Sveinn Finnsson fæddist 12. desember 1938. Hann lést 26. júlí 2022. Útför hans fór fram 5. ágúst 2022.

Nokkur orð um Svein móðurbróður minn. Ég var oft í sveitinni hjá afa og ömmu í Eskiholti frá því að ég man eftir mér og fram á unglingsár. Þar var Sveinn allt í öllu og ég fékk að dingla með honum þegar hægt var. Sveinn fór á Hvanneyri í búfræðinám. Ég man nú lítið eftir því, en ég man að það var komin kona á heimilið að hjálpa ömmu. Sveinn hafði náð í fleira en búfræðimenntun á Hvanneyri, þar var komin Guðrún Gestsdóttir frá Syðra-Seli sem varð eiginkona Sveins og húsmóðir í Eskiholti í meira en 50 ár. Það er mér mjög minnisstætt þegar hlaðið í Eskiholti fylltist af nýjum vélum, dráttarvél og heyvinnutækjum af ýmsum toga. Þetta fannst mér guttanum stórmerkilegt. Sveinn og Guðrún tóku við búinu í Eskiholti, afi og amma fluttu upp á efri hæðina, en ég fékk að halda mínu plássi við eldhúsborðið, kominn með hlutverk sem kúasmali. Sveinn var duglegur ræktunarmaður, það var tekið eftir því hvað túnin stækkuðu fljótt í Eskiholti. Hann var mikill fjárbóndi og með afbrigðum fjárglöggur, gat þekkt sínar kindur í talsverðri fjarlægð. Sveinn hafði gaman af ættfræði þegar tími gafst til. Hann var mjög fróður um ættir okkar. Upp í hugann kemur minning frá því við vorum saman í jeppaferð um Tröllaskagann, þá segir hann að héðan úr Öxnadalnum sé ein formóðir okkar ættuð. Sveinn átti alltaf góða hesta sem unnu til verðlauna á hestamannamótum. Ég man eftir honum fara í leitir með tvo til reiðar, hund og hnakktösku sem í var stundum fleira en nesti. Sveinn var fjallkóngur í flestum leitum, fyrst í seinni leitum og síðar í fyrstu leit. Eitt sinn fékk hann tækifæri til að fara í fjárleit með Hreppamönnum þar sem þeir voru á fjalli í marga daga. Hann hafði mjög gaman af þessari ferð. Það var alltaf gott að koma í Eskiholt til Sveins og Guðrúnar. Dætur mínar fengu líka aðeins að kynnast sveitinni hjá þeim. Sveinn var síðustu árin á Dvalarheimili aldraða í Borgarnesi og átti við heilsubrest að stríða. Innilegar samúðarkveðjur til Guðrúnar og fjölskyldunnar. Nú sé ég frænda minn fara í sína síðustu ferð með tvo til reiðar, hund og hnakktösku. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Finnur Logi.