Uppgjör Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku.
Uppgjör Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hagnaður Kviku banka nam á fyrri helmingi ársins rúmum 1,7 milljörðum króna, samanborið við um fimm milljarða króna á sama tíma í fyrra. Hagnaður fyrir skatta nam tæpum 2,2 milljörðum króna og dregst saman um 2,5 milljarða á milli ára.

Hagnaður Kviku banka nam á fyrri helmingi ársins rúmum 1,7 milljörðum króna, samanborið við um fimm milljarða króna á sama tíma í fyrra. Hagnaður fyrir skatta nam tæpum 2,2 milljörðum króna og dregst saman um 2,5 milljarða á milli ára. Hagnaður á öðrum ársfjórðungi var um 430 milljónir króna. Bankinn hafði áður gert ráð fyrir hagnaði á bilinu 2,1–2,4 milljarða króna en í afkomuviðvörun, sem send var um miðjan júlí, kom fram að hann yrði töluvert minni.

Í uppgjöri sem birt var í gær kemur fram að arðsemi eigin fjár fyrir skatta var 10% og eigið fé samstæðunnar var um 79 milljarðar króna við lok tímabilsins. Hreinar fjárfestingatekjur voru neikvæðar um 91 milljón króna við „krefjandi aðstæður á eignamörkuðum“ eins og það er orðað í uppgjörstilkynningu. Hreinar þóknanatekjur námu um 3,2 milljörðum króna.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, segir í uppgjörstilkynningu að félagið skili jákvæðri afkomu á öðrum ársfjórðungi þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður. Afkoma Kviku banka á fyrri helmingi er heilt yfir í takt við væntingar stjórnenda bankans og þeirra markaðsaðila sem Morgunblaðið hefur rætt við. Aðstæður á mörkuðum hafa áhrif á fjárfestingatekjur bankans. Kvika hefur þó uppfært afkomuspá sína á ný og gerir nú ráð fyrir því að heildarhagnaður fyrir árið verði um 8,5 milljarðar króna og 9,8 milljarðar fyrir næstu fjóra ársfjórðunga.