Fátt er betra en að finna sína réttu hillu í lífinu. Þetta veit Fanney Dóra Sigurjónsdóttir manna best en hún starfaði sem félagsráðgjafi þegar hún ákvað að breyta algjörlega um stefnu í lífinu og elta drauminn um að verða kokkur.
Í dag á hún og rekur veitingastaðinn Hnoss í Hörpu og sér ekki eitt augnablik eftir því að hafa tekið stökkið á sínum tíma:
„Ég kem úr matarfjölskyldu og alltaf mikið um kræsingar þegar við komum saman. Pabbi er frábær grillari, mamma iðin við að baka brauð og kökur og ömmur mínar báðar svakalegir snillingar í eldhúsinu. Ég elst því upp í kringum matseld og komst upp á lag með að vinna mér inn aukatekjur á eldhúsum veitingastaða,“ segir hún. „Þegar ég vann sem félagsráðgjafi á Akureyri vann ég rúmlega aðra hverja helgi sem aðstoðarmaður í eldhúsinu á stöðum á borð við Friðrik V. Ég man að þegar ég sótti um starfið þar þá afsakaði ég mig mikið yfir því að hafa ekki stundað neitt formlegt nám í matreiðslu en fékk það svar að það kæmi ekki að sök og að eftirsóknarverðustu starfskraftarnir væru þeir sem hefðu brennandi áhuga.“
Óvænt símtal
Fanney Dóra ólst upp á Ólafsvík en á menntaskólaárunum fluttist hún til Akureyrar og bjó á heimavist. „Ég var ekki með mjög skýra mynd af því hvað mig langaði að gera eftir stúdentspróf. Vissulega líkaði mér við þá tilhugsun að vinna í eldhúsi og svo hugleiddi ég líka á tímabili að læra viðskiptafræði sem ég sé í dag að hefði verið alveg galin hugmynd. Þá hafði ég líka mikinn áhuga á félagsráðgjöf og varð úr að það yrði skynsamlegasta leiðin fyrir mig,“ segi hún.Félagsráðgjöfin átti vel við Fanneyju Dóru, enda eru góð mannleg samskipti ein af hennar sterku hliðum. „Það kallaði líka á mig hvað starfið er fjölbreytt og hægt að nýta námið á marga vegu. Þá felur nám í félagsráðgjöf líka í sér að maður þarf að vinna mikið í sjálfum sér enda er maður í raun sjálfur vinnutólið. Þetta var krefjandi og gott nám og kenndi mér m.a. bætta samskiptafærni og hvernig ég ætti að nálgast alls konar fólk.“
Þetta var fyrir röskum tveimur áratugum og þurfti Fanney Dóra að setjast á skólabekk til að fá starfsréttindi sem félagsráðgjafi. Hún starfaði fyrst á sjúkrahúsinu á Akureyri, fór því næst yfir til heimaþjónustu bæjarins og loks í athvarf Rauða krossins fyrir geðfatlaða. Allan þennan tíma vann hún sem aðstoðarmaður í eldhúsi í aukastarfi og var afskaplega lukkuleg.
Svo gerðist það einn daginn að síminn hringdi og lífið tók nýja stefnu.
Eldað á lítilli eyju
„Ég fæ símtal frá fyrrverandi manni frænku minnar sem starfaði þá sem byggingatæknifræðingur í Noregi. Hann hafði komið að byggingaverkefni fyrir hótel og þar vantaði matreiðslumann. Hann hafði séð mig birta margar myndir af hinum ýmsu réttum á samfélagsmiðlum og hélt að ég væri fullnuma kokkur. Þetta var skömmu eftir bankahrun og launin í Noregi góð miðað við það sem bauðst á Íslandi á þessum tíma. Eigendur hótelsins vildu endilega ráða Íslending til starfa, enda fór það orð af okkur sem þjóð að vera röskir starfskraftar,“ segir Fanney Dóra söguna.Eftir stutt viðtal var henni boðið starfið og hélt Fanney Dóra að um væri að ræða stöðu aðstoðarmanns í eldhúsi. Kom það henni á óvart, þegar hún mætti á svæðið, að hún hefði í reynd verið ráðin sem aðstoðaryfirkokkur.
„Hótelið og veitingastaðurinn eru í pínulitlum bæ á eyju fyrir utan vesturströnd Noregs. Er veitingahúsið það sem helst laðar fólk að eyjunni og gestirnir aðallega Norðmenn sem koma siglandi á litlu snekkjunum sínum.“
Þegar Fanney Dóra hélt til Noregs stóð bara til að hún yrði þar í eitt sumar en úr varð að hún starfaði á litlu eyjunni í tvö og hálft ár.
Lág laun en dýrmæt reynsla
Ævintýrið var ekki búið því einn daginn sá Fanney Dóra auglýsta stöðu á einum af veitingastöðum Jamies Olivers í Bretlandi. „Eftir á að hyggja var þetta auðvitað fáránlegt: Þarna var ég á fertugsaldri og átti þriggja daga vaktafrí á miðju sumri. Það tók mig fjóra tíma að komast til Bergen, þaðan sem ég flaug til Lundúna, gisti eina nótt og tók svo strax daginn eftir prufuvakt á veitingastað og var boðið starfið í kjölfarið. Ég gisti aðra nótt í London, flaug svo aftur til Noregs daginn eftir og mætti á vakt strax sama dag.“Breski veitingastaðurinn greiddi mun lægri laun en sá norski en Fanney Dóra hafði lengi dáðst að sýn Jamies Olivers á matseld og næringu og áttaði sig á að starfinu gæti fylgt mjög dýrmæt þjálfun og reynsla. „Svo hjálpaði það mér að ég fékk mikla hvatningu frá móður minni sem hefur verið minn fjárhagslegi ábyrgðarmaður í gegnum lífið. Hún benti mér á að þó svo að launin væru ekki góð þá myndi ég sennilega alltaf sjá eftir því að hafa ekki gripið þetta tækifæri.“
Veitingastaðurinn sérhæfði sig í ítalskri matargerð og nýtti Fanney Dóra sér hve vel val staðið að símenntun starfsfólksins. „Í höfuðstöðvunum í Lundúnum var boðið upp á alls konar hagnýt námskeið í matseld, rekstri og starfsmannahaldi. Fyrirtækið borgaði fyrir lestarmiðann til London og þegar ég átti frídaga í vinnunni skaust ég iðulega á dagsnámskeið og eyddi svo kvöldinu með góðri vinkonu sem býr í borginni, áður en ég hélt aftur til baka.“
Eftir tvö og hálft ár til viðbótar snéri Fanney Dóra aftur til Íslands. Árið var 2014 og hún fann starf hjá veitingastaðnum Slippnum. Þá fékk hún raunfærnimat hjá Iðunni símenntun og kom í ljós að það vantaði sáralítið upp á að hún gæti lokið sveinsprófi í matreiðslu. „Ég hafði haft þennan möguleika á bak við eyrað lengi og var á þessum tímapunkti komin með næga starfsreynslu til að gangast undir raunfærnimat. Það eina sem mig vantaði voru nokkur fagtengd námskeið, eins og matseðlafræði og matreiðslufranska og útskrifaðist ég með sveinspróf 2017. Þá tók ég mér hálfs árs hlé frá námi til að ganga til liðs við kokkalandsliðið og lauk á endanum meistaranámi í matreiðslu 2019.“
Komin í draumastöðu
Fanney Dóra opnaði Hnoss í ágúst 2021 og játar hún að af og til finnist henni erfitt að trúa því hvernig draumurinn hefur ræst. „Þetta hefur verið erfið vegferð en um leið það skemmtilegasta sem ég hef gert. Það gerist stundum að loddaralíðanin (e. impostor syndrome) gerir vart við sig hjá mér en þá bendir fólkið í mínu baklandi mér á að skoða hversu miklu ég hef áorkað undanfarin ár og hvað gamla Fanney Dóra, sem stóð stöku helgarvaktir í eldhúsi á Akureyri væri ánægð með það sem ég hef gert.“Þó svo hún hafi breytt algjörlega um starfsvettvang segir Fanney að hennar upplifun sé ekki í þá veru að nám hennar og störf sem félagsráðgjafi hafi farið í vaskinn. Þvert á móti hefur sú reynsla haldið áfram að nýtast henni sem stjórnanda: „Þegar maður hefur umsjón með eldhúsi margborgar sig að vera góður í samskiptum og samningatækni. Átti það sérstaklega við um Bretland. Þar var samstarfsfólkið af öllu mögulegu tagi: sumir í neyslu; sumir flóttamenn, sumir sem höfðu engan áhuga á að hafa konu sem yfirmann, og allir með ólikan bakgrunn og þarfir. Síðast en ekki síst breytti námið mér sjálfri til hins betra og þar eignaðist ég yndislegar vinkonur sem sátu með mér á skólabekk.“
Spurð um hvaða ráðum hún myndi vilja deila með fólki, sem langar að breyta um stefnu, segir Fanney Dóra að það hafi alls ekki verið sársaukalaust að taka stökkið á sínum tíma. „Mér leið vel á Akureyri og átti þar mína íbúð og vinahóp. Ein vinkonan orðaði það þannig við mig að ég ætti ekki að vera hrædd við að prufa og að ef ég skiti upp á bak og kæmi aftur heim með skottið á milli lappanna, þá væru allir búnir að gleyma því tveimur mánuðum síðar,“ segir hún. „Peningahliðin kom aldrei inn í myndina, og ég hef aldrei verið peningalega þenkjandi í vali mínu á störfum en ég man þó eftir því að hafa hugsað, þegar ég var búin að vinna í Noregi í nokkrar vikur, að mér fannst ég ekki vera að vinna heldur var ég að gera það sem mér þykir skemmtilegast allan daginn – og fá borgað fyrir það.“
Fanney Dóra segir líka að ef það gerist einhvern tíma að hún þreytist á að vera kokkur muni hún ekki víla fyrir sér að breyta til. „Ef það sem maður gerir veitir manni ekki gleði, þá á maður að gera eitthvað annað. Ef við erum ekki ánægð í vinnunni þá eigum við einfaldlega að flytja okkur um set – við erum ekki tré! Fjárhagslegar skyldur ættu ekki heldur að stoppa fólk, því peningarnir koma og fara hvort eð er alltaf á endanum.“