Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is Í nýrri könnun Maskínu eru þátttakendur spurðir hvort þeir hafi „miklar eða litlar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi í kjölfar kaupa Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík“, eins og það er orðað.

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Í nýrri könnun Maskínu eru þátttakendur spurðir hvort þeir hafi „miklar eða litlar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi í kjölfar kaupa Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík“, eins og það er orðað. Innan við helmingur þátttakenda í könnuninni taldi svo vera. Kaup Síldarvinnslunnar á Vísi, sem enn eiga eftir að ganga í gegn, eru líkleg til að bæta hag beggja fyrirtækja og þeirra samfélaga sem þau starfa í. Það er jákvætt.

Það vekur furðu að Maskína, sem vill væntanlega láta taka sig alvarlega þegar kemur að könnunum, skuli spyrja með svo leiðandi hætti – í ljósi þess að Vísir var í eigu einnar fjölskyldu en Síldarvinnslan er skráð á almennan hlutabréfamarkað, hvar hluthafar eru á sjötta þúsund.

Til að fá nýtt og óvænt sjónarhorn á málið ræddi Stöð 2 við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, sem sagði niðurstöðurnar ekki koma á óvart. Hún sagði jafnframt að auka þyrfti traust til sjávarútvegsins en það yrði bara gert með breytingum á regluverki. Samhliða því nefndi hún að auka þyrfti gjaldtöku á greinina.

Það er óvíst hvort Þorgerður Katrín hafi haft þessar skoðanir þegar hún sótti það hart að verða framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fyrir nokkrum árum, en hún hefur þær í dag þegar hún telur sig hafa pólitískan ávinning af því.

Þorgerður Katrín veit þó að verðmæti í sjávarútvegi verða ekki til með kúlulánum, heldur með þrotlausri vinnu og útsjónarsemi fólks sem leggur nótt við dag að gera sífellt betur, leggur eigið fjármagn að veði, tekst á við stórar áskoranir – og þarf að verjast ágangi popúlískra stjórnmálamanna. Það er ekki alltaf auðvelt, en gengur þó enn sem komið er.

Það væri þó óskandi að stjórnmálamenn hefðu almennt áhuga á því að efla atvinnulífið. Ríkisframlögin til stjórnmálaflokkanna borga sig ekki sjálf.