Eldgos Björgunarsveitarmenn hafa komið mörgum til aðstoðar í Meradölum, stundum fólki sem er mjög vanbúið.
Eldgos Björgunarsveitarmenn hafa komið mörgum til aðstoðar í Meradölum, stundum fólki sem er mjög vanbúið. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Eðlilega gengur á ýmsu þegar þúsundir fólks mæta á eldgossvæði og leggja upp í langar ferðir um hrjóstrugt landslag þar sem nánast engir innviðir eru fyrir hendi,“ segir Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar. „Sumir hrasa eða meiða sig, aðra þrýtur kraft og einhverjir eru vanbúnir í langa gönguferð. Í stóra samhenginu hefur þetta samt gengið ótrúlega vel og björgunarsveitir biðjast alls ekki undan þessum verkefnum. Hins vegar má ekki um of ganga að því fólki sem sinnir sjálfboðaliðastarfi, eins og við höfum lagt áherslu á að undanförnu.“

Af öllu landinu í eldlínunni

Hundruð björgunarsveitarmanna af öllu landinu hafa að undanförnu sinnt gæslu og eftirliti við eldgosið í Meradölum og á gönguleiðunum sem að því liggja. Fyrsta kastið voru sveitir af Suðurnesjum í eldlínunni, en eftir því sem lengra hefur liðið hafa fleiri komið að málum. Nú til dæmis er fólk úr björgunarsveitinni á Dalvík á svæðinu.

Á síðasta ári voru endurnýjaðir samningar milli ríkislögreglustjóra annars vegar og Rauða krossins á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar hins vegar um að fyrrgreind samtök séu hjálparlið almannavarna í landinu. Hafa samtökin og þeirra fólk þá ákveðið skilgreint hlutverk í neyðarástandi, enda fara þjálfun og viðbragð eftir því.

„Við fögnum því að nú séu landverðir að mæta á vaktina í Meradölum auk þess sem sjúkraflutningalið verður nærri. Þetta mun klárlega létta miklu álagi af björgunarsveitunum, en sérhæfing þeirra liggur meðal annars í leit að týndu fólki, flytja slasaða til byggða, aðstoða lögreglu við að bægja fólki frá hættulegum aðstæðum og svo framvegis. Þetta er okkar hlutverk, en annarra að sjá um almenna þjónustu við þau sem að eldgosinu fara,“ segir Otti Rafn og að síðustu:

Mikil reynsla og góðar tekjur

„Nokkra daga tók að koma málum er lúta að landvörslu og öðru slíku í framkvæmd. Mér virðist því að mál séu öll að komast í góðan farveg. Þá hefur vinna við eldgosið skilað okkar fólki mikilli reynslu og björgunarsveitunum góðum tekjum – enda greiðir ríkið fyrir gæslustörf í almannavarnaástandi.“