Ingjaldur Indriðason, fyrrv. útgerðarbóndi og bílstjóri, fæddist á Stóra-Kambi í Breiðuvík á Snæfellsnesi 11. apríl 1941. Hann lést á Landspítalanum 8. ágúst 2022.
Foreldrar hans voru Indriði Sveinsson, f. 23. júní 1889, og Guðfinna Björg Lárusdóttir, f. 29. nóvember 1901, bæði látin.
Hinn 21. apríl 1966 kvæntist Ingjaldur eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingveldi Guðfinnu Þórarinsdóttur, f. 21. apríl 1948. Foreldrar hennar voru Þórarinn Bjarnfinnur Ólafsson, f. 12. júlí 1920, og Guðjóna Jakobsdóttir, f. 25. júní 1925, bæði látin. Börn Ingjalds og Ingveldar eru: 1) Berglind Sonja Davis innanhússarkitekt, f. 14. september 1966, gift Steven Davis. Þau eiga einn son. 2) Indriði Sveinn rekstrarstjóri, f. 24.8. 1969, í sambúð með Josephine Østern. Hann á þrjú börn. 3) Arnheiður Elísa viðskiptafræðingur, f. 5.11. 1975, gift Júlíusi Helga Schopka. Þau eiga tvö börn. 4) Guðfinna Eyrún mannauðsstjóri, f. 7. mars 1980, gift Ólafi Gunnarssyni. Þau eiga fjögur börn. Ingjaldur átti eitt barnabarnabarn.
Ingjaldur lauk prófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri og starfaði framan af við bústörf á Stóra-Kambi og útgerð. Þau hjónin fluttu til höfuðborgarinnar árið 1987 og starfaði Ingjaldur þar sem bílstjóri og síðar leigubílstjóri fram til starfsloka.
Útför Ingjalds fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 19. ágúst 2022, kl. 10.
Fyrstu kynni mín af Inga tengdapabba voru fyrir aldarfjórðungi þegar við Arnheiður eiginkona mín vorum að hefja okkar kynni. Hann hafði þá um áratug áður flutt í borgina með fjölskyldu sína frá Stóra-Kambi í Breiðuvík á Snæfellsnesi. Þar ráku tengdaforeldrar mínir lengi vel myndarlegt bú en færðu sig seinna meir yfir í útgerð. Þegar aðstæður í þjóðfélaginu breyttust undir lok níunda áratugar síðustu aldar tóku þau sig upp, seldu jörðina og fluttu til borgarinnar. Ég hafði ekki þekkt þau hjón lengi þegar mér varð ljóst hversu vel þeim hafði liðið fyrir vestan og að þar slógu hjörtu þeirra enn, þótt þau væru flutt á mölina. Þær voru óþrjótandi sögurnar sem þau gátu sagt af sveitungum sínum og samferðafólki frá þessum tíma. Sömuleiðis átti Ingi margar og skemmtilegar sögur af sjónum sem oft fengu að heyrast við kvöldmatarborðið. Eftir að þau fluttu suður starfaði Ingi lengst af sem bílstjóri, fyrst hjá Íslensku auglýsingastofunni og síðar sem leigubílstjóri og stundaði hann leigubílaakstur fram á miðjan áttræðisaldur.
Ingi var mikill rólyndismaður, hæglátur og orðvar. Undir yfirborðinu leyndist þó húmoristi með miklar skoðanir. Inga féll aldrei verk úr hendi. Honum leið best þegar hann hafði eitthvað við að vera og alltaf hafði hann einhver áform og hugmyndir. Þau eru ófá áhugamálin sem hann reyndi við um dagana. Hann hafði mikinn áhuga á og spilaði bridds. Áttræður byrjaði hann að spila golf og náði ótrúlegum árangri enda ástundunin mikil. Það voru dýrmætar stundir sem hann átti með dætrum sínum á golfvellinum. Stangveiði hafði hann gaman af og veiddi maríulaxinn sjötugur í Elliðaánum. Ingi hafði yndi af ferðalögum og þau hjónin ferðuðust víða erlendis, m.a. á skemmtiferðaskipum. Á seinni árum ferðuðust þau mest innanlands, ýmist á hjólhýsi eða húsbíl. Í þeim útilegum hittum við þau oft og þá var gjarnan spilað á spil sem hann hafði mikið yndi af. Nýjasta hugmynd Inga var að prófa sjóstangaveiði og hann hafði útvegað sér allar græjur í það. Því miður náði hann aldrei að prófa þær.
Ingi byggði sér og Ingu lítið sumarhús við Flúðir í Biskupstungum og þar dvöldu þau töluvert og leið vel. Hún fór þangað til að njóta sveitakyrrðarinnar, lesa og hvíla sig. Hann gat þó ekki setið auðum höndum, hann byggði við húsið og byggði stórt geymsluhús og gróðurhús, ræktaði þar grænmeti og ber. Berin sultaði hann og hindberjasultan hans Inga afa þykir barnabörnunum besta sulta í heimi.
Sl. vor viðraði Ingi við okkur hjónin þá hugmynd að kaupa lítinn bát og fara á strandveiðar. Datt honum í hug að sonur okkar, 18 ára, gæti viljað koma með honum nokkra róðra til að verða sér úti um pening. Þetta var þrátt fyrir að á þessum tíma væri sjúkdómur Inga orðinn býsna langt genginn og farið að verða ljóst í hvað stefndi. Þetta fannst mér lýsa tengdapabba vel. Vinnusamur fram á síðasta dag og veikindin voru ekki eitthvað sem ætlaði að láta stöðva sig.
Ég kveð Inga tengdapabba með mikinn söknuð í hjarta. Blessuð sé minning hans.
Júlíus Helgi Schopka.
Ingjaldur hafði ákveðnar skoðanir á þjóðmálum. Hann setti mál sitt fram með afar rökvissum hætti og er ekki laust við að skoðanir okkar félaga á kvótakerfinu hafi smám saman hneigst í átt til þess sem hann taldi réttlátt og sanngjarnt. Það eru forréttindi að hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vera samferða- og samverkamenn Ingjaldar Indriðasonar.
Jónas Ólafsson,
Ólafur Ingi Ólafsson.