Sigrún segir hægt að leita fanga í aðferðum forfeðra okkar til að finna sjálfbærari lausnir.
Sigrún segir hægt að leita fanga í aðferðum forfeðra okkar til að finna sjálfbærari lausnir. — Ljósmynd / Hallormsstaðaskóli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undanfarin þrjú sumur hefur Sigrún Hanna Þorgrímsdóttir búið í tjaldi og aldrei sofið betur. Hún heldur utan um áhugavert sjálfbærni- og nýsköpunarnám við Hallormsstaðaskóla. Ásgeir Ingvarsson | ai@mbl.is

Sigrún Hanna Þorgrímsdóttir er eins og blóm í eggi á Hallormsstað en hún tók nýlega við stöðu fagstjóra hjá Hallormsstaðaskóla.

Hún þekkir svæðið vel því maðurinn hennar, Eysteinn Ari Bragason, er frá þessum slóðum og hafa þau verið dugleg að verja sumrunum á Austurlandi. „Hér í umhverfi skólans er svo dásamlegt að vera og endurnærandi að búa í námunda við trén og lífríkið. Svæðið hentar líka mjög vel til útivistar og hægt að finna fjölda spennandi göngu- og hlaupaleiða.“

Tjaldlífið bjargaði heilsunni

Sigrún og Eysteinn eru bæði þjóðfræðingar. Hún er í doktorsnámi við Gautaborgarháskóla en hann starfar um þessar mundir við þverfaglegt rannsóknarverkefni sem leitt er af Valdimari Tr. Hafstein þjóðfræðingi og styrkt af Rannís, sem fjallar um samlíf manna og örvera.

„Undanfarin þrjú sumur höfum við hreinlega búið í tjaldi hérna í skóginum, í Fellunum eins og það heitir, og höfum fundið mjög greinilega hvað það gerir okkur gott. Við byggðum lítinn pall og reistum á honum tjald fyrir okkur fjölskylduna og erum með góða dýnu til að sofa á – það mætti kalla þetta „glamping“ – en þarna höfum við sem sagt hafst við í öllum veðrum og vöknum við fuglasöng. Við elskum að vera hérna og ég held ég hafi aldrei sofið betur.“

Segir Sigrún að náttúran hafi hreinlega bjargað heilsunni. „Fyrir tveimur árum var álagið í námi mínu og störfum orðið mikið og ég var farin að finna að ég væri bara korter frá kulnun. Svo kom ég hingað yfir sumarið og fann hvernig ég endurnærðist og álagsmígrenið, sem hafði plagað mig í heilan vetur, hvarf.“

Nám með endalausa möguleika

Sem fagstjóri ber Sigrún ábyrgð á akademíska hluta námsins við Hallormsstaðaskóla en skólinn býður upp á þverfaglegt 60 eininga nám í sjálfbærni og sköpun. Námið, sem spannar heilan vetur, samsvarar fyrsta ári á háskólastigi. Sigrún segir að námið ætti ekki hvað síst að höfða til fólks sem hefur lokið háskólagráðu og langar að dýpka þekkingu sína. „Möguleikarnir eru nánast ótæmandi og nemendur geta mótað námið að miklu leyti eftir eigin hugðarefnum. Námið felst ekki síst í því að kafa ofan í íslenskt handverk og handverksmenningu og flétta saman við sjálfbærni og umhverfismál,“ segir Sigrún en námið hefur verið í boði frá árinu 2019 og vakið mikla lukku. Upp úr náminu hafa sprottið mjög fjölbreytt og áhugaverð verkefni sem sum hafa orðið vísir að fyrirtækjarekstri.

Nemendur búa á heimavist og býður skólinn þeim upp á þrjár máltíðir á dag: „Hér getur fólk verið í þessu góða umhverfi og þarf ekki að hugsa um annað en að sökkva sér ofan í námið og vinna að því sem þeim finnst mest spennandi.“

Gagnrýnin menningararfs- og handverksfræði eru sérsvið Sigrúnar og segir hún að í samfélaginu og atvinnulífi megi greina æ ríkari skilning á mikilvægi handverks fyrri tíma. „Gömlu aðferðirnar geta kennt okkur margt og ættu t.d. að nýtast okkur til að umgangast umhverfi okkar með öðrum hætti,“ segir hún. „Um leið fléttast þessi fræði saman við þá spurningu hvort best sé að varðveita þennan arf á safni og í bókum, og þannig frysta þekkinguna í tíma, eða hvort að við getum haldið gamla handverkinu á lífi og brætt það saman við eitthvað nýtt og nýtilegt.“

Sigrún bendir líka á að sú þróun sem á sér stað í sjálfbærni leiti oft fanga í gömlum aðferðum. „Það er að koma í ljós að vinnubrögð og þekking sem hefur mótast í margar aldir geta haft mikið gildi, og margt af þessu gamla kallar á það að því sé haldið við, til jafns við það nútímalega.“

Skólinn breytist í takt við samfélagið

Hallormsstaðaskóli á sér merkilega sögu og hefur skólastarfið alla tíð mótast af metnaði og framsýni. „Skólinn var stofnaður árið 1930 af hjónunum Sigrúnu og Benedikt Blöndal,“ segir Sigrún Hanna söguna. „Áður höfðu Sigrún og Benedikt unnið saman á Alþýðuskólanum á Eiðum en mislíkaði um margt sú stefna sem kennslan var að taka þar. Skólinn á Hallormsstað var einstakur og framúrstefnulegur og bauð konum af landinu öllu upp á bóklegt og verklegt nám á mjög háu plani. Námið var tveggja ára og langt umfram það að vera húsmæðraskóli.“

Sigrún bendir á að kennsla við húsmæðraskóla á 4. áratug síðustu aldar hafi tekið mið af því að íslensk heimili þurftu að vera sjálfum sér næg um flestar lífsins nauðsynjar. „Á þessum tíma var ekkert sem hét að fara út í búð og fylla körfu af mat eða tilbúnum fatnaði og fólk þurfti að gera flesta hluti sjálft frá grunni og hlúa vel að því sem til var. Ekkert mátti fara til spillis. Hér var stúlkunum t.d. kennt að vinna úr mjólkurafurðum og framleiða önnur matvæli og þegar námsskráin er skoðuð sést að lögð var rík áhersla á vinnubrögð sem myndu tryggja að afurðirnar væru öruggar til neyslu og hráefni skynsamlega nýtt,“ segir hún. „Samhliða þessu lærðu nemendur m.a. matarefnafræði, eðlisfræði, íslensku, ensku og dönsku. Hjónin héldu hér fyrirlestra um menningu og sögu og hér voru lesnar heimsbókmenntir á baðstofukvöldum í Höllinni, sem er samkomurými skólans.“

Námið hefur breyst í takt við þarfir samfélagsins en handverksþekking hefur samt verið rauður þráður í skólastarfinu allt frá upphafi. „Hallormsstaðaskóli er ekki lengur húsmæðra- eða hússtjórnarskóli en við höldum í þá hefð að fræða nemendur um handverk og veita þeim góða efnisþekkingu. Hér lærir fólk t.d. að nýta jurtir til að lita ull, búa til mozzarella-ost frá grunni og fræðist um nýtingarmöguleika iðnaðarhamps. Þá býr skólinn að ýmsum tækjum og tólum, t.a.m. baðstofu sem er full af vefstólum þar sem nemendur geta unnið við keimlíkar aðstæður og þekktist á baðstofum fortíðarinnar.“

Höf.: Sigrún Hanna Þorgrímsdóttir