Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagði í gær að hún hefði ekkert á móti því að gangast undir vímuefnapróf, eftir að myndbandsupptökur af henni í heimateiti vöktu gagnrýni.
Í upptökunum má sjá forsætisráðherrann dansa með vinkonum sínum og viðurkenndi Marin að áfengi hefði verið haft um hönd. Upptökunum hefur verið dreift víða á samfélagsmiðlum, og munu einhverjir af gagnrýnendum hennar hafa gert því skóna, að þar heyrist vísanir til notkunar vímuefna.
Marin neitaði þeim ásökunum hins vegar harðlega. „Ég hef ekkert að fela. Ég hef ekki notað vímuefni og hef þess vegna engar mótbárur gegn því að taka próf,“ sagði Marin á blaðamannafundi sínum í gær. Þá ítrekaði hún að hún hefði aldrei orðið vitni að neyslu vímuefna.
Sagði Marin að myndböndin hefðu verið tekin í hópi vina, og hefðu þau ekki verið hugsuð til opinberrar dreifingar. Sagðist hún hafa áhyggjur af því að þeim hefði verið lekið.
Antti Lindman, þingflokksformaður sósíaldemókrata, varði Marin í gær og sagðist ekki sjá neitt athugavert við að fólk dansaði í heimahúsum með vinum sínum. Sumir af stjórnarandstæðingum hafa hins vegar sagt framferði Marin óviðunandi fyrir manneskju sem jafnframt gegni hlutverki þjóðarleiðtoga Finna.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Marin, sem er 36 ára gömul, er gagnrýnd fyrir einkalíf sitt, en hún þurfti að biðjast afsökunar í desember síðastliðnum á að hafa sótt öldurhús í Helsinki, þrátt fyrir að hún vissi að hún hefði verið í samskiptum fyrr um daginn við einn ráðherra sinn, sem greinst hafði með kórónuveiruna.