Fundur Erdogan Tyrklandsforseti, Selenskí Úkraínuforseti og Antonio Guterres funduðu í gær í borginni Lvív.
Fundur Erdogan Tyrklandsforseti, Selenskí Úkraínuforseti og Antonio Guterres funduðu í gær í borginni Lvív. — AFP/Forsetaembætti Tyrklands
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, fagnaði í gær heimsókn Receps Tayyips Erdogans Tyrklandsforseta til landsins og sagði hana senda öflug skilaboð um stuðning Tyrkja við Úkraínumenn. Þetta var í fyrsta sinn sem forsetarnir tveir hittust, augliti til auglitis, eftir að innrás Rússa hófst í febrúar síðastliðnum, en Erdogan hefur reynt að gegna hlutverki milligöngumanns í átökunum.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, fagnaði í gær heimsókn Receps Tayyips Erdogans Tyrklandsforseta til landsins og sagði hana senda öflug skilaboð um stuðning Tyrkja við Úkraínumenn. Þetta var í fyrsta sinn sem forsetarnir tveir hittust, augliti til auglitis, eftir að innrás Rússa hófst í febrúar síðastliðnum, en Erdogan hefur reynt að gegna hlutverki milligöngumanns í átökunum.

Selenskí fundaði einnig í gær með Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og ræddu þeir um öryggi kjarnorkuversins í Saporisjía. Skoraði Selenskí á Sameinuðu þjóðirnar að grípa inn í, til þess að tryggja öryggi versins, en harðir bardagar hafa verið í nágrenni þess síðustu daga.

Leiðtogarnir þrír funduðu svo allir saman í borginni Lvív í vesturhluta Úkraínu. Þar ræddu þeir sérstaklega samkomulagið, sem Erdogan og Guterres stóðu að, um flutninga á korni frá Úkraínu. Nú þegar hafa 25 flutningaskip hlaðin korni farið frá úkraínskum höfnum eftir að samkomulag náðist á milli Rússa og Úkraínumanna um að hægt yrði að senda flutningaskipin í gegnum hafnir við Svartahaf þar sem Rússar hafa haft tögl og hagldir. Lagði það 25. af stað í gær, og er von á því til Egyptalands á næstu dögum.

Guterres mun í dag heimsækja hafnarborgina Ódessu, sem er ein af þremur borgum sem taka þátt í kornflutningunum, og er stefnt að því að hann fari þaðan til Tyrklands til stjórnstöðvar verkefnisins.

Óttast var fyrr í sumar að alþjóðleg hungursneyð kynni að herja á heiminn, einkum fátækari ríki heims vegna styrjaldarinnar, þar sem ekki yrði mögulegt að flytja korn frá Úkraínu eða Rússlandi til annarra heimshluta.

Samkomulag náðist hins vegar í júlímánuði með milligöngu Tyrkja og segja Sameinuðu þjóðirnar að í fyrri hluta ágústsmánaðar hafi rúmlega 563.000 tonn af landbúnaðarafurðum, þar af rúmlega 451.000 tonn af korni, verið send frá Úkraínu.

Vara við „ögrun“ við verið

Varnarmálaráðuneyti Rússlands varaði í gær við því að Úkraínumenn væru að undirbúa „hryðjuverkaárás“ við kjarnorkuverið í Saporisjía í dag. Hafnaði það jafnframt ásökunum um að Rússar hefðu staðsett stórskotalið í nágrenni versins, sem gæti þá látið skothríð rigna yfir nágrannasveitir án þess að óttast skothríð til baka. „Það eru bara varðliðar við verið,“ sagði í yfirlýsingu ráðuneytisins.

Bandaríska NBC-sjónvarpsstöðin hafði hins vegar eftir heimildarmönnum sínum, úr úkraínsku leyniþjónustunni, að Rússar hefðu skipað starfsmönnum versins að mæta ekki til vinnu í dag. Því heyrðust vangaveltur um að Rússar kynnu að hafa í huga einhverjar aðgerðir við kjarnorkuverið, sem Úkraínumönnum yrði kennt um.

Sagði í yfirlýsingu leyniþjónustu úkraínska hersins að hún vissi til þess að fulltrúar Rosatom, rússnesku kjarnorkumálastofnunarinnar, hefðu yfirgefið verið í flýti í gær. Sakaði leyniþjónustan Rússa um að undirbúa „ögrun“ við verið, sem væri sérstaklega tímasett með það í huga að Guterres væri nú í heimsókn í Úkraínu.

SÞ verði að tryggja öryggi

Selenskí sagði eftir fund sinn með Guterres í gær að Sameinuðu þjóðirnar yrðu að tryggja öryggi versins og að svæðið í kringum það yrði gert herlaust. Bætti hann við að úkraínskir vísindamenn væru í stöðugum samskiptum við alþjóðakjarnorkumálastofnunina IAEA til að reyna að fá stofnunina til að senda eftirlitsmenn til versins.

„Rússneski herinn verður að yfirgefa kjarnorkuverið og nágrannasvæði þess og taka með sér hergögn sín frá verinu,“ sagði Selenskí og bætti við að það yrði að gerast sem fyrst og án nokkurra skilyrða.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í gær að hertaka Rússa á kjarnorkuverinu ógnaði öryggi þess og yki líkurnar á því að kjarnorkuslys ætti sér stað.

Kallaði Stoltenberg einnig eftir brottför Rússa frá verinu og því að IAEA sendi eftirlitsmenn þangað. Þá sakaði hann Rússa um að hafa komið stórskotaliði fyrir í nágrenni versins.