Meistaradeild
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Valur er komið áfram í úrslit 1. umferðar Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu eftir nokkuð þægilegan sigur gegn Hayasa frá Armeníu í undanúrslitum fyrstu umferðarinnar í Radenci í Slóveníu í gær.
Valskonur brutu ísinn strax á 14. mínútu þegar Cyera Hintzen kom Val yfir með frábæru einstaklingsframtaki og staðan því 1:0 í hálfleik.
Mariana Speckmaier innsiglaði svo sigur Vals með marki úr vítaspyrnu á 90. mínútu en Speckmaier fiskaði vítaspyrnuna sjálf og skoraði af miklu öryggi úr henni.
„Ég er ótrúlega ánægð með að hafa klárað leikinn 2:0, að hafa skorað tvö mörk og að við fengum ekki á okkur mark. Þær voru sprækar og áttu leikmenn uppi í erminni, sem kom okkur kannski ekki beint á óvart, en við vissum svo lítið um þær.
Ég er bara ánægð með það hvernig við mættum í leikinn, við mættum af krafti og hefðum getað sett á þær fleiri mörk fyrstu 15 mínúturnar,“ sagði Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, í samtali við Morgunblaðið eftir leikinn.
Valur mætir Írlandsmeisturum Shelbourne í úrslitaleik um sæti í 2. umferð keppninnar hinn 21. ágúst í Radenci en Shelbourne vann Pomurje frá Slóveníu 1:0 í hinu undanúrslitaeinvíginu í Radenci í gær.
„Við settum allan fókus á Armenana fyrir þann leik. Svo spilast seinni leikurinn milli Pomurje og Shelbourne í dag [í gær].
Við sendum sennilega okkar fólk á staðinn og þá verðum við með góðar upplýsingar í höndunum um það við hverju má búast í næsta leik,“ bætti Elísa við í samtali við Morgunblaðið.
Þrjú mörk á fyrstu mínútunum
Breiðablik mun ekki endurtaka leikinn í ár og spila í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, líkt og í fyrra, eftir tap gegn Rosenborg frá Noregi í Þrándheimi í Noregi í gær.
Leiknum lauk með 4:2-sigri norska liðsins en Emilie Nautnes, framherji Rosenborgar, reyndist Blikum erfiður ljár í þúfu.
Nautnes skoraði þrennu í leiknum en Rosenborg var komið í 3:0 eftir 18 mínútna leik og norska liðið bætti svo við fjórða markinu, strax í upphafi síðari hálfleiks, áður en Blikum tókst að minnka muninn í 2:4 með mörkum frá þeim Natöshu Anasi og Helenu Ósk Hálfdánardóttur.
Selma Sól Magnúsdóttir, sem gekk til liðs við Rosenborg frá Breiðabliki í janúar á þessu ári, lék fyrstu 90 mínútur leiksins og átti þátt í tveimur fyrstu mörkum norska liðsins en Rosenborg mætir Minsk frá Hvíta-Rússlandi í úrslitaleik um sæti í annarri umferðinni.
„Við erum öll svekkt með niðurstöðu dagsins og þá sérstaklega hvernig við byrjuðum leikinn,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við Morgunblaðið.
„Þetta var því miður allt of auðvelt fyrir þær í upphafi leiks og þær náðu fjórum snöggum upphlaupum á þessum fyrstu mínútum. Þær skoruðu þrjú mörk úr þeim og áttu svo eitt sláarskot. Þú getur svo ekki ímyndað þér hversu pirrandi það var að fá þetta fjórða mark á sig strax í upphafi síðari hálfleiks.
Þá komu upp aðstæður sem við réðum ekki við því Heiðdís Lillýardóttir gat ekki haldið leik áfram þegar hún var komin inn á völlinn. Við gátum ekki gert skiptingu og við vorum því einni færri fyrstu fjórar mínúturnar í síðari hálfleik. Þær skoruðu strax eftir tveggja mínútna leik og þetta reyndist því ansi dýrkeypt,“ sagði Ásmundur meðal annars en Blikar mæta Slovácko frá Tékklandi í leik um 3. sæti riðilsins í Þrándheimi.
Brann og Juventus áfram
Þá áttu Íslendingaliðin í Meistaradeildinni misjöfnu gengi að fagna en þjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir og lið hennar, Kristianstad frá Svíþjóð, er úr leik eftir 1:3-tap gegn Ajax frá Hollandi í Hjörring í Danmörku.
Leiknum lauk með 3:1-sigri Ajax en Amanda Andradóttir kom inn á sem varamaður hjá Kristianstad á 73. mínútu á meðan Emilía Óskarsdóttir sat allan tímann á varamannabekk sænska liðsins. Kristianstad mætir Fortuna Hjörring í leik um 3. sætið í Hjörring.
*Svava Rós Guðmundsdóttir kom inn á sem varamaður hjá norska liðinu Brann á 66. mínútu þegar liðið lagði AGL Spor frá Tyrklandi en leikið var í Backa Topola í Serbíu.
Leiknum lauk með 1:0-sigri Brann en Berglind Björg Þorvaldsdóttir var ónotaður varamaður hjá norska liðinu í leiknum. Brann mætir Spartak Subotica í úrslitaleik um sæti í 2. umferðinni í Serbíu.
*Þá eru Sara Björk Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í ítalska stórliðinu Juventus komnar áfram í úrslitaleik 1. umferðarinnar eftir þægilegan sigur gegn Racing Lúxemborg í Tórínó.
Sara Björk byrjaði á varamannabekk ítalska liðsins en kom inn á á 58. mínútu í stöðunni 3:0, Juventus í vil, en leiknum lauk með 4:0-sigri ítölsku meistaranna.
Juventus mætir Kiryat Gat frá Ísrael í úrslitaleik í Tórínó.