Fallegur útsaumur fellur aldrei úr gildi.
Fallegur útsaumur fellur aldrei úr gildi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Langar þig að læra að sauma út og hætta allri matarsóun?

Langar þig að læra að sauma út og hætta allri matarsóun? Ef svo er þá gætu námskeið vetrarins í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík verið eitthvað fyrir þig því þar er hægt að fara á stutt námskeið sem geta aukið lífsgæði þín og hjálpað þér að spara peninga um leið. Marta María Winkel Jónasdóttir | mm@mbl.is

Textílkennarinn Katrín Jóhannesdóttir verður með spennandi námskeið í vetur. Þar má nefna nálabókanámskeið (skals-bróderí). Um er að ræða tvö skipti þar sem listin er kennd í alls sex klukkutíma. Í vetur verður líka hægt að komast í útsaumshóp sem hittist einu sinni í mánuði í alls fjóra mánuði og vinnur að stærri verkefnum eins og vöggusetti eða dúk. Ef þú ert týpan sem er alltaf að byrja á hannyrðum en á í erfiðleikum með að klára þá getur þú sótt námskeið þar sem ókláraðar hannyrðir eru kláraðar undir leiðsögn.

Viltu læra að steikja fisk í raspi?

Matreiðslukennarinn Guðrún Sigurgeirsdóttir verður með námskeið í vetur. Eitt af því er auðveld matreiðsla frá grunni. Um er að ræða þriggja kvölda námskeið. Á fyrsta degi verður kennt að steikja fisk í raspi og ofnbaka fisk. Sjóða kartöflur, búa til remúlaði og ferskt salat. Á degi tvö verður hamborgari útbúinn frá grunni með heimabökuðu hamborgarabrauði eða pítubrauði. Þar verður hamborgarasósa og pítusósa löguð frá grunni og réttu handtökin kennd við að búa til eigin franskar frá grunni. Á degi þrjú verður fiskisúpa útbúin og partíbrauð og brauðstangir búin til.

Guðrún mun líka kenna þjóðlegan bakstur en þar eru öll trixin í bókinni kennd er viðkemur bakstri á pönnukökum og lummum. Þar verður líka kennt að gera lagtertu með smjörkremi og lagtertu með sultu. Á þriðja degi verða bakaðar kleinur.

Engin matarsóun!

Dóra Svavarsdóttir matreiðslukennari mun kenna fólki að minnka matarsóun á kvöldnámskeiðum. Þar verður fólki kennt að elda grænmetisrétti og fleira í þeim dúr og nýta það sem til er í ísskápnum.