Á verði Maður úr lífvarðasveit Bandaríkjaforseta, „Secret Service“, sem ekki er þekkt fyrir að sýna húðflúr á fréttamyndum, við heimili Trumps í gær.
Á verði Maður úr lífvarðasveit Bandaríkjaforseta, „Secret Service“, sem ekki er þekkt fyrir að sýna húðflúr á fréttamyndum, við heimili Trumps í gær. — AFP/Giorgio Viera
Bandaríska alríkislögreglan FBI og dómsmálaráðuneyti landsins hafa ekki tjáð sig um húsleit á heimili Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta í fyrradag.

Bandaríska alríkislögreglan FBI og dómsmálaráðuneyti landsins hafa ekki tjáð sig um húsleit á heimili Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta í fyrradag.

Leituðu alríkislögreglumenn þar að trúnaðarskjölum er Trump hefði átt að láta af hendi þegar hann lét af embætti forseta. Sendi Trump frá sér ítarlega yfirlýsingu á mánudagskvöld þar sem hann lýsti því hvernig „stór hópur“ FBI-manna hefði farið um heimili hans í Mar-a-Lago á Palm Beach og brotið þar upp peningaskáp. Hefði þar verið um að ræða „ótilkynnta innrás“.

Engar hurðir brotnar

Ónefndur heimildarmaður úr röðum löggæslumanna tjáði CBS -sjónvarpsstöðinni að FBI-mennirnir hefðu haft nokkra kassa á brott með sér og tók sérstaklega fram að engar hurðir hefðu verið brotnar niður. Eric Trump, sonur forsetans fyrrverandi, sagði í samtali við Fox News að málið hefði tengst rannsókn á skjölum sem með réttu ættu heima á þjóðskjalasafni Bandaríkjanna en faðir hans hefði haft á heimili sínu eftir að hann lét af embætti.

Samkvæmt lögum um forsetaskjöl, the Presidential Records Act, er forsetum landsins skylt við embættislok að afhenda þjóðskjalasafni öll skjöl frá þeirra embættistíð ásamt öllum tölvupóstum. Greindi þjóðskjalasafnið frá því í febrúar að það hefði sótt 15 kassa af skjölum á heimili Trumps í febrúar sem hann þá hefði þegar átt að vera búinn að afhenda safninu.

Frá æðstu mönnum

Svaraði Trump því til á þeim tíma að allur áburður um að hann hefði misfarið með opinber skjöl væru „falsfréttir“, vinsæll fyrirsláttur alla hans embættistíð. Segja lögfróðir menn fjölmiðlum vestanhafs að húsleitarheimild á alríkisstigi þurfi dómari að rita undir og hafi heimildin líkast til komið frá æðstu mönnum dómsmálaráðuneytisins.

Trump, sem undirbýr nú sitt þriðja forsetaframboð, 2024, sagði enn fremur í yfirlýsingu sinni að hann hefði verið samstarfsfús í garð allra opinberra stofnana og aðgerðir lögreglu á heimili hans hefðu verið „ónauðsynlegar og óviðeigandi“.