Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Mynd er nú að komast á mikla uppbyggingu í Árskarði í Kerlingarfjöllum þar sem verið er að reisa hálendismiðstöð og hótel með um 30 herbergjum. Fyrirtækið Íslenskar heilsulindir ehf. stendur að þessu verkefni en til þess verður kostað nokkru á annan milljarð króna.
Ný hús og gömlum breytt
Mannvirki sem fyrir voru á svæðinu eru tekin ofan eða þeim breytt í samræmi við nýjar kröfur. Alls verða byggingar um 2.500 fermetrar og við hönnun þeirra var þess sérstaklega gætt að þær féllu vel inn í náttúru og svip staðarins.Húsin sem nú er verið að reisa í Árskarði eru þjónustubygging og hótel. Nærri þeim verður ýmis aðstaða til afþreyingar, meðal annars baðlaugar. Þar eru heimatökin hæg, enda eru Kerlingarfjöll mikið háhitasvæði. Verður nú gerð gangskör í vatnsöflun fyrir svæðið, en þangað er þegar kominn ljósleiðari og ýmsar þær tengingar sem krafist er í nútímanum.
Einstök náttúra í fjöllunum
Í fyrirtækinu Íslenskum heilsulindum ehf. fer Bláa lónið með stærsta hlutinn. Þá eru hluthafar Eldey-Kynnisferðir og fjárfestingasjóður Landsbréfa Icelandic Tourism Fund. Einnig eru með í taflinu eigendur Fannborgar ehf.; menn sem fyrr á tíð og til áratuga ráku skíðaskóla í Kerlingarfjöllum, vinsæla og virta starfsemi. Á þeim grunni er uppbygggingin á svæðinu nú, hvar byggð er glæsileg aðstaða með þægindagistingu sem ætlað er að mæta óskum og væntingum kröfuharðra gesta. Alls verður á hótelinu gistirúm fyrir um 100 manns – og allt á að verða tilbúið í sumarbyrjun á næsta ári.„Kerlingarfjöll eru stórkostlegur staður; náttúran hér er einstök og endalaust ber hér eitthvað nýtt fyrir augu fólks,“ segir Magnús Orri Marínarson Schram, framkvæmdastjóri Íslenskra heilsulinda. Undirbúning Kerlingarfjallaverkefnins segir hann hafa tekið mörg ár, enda að mörgu að hyggja við mannvirkjagerð inni á hálendinu. Náttúra svæðisins sé viðkvæm og í öllu tilliti þurfi framkvæmdir að taka mið af þeim aðstæðum.
Basalt arkitektar og ítalska hönnunarfyrirtækið Design Group Italia hönnuðu byggingarnar nýju, sem að hluta til eru reisar þar sem áður voru litlir gistiskálar, svonefndar nýpur. Þær hafa nú verið fluttar niður á áreyrarnar þarna skammt frá. Þar verða jafnframt útbúin tjaldstæði.
Friðlýsing Kerlingarfjalla tók gildi fyrir tveimur árum og skv. henni eru undir alls 344 km². Svæðið þykir hafa mikið verndargildi og er því sinnt af Umhverfisstofnun, sem meðal annars er með landverði á svæðinu.