Þorvaldur Jóhannsson
Þorvaldur Jóhannsson
Eftir Þorvald Jóhannsson: "Krafan er: Ásættanleg lausn svo að þær bráðnauðsynlegu framkvæmdir í vegamálum sem bíða á Íslandi öllu sjái dagsins ljós sem fyrst."

Stefnt er á að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjist seint á næsta ári. Umhverfismat og annar lokaundirbúningur eru nálægt áætlun og útboð fyrirhugað fyrir áramót. Löng, ströng og oft erfið barátta heimamanna allt frá árinu 1975 þegar Smyril-Line hóf siglingar á sumrin með bíla og ferðafólk frá Evrópu til Seyðisfjarðar og breiður stuðningur sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) og stjórnvalda nú hin síðari ár eru að skila þessu stóra verkefni loksins í höfn. Seyðisfjörður er í sveitarfélaginu Múlaþingi og sækir sína þjónustu mest yfir Fjarðarheiðina í Egilsstaði.

Stjórnvöld, í samvinnu við sveitarfélögin á Austurlandi, hafa forgangsraðað og sett Fjarðarheiðargöng í forgang. Í framhaldinu er stefnan sett á 5,5 km göng til Mjóafjarðar, þaðan 6,2 km göng áfram í Fannardal í Fjarðabyggð. Þar með er lokið hringtengingu M-fjarðanna við Héraðið sem lengi hefur verið rætt um.

Orðræðan um jarðgangaframkvæmdir hér á landi hefur oft verið áköf og tilfinningarík. Sitt sýnist hverjum enda um stórverkefni að ræða sem kostar mikla fjármuni. Þau auka lífsgæði þeirra er fá að njóta, hafa því verið eftirsótt og fast er sótt en færri fá en vilja. Eðlilegt er því að ýmsir hafi á þeim skoðanir. Stjórnvöld og sveitarfélög í landshlutunum hafa í samvinnu unnið að forgangsröðun þeirra.

Óþolinmæði hefur gætt í umræðunni og þung orð fallið. Fjölmiðlar sitja ekki hjá. Þrífast á stórum fyrirsögnum með stríðsletri sem selur. Voru það ekki bændur á Suðurlandi sem fjölmenntu í hópreið til Alþingis og mótmæltu ritsímanum þegar hann kom í land á Seyðisfirði 1906? Hver man ekki umræðuna og skrifin um Hvalfjarðargöngin sem áttu að drekkja fjölda manns. Sérfræðingur einn sem fór mikinn sá sig knúinn til að flýja land! Héðinsfjarðargöngin, kölluð „ljóta kjördæmapotið“, fengu heldur betur sinn skammt. Neikvæð og oft hatrömm orðræða og skrif um „galin og arfavitlaus“ Vaðlaheiðargöngin eru enn í fersku minni. Allar þessar framkvæmdir hafa sannað tilverurétt sinn og þjóna nú landsmönnum vel.

Nú þegar Fjarðarheiðargöngin eru komin í lokaundirbúning fyrir útboð heyrast efasemdir, úrtölur og fullyrðingar, m.a. um réttmæti þess að fara í slíka stórframkvæmd fyrir aðeins 650 íbúa! Færeyska leiðin svonefnda, gjaldtaka, sem er ein leið til skoðunar að hlutafjármögnun flýtiframkvæmda í vegagerð á Íslandi, sögð fundin upp af ráðherra fyrir Fjarðarheiðargöngin ein. Þau eiga svo að gleypa innkomu allra ganga næstu áratugi. Spurt hefur verið: Hvað með hinar sem nú eru lagðar af stað; s.s. Öxi, Hornafjarðarfljót, Ölfusárbrú, Sundabraut, borgarlínu o.fl.?

Taka verður sérstaklega fram í allri þessari umræðu, m.a. haft eftir samgönguráðherra, að ekki er fullmótað eða frágengið hvernig gjaldtöku verður háttað. Tími er til stefnu og vanda þarf til verka. Blönduð gjaldtaka, s.s. kílómetragjald á alla umferð á íslenskum vegum og göngum, hljómar ekki illa í eyrum margra, t.d. nú við breytta eldsneytisnotkun bílaflotans. Eigum við ekki að bíða með stóru orðin þar til útfærslan liggur fyrir?

Heiðarvatnið á Fjarðarheiðinni, sem hefur verið þar stöðugt í aldir, rennur niður í göngin hefur verið haldið fram. Af hverju er það þá ekki löngu horfið ef bergið er svona lekt? Margra ára ítarlegar rannsóknir á gangaleiðinni sýna m.a. að þéttleika bergs í Fjarðarheiðargöngum svipar mjög til Fáskrúðs- og Norðfjarðarganga. Leki var ekki vandamál þar.

Lengstu eða næstlengstu göng í heimi? Rétt er það að Fjarðarheiðargöng verða lengstu veggöng á Íslandi. Þau eru þó helmingi styttri en Lærdalsgöngin í Noregi, sem voru opnuð umferð fyrir 22 árum eða árið 2000, og litlu lengri en ný neðansjávargöng í Færeyjum til Sandeyjar. Þeir eru með í undirbúningi lengri neðansjávargöng (17-26 km) áfram til Suðureyjar. Lengd Fjarðaheiðarganga, 13,4 km, er ekki vandamál á því herrans ári 2023. Tækni og lausnum fleygir fram í nútímagangagerð eins og á svo mörgum öðrum sviðum.

Svonefndar flýtiframkvæmdir líða fyrir það í umræðunni að ekki liggur fyrir hvernig gjaldtöku verður háttað til að mæta hluta framkvæmdakostnaðar. Nú þarf nýja nálgun sem á að ná til allra þeirra sem njóta veganna okkar, þ.á m. jarðganga. Nýir skattar eru ekki vinsælir hjá þeim sem eiga að borga. Síst þeir sem hafa verið gjaldfrjálsir hingað til. En nú skal eitt yfir alla ganga sem njóta. Það hefur kallað fram hörð viðbrögð í nokkrum byggðarlögum á landsbyggðinni sem í dag búa við það lán að hafa fengið samgöngubætur sínar, jarðgöng, sem þjóðin borgaði 100%.

Krafan er: Ásættanleg lausn svo allar þær bráðnauðsynlegu framkvæmdir í vegamálum sem bíða á Íslandi öllu sjái dagsins ljós sem allra fyrst. Höldum áfram að sækja fram og styðja við þær sem víðast í okkar ágæta landi. Atvinnulífið, byggðirnar, börnin okkar og komandi kynslóðir þurfa sannarlega á þeim að halda.

Höfundur er eldri borgari, fv. bæjarstjóri og framkvæmdastjóri SSA. brattahlid10@simnet.is