapíustarfið.

Við höfum alltaf verið í góðu sambandi fjölskyldan og ferðuðumst oft um landið saman við systkinin, börnin okkar og mamma og pabbi. Við systurnar fórum í nokkrar systraferðir til útlanda og skemmtum okkur vel saman. Inga var til margra ára í Lionessuklúbbi Keflavíkur og átti hún góðar vinkonu þar.

Inga greindist fyrst með krabbamein árið 2005, hún læknaðist af því, svo aftur árið 2018 og enn aftur núna, hún ætlaði sér að læknast af því og ég hélt það líka en svo fór þó ekki, hún var ekki tvær vikur á sjúkrahúsi, hún fór alltof fljótt.

Inga þú varst mamma, eiginkona, systir, tengdamóðir, amma og vinur, ég er þakklát fyrir liðnar stundir sem við áttum saman. Það er skrítið að geta ekki hringt í þig elsku Inga, það fyllir mig söknuði, en minningin um þig lifir.

Þakka þér fyrir allt kæra systir, Guð varðveiti þig.

Elsku Sölvi, Ásta, Ingvar, Hildur, Ian, Stefán, Birna og barnabörnin, einlægar samúðarkveðjur sendum við ykkur öllum.

Hulda.

Nú hefur Inga, mín kæra vinkona, lokið sinni jarðvist hér. Leiðir okkar hafa legið saman á ýmsa vegu í gegnum tíðina. Við gengum í sama lýðháskóla í Svíþjóð, störfuðum saman í Fríhöfninni í tvo áratugi og enn fleiri með Lionessuklúbbi Keflavíkur. Minningarnar hrannast upp í huganum á svona tímamótum. Margar skemmtanir og ferðalög höfum við farið saman í. Má ég til að nefna ferðina vestur í Djúp á ættaróðalið ykkar þar sem var útisundlaug. Inga hló þegar hún bauð okkur fjölskyldunni með og sagði að þetta hljómaði eins og eitthvað stórkostlegt en væri bara í raun ósköp venjulegt hús sem fjölskyldan hefði ákveðið að halda í ættinni, ógleymanleg ferð.

Eins má ég til með að nefna þegar starfsfélagi stakk upp á því að vetri til að vaktin færi saman á skíðanámskeið í Kerlingarfjöllum um sumarið. Tugir manna voru komnir á lista en smátt og smátt heltist hver af öðrum úr lestinni sem endaði með því að við Inga fórum tvær í þessa hópferð með fjölskyldum okkar! Við gátum oft hlegið að þessari niðurstöðu. Sællar minningar endaði þessi ferð með því að við urðum veðurteppt þarna uppi á hálendi um hásumarið, krökkunum fannst það ekki leiðinlegt.

Aðrar ljúfar og góðar minningar mun ég geyma í skýinu mínu. Mér er efst í huga hversu lánsöm ég er að hafa eignast svona trausta og góða vinkonu og kveð því hér þessa eðalvinkonu mína með söknuði og sendi um leið Sölva, Stefáni, Ástu, Hildi og fjölskyldunni allri mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Steinunn Guðnadóttir.