Emil Lúðvík Guðmundsson fæddist í Reykjavík 19. september 1935. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 7. ágúst 2022.
Foreldrar hans voru Helga Emilía Sigmundsdóttir húsmóðir, f. 24. nóvember 1906, d. 17. apríl 1974, og Guðmundur Nóvember Hannesson línumaður, f. 29. nóvember 1901, d. 13. febrúar 1990. Emil átti þrjú systkini, Sigmar Gunnar Hafstein, f. 25. janúar 1925, d. 27. nóvember 1999, Hannes Ingólf, f. 21. febrúar 1926, d. 27. desember 1998, og Henný Sigríði, f. 3. mars 1929, d. 22. febrúar 2021.
Emil ólst upp á Nönnugötu 10a og þótti alltaf vænt um gamla bæinn og þá sem bjuggu þar á hans æskuárum. Að loknu grunnskólanámi fór Emil í Verslunarskólann og útskrifaðist þaðan 1955, síðar fór hann í Loftskeytaskólann og útskrifaðist sem loftskeytamaður.
Hinn 4. október 1959 giftist Emil Jónu Vestmann, f. 24. apríl 1936, d. 2. ágúst 2012. Börn þeirra eru: 1) Margrét Vala, f. 27. september 1960, d. 9. maí 1992. 2) Ellen, f. 4. desember 1961, börn hennar eru Adam, f. 1985, Gústav Aron, f. 1986, og Margrét Vala, f. 1996. 3) Emil, f. 1. desember 1964. Langafabörnin eru fimm.
Emil og Jóna Vestmann bjuggu ásamt börnum sínum þremur á Akureyri til ársins 1971, þar starfaði Emil sem loftskeytamaður á togurum, vann við bókhald hjá KEA og var sýningarstjóri hjá Nýja bíói á Akureyri. Emil og Jóna slitu samvistir 1983.
Eftir að Emil flutti suður vann hann bankastörf, sýningarstörf í kvikmyndahúsum og síðustu 25 starfsárin var hann fulltrúi á Skattstofu Reykjavíkur.
Emil var giftur Helgu Sófusdóttur, f. 17. ágúst 1950, frá 1985-1991. Þau bjuggu sinn búskap í Hafnarfirði.
Eftirlifandi eiginkona Emils er Jóna Lára Pétursdóttir, f. 14. ágúst 1944, en þau giftust 20. mars 1992. Dætur Jónu Láru eru: 1) Steinunn, f. 23. mars 1964, gift Jóhannesi G. Harðarsyni, f. 11. júlí 1964, og þeirra dætur eru Lára Karitas, f. 2000, og Fanney Rún, f. 2003. 2) Guðný, f. 30. maí 1967, hennar dætur með fyrrverandi eiginmanni, Frosta Guðlaugssyni, f. 13. ágúst 1966, eru Sara Lind og Íris Dögg, f. 1998. 3) Lilja Margrét, f. 5. febrúar 1972.
Emil og Jóna Lára áttu gott og farsælt hjónaband, þau voru samrýnd og voru virk í ýmsum félagssamtökum sem tengjast sjálfsrækt og mannúðarstörfum. Emil og Jóna Lára ferðuðust mikið innanlands og utan.
Útför Emils fer fram frá Langholtskirkju í dag, 19. ágúst 2022, kl. 15.
Elsku Emil kom inn í okkar fjölskyldu fyrir rúmlega 30 árum, frá fyrstu stundu var nærvera hans þægileg og góð. Samband mömmu og Emils var einstakt, svo samtaka með alla hluti, þau voru alltaf best fannst okkur.
Á þessum tímamótum er efst í huga mér þakklæti fyrir stuðning og væntumþykju til okkar fjölskyldunnar. Alltaf uppörvandi og umfram allt styðjandi í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur, ef ég hafði áhyggjur af einhverju sagði Emil „mundu að allt hefur tilhneigingu til að fara vel“ og sú var og er raunin, ég hef tileinkað mér þessa hugsun og mun alltaf gera.
Stelpurnar mínar Lára Karitas og Fanney Rún hafa alltaf litið svo mikið upp til afa síns og eru þakklátar í dag – afinn sem tók ásamt ömmu á móti þeim báðum þegar þær komu til Íslands, þau voru mætt fyrst og alltaf góð og umhyggjusöm – ómetanlegt og gleymist aldrei.
Nú er komið að leiðarlokum en eftir standa minningar um yndislegan mann, góðar og skemmtilegar stundir – allt það góða sem Emil og mamma hafa gert fyrir okkur er fjársjóður í gullkistu minninganna.
Takk fyrir allt og allt.
Þín
Steinunn.
Elsku besti afi hvíldu í friði – ég mun hugsa til þín og sakna þín alla daga.
Þín
Fanney Rún.
Afi Emil vissi allt, hann rataði allt og þar sem þú komst þekktir þú ávallt einhvern. Það var því gjarnan sagt að ef afi vissi það ekki, þá vissi það enginn.
Þær eru margar minningarnar sem hafa orðið til í gegnum árin og erum við svo heppin að margar þeirra voru festar á filmu. Gjarnan var skroppið suður í vöfflukaffi til ömmu og afa og ef þið buðuð okkur í kvöldmat voru bjúgu á boðstólum. Við fórum í sumarbústaðaferðir saman og þeir voru ófáir rúntarnir sem þið amma tókuð í Borgarnes. Þú varst líka vanafastur maður og áttir þitt sæti hér á heimilinu okkar í Borgarnesi, þú fékkst þér alltaf ost og marmelaði ofan á brauð, en það fékk fljótt heitið „afa-álegg“.
Þú varst sannarlega traustur og hjartahlýr sem alltaf var hægt að leita til og reiðubúinn að hjálpa, hvort sem það var að leiða okkur um Reykjavíkina sem þú þekktir svo vel eða að skutla mér upp á flugvöll fyrir allar aldir.
Takk elsku frábæri og flotti afi minn fyrir stuðninginn, góðmennskuna, samtölin og hvatninguna í gegnum árin. Ég mun sakna þín – halda og heiðra minningu þína með stolti.
Takk fyrir tímann og minningarnar.
Þín
Lára Karitas.
Elsku afi okkar, hvíldu í friði.
Við elskum þig, alltaf.
Þínar afastelpur,
Sara Lind og
Íris Dögg.
Þín
Margrét Vala.
Emil eignaðist þrjú börn með fyrri konu sinni, Jónu Vestmann, en eldri dóttur sína, Völu Margréti, missti hann úr krabbameini fyrir aldur fram og það setti mark sitt á líf hans. Emil var afar stoltur af börnunum sínum og afa- og langafabörnum. Lífshamingjuna fann hann með seinni konu sinni, Jónu Láru Pétursdóttur. Þau voru afar samstiga og ríkti mikið traust og ást þeirra á milli. Þar sem Jóna var þar var Emil. Þau nutu þess að ferðast saman um landið okkar og einnig fóru þau víða erlendis.
Kæri frændi, blessuð sé minning þín. Hvíl í friði.
Emilía (Emma) og fjölskylda.
Þótt við skilnað þagni mál,
það úr vanda greiðir,
kveðju getur sála sál
sent um óraleiðir.
Gegnum tárin geisli skín,
gleði og huggun vekur.
Göfug andans áhrif þín
enginn frá mér tekur.
(Erla)
Þín
Lára.
Emil var einn af þeim sem tóku á móti mér í AA-samtökunum og urðum við vinir upp frá því. Emil var hógvær maður; hann tranaði sér aldrei fram, en viðmótið og brosið var alltaf hlýtt. Emil talaði ekki illa um nokkurn mann svo ég heyrði til; þvert á móti var hann umtalsgóður og umburðarlyndur. Lagði alltaf eitthvað gott til málanna.
Emil hitti ég fyrst á bernskuárum mínum á Akureyri. Þar var ég sendiherra, eins og það var kallað, hjá verksmiðjuafgreiðslu KEA. Þar þeyttist ég um bæinn á reiðhjóli alla daga með alls konar pappíra og skjöl, meðal annars á skrifstofuna til Emils sem var yfirmaður í bókhaldi KEA. Alltaf var hann ljúfmannlegur við þennan 12 ára gutta og sýndi mér vinsemd og talaði hlýlega til mín. Það var ekki sjálfsagður hlutur í framkomu fullorðinna við krakka á þessum árum.
Emil var hjálpsamur þegar leitað var til hans. Hann vann um áratuga skeið hjá Skattstjóraembættinu. Þar kom margur alkinn á hans fund og þáði hjálp og leiðbeiningar við að koma sínum málum á hreint gagnvart þeirri stofnun.
AA-fundirnir á Vífilsstöðum eru eftirminnilegir. Við tókum þátt í að manna fundina þar í fjölda ára. Því tengt sátum við svo fundi með læknum og hjúkrunarfólki Vífilsstaðaspítala sem lagði mikinn metnað í að AA-fundirnir gengju vel fyrir sig og þjónuðu tilgangi sínum.
Við Emil fórum saman með fundi inn á deild 33 á þriðju hæð á Landspítalanum í mörg ár. Það var ógleymanleg reynsla að fara með honum á þessa fundi. Við tókum aldrei lyftuna upp á þriðju hæð, heldur löbbuðum. „Við skulum nota lappirnar meðan við getum,“ sagði Emil gjarnan. Sama gerðum við að loknum fundinum; löbbuðum niður stigann.
Kæri vinur. Takk fyrir allt sem þú gafst mér á samferð okkar. Við sjáumst þótt síðar verði. Skilaðu kveðju og þakklæti til höfðingjanna þriggja.
Elsku Jóna mín. Votta þér og þínu fólki mína dýpstu samúð. Almættið gefi ykkur styrk í sorginni.
Guðjón Smári Valgeirsson.