Á Boðnarmiði segir Guðmundur Arnfinnsson „Ekki ég“: Þeir sem djöfulóðir yrkja og andans gáfur stöðugt virkja endilega ættu'að muna að illt er að skorta hagmælskuna.

Á Boðnarmiði segir Guðmundur Arnfinnsson „Ekki ég“:

Þeir sem djöfulóðir yrkja

og andans gáfur stöðugt virkja

endilega ættu'að muna

að illt er að skorta hagmælskuna.

Og um „Gönuhlaup“ segir Guðmundur:

Túristarnir trítilóðir

tölta yfir hraunsins glóðir

vitskertir og vegamóðir

völtum fótum hæpnar slóðir.

Hallmundur Kristinsson yrkir:

Í vísnasmíði er ég iðinn,

eins og mér er tamt.

Þótt ekki finni ég efniviðinn

yrki ég bara samt!

Eyjólfur Ó. Eyjólfsson segist muna þá tíð þegar hundarnir í sveitinni hlupu frjálsir um mýrar og móa og sváfu úti í rigningarsudda og norðangjólu:

Hund átti Ketill á Kletti

og kvikindið eingöngu setti

í sólskini út

og þá alltaf með klút

og aðeins á nýslegna bletti.

Anton Helgi Jónsson segir að fósturkötturinn fari nú senn til síns heima svo að hann mátti til með að bauna á hann einni vísu:

Oft er lífið út í hött

iðkar tóma hrekki

breytist það í kelinn kött

kvartar maður ekki.

Sturla Friðriksson þýðir úr ensku:

Vont er að eiga kettling vegna

þess

hann verður snemma læða eða

fress.

Þórarinn í Kílakoti um fjórar stúlkur sem allar sátu á hækjum sér:

Jóa, Anna, Jóna, Gunna

jeg er hissa.

Allar þurftu í einu að pissa.

Samlíf eftir Sveinbjörn Beinteinsson:

Þó ég færi vítt um veg

var ég þér alltaf nærri;

hvar sem þú ert þar er ég

þó ég verði fjarri.

Að lokum Hólar eftir Bjarna frá Gröf:

Hér var laga- og ljóðagjörð,

létt um bragaryrði,

hér á sagan helga jörð

heima í Skagafirði.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is