Lamont Dozier
Lamont Dozier — Ljósmynd/Phil Konstantin, Wikimedia
Lamont Dozier er látinn, 81 árs að aldri. Hann var lagahöfundur hjá Motown-útgáfufyrirtækinu í Detroit og samdi í samvinnu við bræðurna Brian og Eddie Holland marga af þekktustu smellum útgáfunnar á sjöunda áratug síðustu aldar.
Lamont Dozier er látinn, 81 árs að aldri. Hann var lagahöfundur hjá Motown-útgáfufyrirtækinu í Detroit og samdi í samvinnu við bræðurna Brian og Eddie Holland marga af þekktustu smellum útgáfunnar á sjöunda áratug síðustu aldar. Þríeykið samdi tíu af 12 söluhæstu lögum Supremes í Bandaríkjunum, þeirra á meðal eru lögin „Where Did Our Love Go“ og „You Keep Me Hanging On“. Höfundatríóið var tekið inn í Frægðarhöll lagahöfunda 1988 og í Frægðarhöll rokks og róls 1990. Samstarf þríeykisins hófst 1962 og stóð til 1973. Á þeim tíma höfðu þeir afgerandi áhrif á hljóðheim Motown. Þegar samstarfinu lauk einbeitti Dozier sér að sólóferli sínum og samdi m.a. diskósmellinn „Going Back To My Roots“ fyrir sveitina Odyssey 1981. Sjö árum seinna starfaði Dozier með Phil Collins að „Two Hearts“ sem skilaði þeim Golden Globe- og Grammy-verðlaunum.