Skortur Þar sem Dijon-sinnepið er vanalega að finna er nú allt tómt. Enn er þó hægt að næla sér í krukku af pólsku sinnepi og sælkerasinnepi Svövu.
Skortur Þar sem Dijon-sinnepið er vanalega að finna er nú allt tómt. Enn er þó hægt að næla sér í krukku af pólsku sinnepi og sælkerasinnepi Svövu. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við höfum því miður ekki náð að anna eftirspurn í ár.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við höfum því miður ekki náð að anna eftirspurn í ár. Við fáum aldrei nægjanlegt magn af vörum,“ segir Tinna Gunnlaugsdóttir, vörumerkjastjóri í matvörudeild ÓJK-ÍSAM sem flytur inn hið vinsæla Maille-sinnep frá Frakklandi.

Margir hafa komið að tómum hillum í kjörbúðum á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu sem alla jafna svigna undan ýmsum gerðum af Dijon-sinnepi. Dijon-sinnepið á sér marga aðdáendur enda þykir sú blanda, sem næst fram með því að láta brún sinnepsfræ liggja á hvítvíni, slá einstakan tón.

Skortur hefur verið á sinnepi í heiminum í ár en hann má að mestu rekja til mikilla þurrka í Kanada. Þar í landi eru framleidd um 80% af öllum sinnepsfræjum í heiminum. Stríðið í Úkraínu spilar enn fremur inn í skortinn því þar er framleitt talsvert af hvítum sinnepsfræjum, sem notuð eru í gult sinnep og breskt sinnep. Eftir að hvítu fræin urðu ófáanleg sóttu margir framleiðendur í þau brúnu sem Kanadamenn framleiða. Verðið þrefaldaðist og því hafa framleiðendur dregið saman seglin.

Tinna segir að skorturinn hafi verið viðvarandi allt þetta ár en það er fyrst núna sem hann bítur okkur Íslendinga. „Þetta er að koma í bakið á okkur núna. Vegna skorts á sinnepsfræjum er sinnepið skammtað á alla markaði. Við fáum um helmingi minna en við seljum venjulega. Þannig hefur þetta verið í ár. Þó við höfum reynt að stýra framboðinu kemur þetta í bylgjum. Við vildum ekki að allt væri búið í júlí og nú er útlit fyrir að það líti ágætlega út með framboð fyrir jólin,“ segir hún. Von er á sendingu af Maille-sinnepi eftir 1-2 vikur og þá ætti að vera hægt að næla sér í krukku í flestum búðum. Ljóst er þó að það verður ekki fyrr en á nýju ári sem framleiðslan kemst í samt horf og fólk getur gengið að tryggum birgðum.

„Fólk þarf að fylgjast með þegar næsta sending kemur. Svo fáum við aftur magn fyrir jólin. Það eru sterkar hefðir sem sinnepið er hluti af og við stílum vísvitandi inn á að hægt sé að halda í þær,“ segir Tinna Gunnlaugsdóttir.