Leikari Michael Keaton á stórleik í þáttaröðinni.
Leikari Michael Keaton á stórleik í þáttaröðinni. — AFP
Ég tók mig til á dögunum og hlóð í alvöru hámhorf eins og það heitir víst á einhverri lélegri íslensku.

Ég tók mig til á dögunum og hlóð í alvöru hámhorf eins og það heitir víst á einhverri lélegri íslensku.

Það var nýlega fjárfest í áskrift að Disney+ á heimilinu og ég verð að viðurkenna það að Disney hefur ekki valdið mér vonbrigðum, þrátt fyrir að það hafi gengið illa að fá þá til þess að setja inn íslenska talsetningu á helstu teiknimyndirnar sínar af einhverjum ástæðum. Takk Lilja Alfreðs. Þáttaserían sem var nýjasta fórnarlamb mitt heitir Dopesick en ég held að mér hafi tekist að klára alla átta þættina, sem eru sirka klukkutími að lengd hver, á u.þ.b. einum sólarhring. Þættirnir fjalla um ópíóíðafárið í Bandaríkjunum í kringum aldamótin síðustu en í seríunni er athyglinni beint að verkjalyfinu oxíkontíni sem framleitt var af fjölskyldufyrirtækinu Purdue Pharma. Lyfið, eða dópið öllu heldur, náði ótrúlegu flugi, meðal annars vegna þess að það var markaðssett þannig að mjög lág prósenta, 1%, ætti á hættu að verða háð því. Ég held að mér sé óhætt að mæla með þessum þáttum fyrir alla sem hafa áhuga á góðu sjónvarpsefni enda ekki beint offramboð af skemmtilegum amerískum þáttaseríum eins og staðan er í dag.

Bjarni Helgason

Höf.: Bjarni Helgason