Að byrja í grunnskóla markar nýjan kafla í lífi sérhvers barns. Foreldrar geta undirbúið börn sín undir þessi tímamót með ýmsu móti. Snæfríður Ingadóttir | snaeja@gmail.com
1. Heimsæktu skólann sem barnið á að byrja í svo barnið þekki umhverfið. Gangið saman um skólalóðina og leyfðu barninu að leika sér þar.

2. Ef barnið mun ganga í skólann þá þarf að æfa leiðina til og frá heimilinu með því. Taktu þér tíma í að ganga leiðina með barninu nokkrum sinnum.

3. Farðu yfir umferðarreglurnar með barninu. Þá er einnig gott að huga að endurskinsmerkjum í tíma.

4. Taktu barnið með þegar verið er að kaupa skólatösku, nestisbox og annað sem til þarf. Það getur verið gaman fyrir barnið að taka þátt í undirbúningnum.

5. Byrjaðu að trappa sumarfríið niður tímanlega og fáðu svefnrútínuna í lag hjá barninu. Skólinn krefst einbeitingar og því er góður svefn mikilvægur.

6. Ræddu við barnið um vinskap. Barnið þitt mun kynnast mörgum börnum í skólanum og mikilvægt er að vita hvernig best er að bera sig við þess að eignast nýja vini.

7. Æfðu barnið í að reima, renna og hneppa sjálft. Það að geta klætt sig úr og í án aðstoðar gefur barninu sjálfsöryggi. Barnið þarf einnig að geta farið sjálft á salernið.

8. Lestu fyrir barnið og ræðið innihaldið. Syngið saman, rímið og spilið borðspil. Allt er þetta góð æfing fyrir það sem koma skal í fyrsta bekk.

9. Merktu föt barnsins, tösku og aðrar eigur.

10. Kenndu barninu að undirbúa næsta dag áður en það fer að sofa á kvöldin, eins og það að taka til skólaföt og hafa skóladótið klárt í skólatöskunni. Góðar venjur í byrjun skólagöngu fylgja barninu í gegnum alla skólagönguna.