Gengið hefur verið frá samkomulagi á milli Háskólans á Hólum og FISK Seafood ehf. á Sauðárkróki um nýtt húsnæði fyrir fiskeldis- og fiskalíffræðideild skólans.
Starfsemin hefur um langt árabil verið rekin með stuðningi FISK Seafood í húsnæði félagsins á Sauðárkróki en mun á næsta ári færast á tæplega tvö þúsund fermetra í nágrenni skólans í Hjaltadal. Húsnæðið var áður í eigu FISK Seafood en hefur nú verið gefið skólanum ásamt myndarlegum fjárstyrk til þess að flytja búnað deildarinnar og koma honum fyrir í nýjum húsakynnum.
Fram kemur í tilkynningu, að með þessu undirstriki FISK Seafood vilja sinn til þess að styðja áfram við bakið á þeirri mikilvægu starfsemi sem háskólinn starfrækir á sviði rannsókna og kennslu.
FISK Seafood áformar umtalsverðar byggingarframkvæmdir vegna nýs hátæknifrystihúss og fiskvinnslu á athafnasvæði sínu við höfnina á Sauðárkróki. Á meðal mannvirkja sem þurfa að víkja er húsnæði sem skólinn hefur haft afnot af án endurgjalds í tæpa tvo áratugi. Aðstaðan, sem FISK Seafood hefur nú gefið skólanum, hýsti áður bleikjueldi Hólalax í Hjaltadal sem var í eigu FISK Seafood en hefur nú verið lagt af.
Haft er eftir Hólmfríði Sveinsdóttur, rektor Háskólans á Hólum, í tilkynningunni, að um sé að ræða mikilvægt skref í áttina að framtíðaráformum um byggingu á nýju kennslu- og rannsóknahúsnæði á Sauðárkróki fyrir starfsemi Fiskeldis- og fiskalíffræðideildarinnar.