Mótmæl i Ungir sjálfstæðismenn voru að venju mættir á Skattstofuna 2007 og voru með gestabók fyrir „snuðrara“.
Mótmæl i Ungir sjálfstæðismenn voru að venju mættir á Skattstofuna 2007 og voru með gestabók fyrir „snuðrara“. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Álagningarskrá einstaklinga verður lögð fram miðvikudaginn 17. ágúst næstkomandi og liggur frammi í 15 daga, til og með 31. ágúst. Kærufrestur vegna álagningarinnar rennur út 31. ágúst nk. Álagningarskráin liggur frammi á starfsstöðvum Ríkisskattstjóra þessa daga, almenningi til sýnis.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Álagningarskrá einstaklinga verður lögð fram miðvikudaginn 17. ágúst næstkomandi og liggur frammi í 15 daga, til og með 31. ágúst. Kærufrestur vegna álagningarinnar rennur út 31. ágúst nk. Álagningarskráin liggur frammi á starfsstöðvum Ríkisskattstjóra þessa daga, almenningi til sýnis.

Svokölluð tekjublöð með upplýsingum um gjöld einstaklinga hafa verið gefin út áratugum saman. Þó féll útgáfa þeirra niður árið 2020 enda voru skattskrár þá ekki tiltækar almenningi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Opinber birting á tekjum og skattgreiðslum einstaklinga hefur verið gagnrýnd af mörgum í gegnum árin. Telja þeir að laun og tekjur hljóti að vera einkamál hvers og eins í frjálsu samfélagi. Fráleitt sé að birta upplýsingar um tekjur fólks „á torgum“.

Þar hafa farið fremstir í flokki ungir sjálfstæðismenn. Þeir hafa gjarnan fjölmennt á skattstofur á fyrsta degi birtingarinnar og nælt sér í þau eintök sem liggja frammi. Á meðan hafa almennir borgarar ekki komist að. Hefur oft komið til hvassra orðaskipta á skattstofunum.

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla persónuupplýsinga, sem fer eingöngu fram í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi, þ.m.t. birting upplýsinga í tekjublöðum, falli utan ramma flestra ákvæða persónuverndarlaganna, þ.ám. þeirra ákvæða sem veita Persónuvernd valdheimildir vegna vinnslu persónuupplýsinga. Úrlausn um það hvort farið hafi verið út fyrir mörk tjáningarfrelsis heyrir því undir dómstóla. Þetta kemur fram á vef Persónuverndar.

Álagning endanlegt uppgjör

Ríkisskattstjóri tilkynnti 31. maí í vor að hann hefði lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2022, á tekjur ársins 2021. Tekjuskattur og útsvar höfðu að mestu þegar verið innheimt í staðgreiðslu en í álagningunni fer fram endanlegt uppgjör þessara skatta.

Þar að auki er lagt á útvarpsgjald, gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, slysatryggingagjald vegna heimilisstarfa og tryggingagjald, sem lagt er á einstaklinga með rekstur í eigin nafni. Við álagningu eru einnig ákvarðaðar barna- og vaxtabætur, auk sérstaks barnabótaauka á árinu 2022. Hinn 1. júní voru inneignir samkvæmt niðurstöðum álagningar lagðar inn á bankareikninga þeirra gjaldenda sem áttu inni hjá ríkissjóði.

Framteljendum á skattgrunnskrá fjölgaði á milli ára en á grunnskrá voru nú 317.567 einstaklingar, 5.054 fleiri en fyrir ári, sem er fjölgun um 1,62%. Samkvæmt samantekt sem fjármálaráðuneytið birti í sumar töldu framteljendur fram rúmlega tvö þúsund milljarða króna í skattskyldar tekjur í fyrra. Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna hækkaði um 7,2% í fyrra

Skattar 18.644 einstaklinga voru áætlaðir en það er um 5,87% af heildarfjölda. Undanfarin ár hafa skattskil farið batnandi og er hlutfall áætlana nú svipað og í fyrra, sagði í tilkynningu á vef ríkisskattstjóra.

Framtöl eru nú að mestu leyti unnin rafrænt og samskipti við framteljendur fara aðallega fram á netinu. Betri skil gagna og aðstoð við framteljendur hafa fækkað villum og einfaldað framtalsgerðina fyrir allflesta. Hefðbundin pappírsframtöl heyra sögunni til en nú skiluðu 99,81% framteljenda rafrænu skattframtali.